27. maí 2007 | Aðsent efni | 543 orð | 1 mynd

Ofbeldi gegn lögreglumönnum – hvað er til ráða?

Ólafur Örn Bragason skrifar um félagsþjónustu til handa lögregluþjónum

Ólafur Örn Bragason
Ólafur Örn Bragason
Ólafur Örn Bragason skrifar um félagsþjónustu til handa lögregluþjónum: "Til að draga úr skaðlegum áhrifum ofbeldis í starfi þarf að koma til móts við þarfir lögreglumanna fyrir fræðslu og stuðning."
FLESTUM er ljóst að lögreglustarfið er krefjandi og hættulegt starf. Samkvæmt nýlegum íslenskum rannsóknum sem gerðar voru af embætti ríkislögreglustjóra eru það framlínustarfsmenn lögreglunnar, þ.e. þeir sem starfa við almenna löggæslu, sem helst verða fyrir ofbeldi í starfi. Gerendur í þessum málum eru oft ungir karlmenn undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Þessi atvik eiga sér oftast stað á næturnar um helgar þegar óspektir eru á almannafæri eða á umráðasvæði lögreglu. Líkamleg meiðsli lögreglumanna eru yfirleitt smávægileg en lítið er vitað um sálræn eftirköst ofbeldisins, sem geta verið kvíði, depurð, doði, hræðslutilfinning og niðurlæging.

Hvernig má bæta starfsumhverfi lögreglumanna og draga úr líkum á meiðslum í starfi? Samstarf við almenning er lögreglu mikilvægt. Án stuðnings almennings nær lögreglan ekki að sinna nægjanlega vel lögbundnu hlutverki sínu svo sem að stemma stigu við afbrotum og vinna að uppljóstran brota. Úti á vettvangi starfar lögreglan eftir fyrirfram ákveðnu verklagi sem leiðir af löggjöf og öðrum fyrirmælum og almenningur gerir sér ekki alltaf grein fyrir. Almenningur þekkir ekki forsögu máls og lögreglan má ekki deila upplýsingum um einstaka mál með almenningi til að skýra mál sitt á vettvangi. Lögreglumenn þurfa því að huga að því á vettvangi að almenningur býr ekki alltaf yfir þekkingu á verklagi þeirra. Þetta þarf að hafa í huga til dæmis þegar lögregla beitir viðurkenndum lögreglutökum með festu til að koma í veg fyrir að lögreglumönnum sé sýnt ofbeldi.

Til að draga úr skaðlegum áhrifum ofbeldis í starfi þarf að koma til móts við þarfir lögreglumanna fyrir fræðslu og stuðning. Embætti ríkislögreglustjóra hefur nú, með fulltingi dómsmálaráðherra, hrint af stað þróunarverkefni til að styrkja lögreglumenn í þessum efnum. Eitt af því sem mikilvægast er að huga að í kjölfar áfalla af völdum ofbeldis er stuðningur frá þeim sem standa manni nærri, þ.e. vinum, ættingjum og vinnufélögum. Þessi aðferð hefur verið notuð með skipulögðum hætti, m.a. í Danmörku og Bandaríkjunum, þar sem lögreglumenn styðja aðra lögreglumenn á erfiðum tímum. Á Íslandi hefur þetta fyrirkomulag tíðkast hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins undir heitinu félagastuðningur. Grunnhugmyndin með félagastuðningi er sú að hagnýta sér þá staðreynd að á hverjum vinnustað er að finna fólk sem þægilegt er að tala við; hefur góða nærveru og nýtur trausts vinnufélaganna. Þetta fólk hefur gjarna reynslu af því að veita félagastuðning, þó ekki með kerfisbundnum eða formlegum hætti. Með því að skipuleggja þennan stuðning með formlegum hætti er unnt að nýta þetta fólk betur með því að þjálfa það sérstaklega, gera starf þess markvissara og veita því nauðsynlega viðurkenningu í starfi. Þeir sem taka að sér að veita félagastuðning hafa það hlutverk að vera stuðningsfélagar fyrir þá vinnufélaga sína sem lent hafa í alvarlegu áfalli eða ráða ekki lengur við aðstæður vegna uppsafnaðs álags. Þeir sem taka að sér þennan stuðning sinna bráðaþjónustu. Aðstoð þeirra kemur hins vegar ekki í stað fagaðstoðar og þurfa þeir því að geta vísað á slíka þjónustu ef þörf er á. Til þeirra geta félagarnir leitað eftir aðstoð og hjá þeim eiga þeir að fá hvatningu og leiðsögn, til dæmis til að leita til sérfræðinga á sviði áfallahjálpar og streitustjórnunar þegar svo ber undir. Takist að tryggja lögreglumönnum þjónustu við hæfi, og þannig betra starfsumhverfi, eykur það líkurnar á að markmiðum löggæsluáætlunar 2007-2011 um ánægt, agað og heilbrigt starfslið verði náð.

Höfundur er sálfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.