27. maí 2007 | Innlendar fréttir | 477 orð

Stór lífmassaverksmiðja til skoðunar á Norðurlandi

*Kostar um 800 milljónir króna *Raforkuframleiðslugetan tæp þrjú megavött

Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is HLUTAFÉLAGIÐ Molta ehf., sem var stofnað í kringum fyrirhugaða jarðgerðarverksmiðju í Eyjafjarðarsveit, hyggst kanna fýsileika þess að reisa lífmassaverksmiðju sem framleitt geti orku úr lífrænum úrgangi.
Eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

HLUTAFÉLAGIÐ Molta ehf., sem var stofnað í kringum fyrirhugaða jarðgerðarverksmiðju í Eyjafjarðarsveit, hyggst kanna fýsileika þess að reisa lífmassaverksmiðju sem framleitt geti orku úr lífrænum úrgangi. Yrði slík framkvæmd viðbót við verksmiðju sem framleiddi jarðvegsbætinn moltu á svæðinu og kosta mun um 350 milljónir króna með vélum og búnaði í fyrsta áfanga.

Í lífmassaverksmiðju er úrgangur meðhöndlaður og úr honum unnið gas sem má nýta til orkuvinnslu.

Að sögn Sigmundar Ófeigssonar, framkvæmdastjóra Norðlenska og stjórnarmanns í Moltu, er áætlað að um 250.000 tonn af búfjáráburði falli til á Eyjafjarðarsvæðinu árlega, eða um 23.400 tonn að þurrvigt.

Úr honum megi vinna 2,8 milljón rúmmetra af metangasi, sem nýtist til raforkuframleiðslu, eða sem eldsneyti. Allt að 3.200 bíla mætti knýja með gasinu og framleiða um 10 gígavattstundir af orku á ári í tæplega þriggja megavatta orkuveri.

Sigmundur segir slíka verksmiðju mundu kosta um 800 milljónir króna og því væri stofnkostnaður mikill. Hún sé dýrari en aðrir orkukostir, en komi til förgunargjald á allan lífræna úrganginn, þ.m.t. búfjárúrgang, líkt og vænta megi, breytist reikningsdæmið. Bygging álvers fyrir norðan gæti einnig haft veruleg áhrif hvað orkuna snertir. Hann bendir jafnframt á að með því að vinna allan áburðinn í slíkri verksmiðju væri verið að skapa ígildi 70.000 tonna Kýótó-losunarkvóta sem væri "milljóna virði".

Kaupa jarðvegsverksmiðju

Molta ehf. mun staðfesta kaup á moltugerðarverksmiðju innan tveggja mánaða sem mun framleiða um 4.500 tonn af jarðvegsbætinum moltu úr 9.000 tonnum af lífrænum úrgangi og er kostnaður sem fyrr segir áætlaður um 350 milljónir króna. Mörg fyrirtæki og sveitarfélög koma að verkefninu og stendur til að hefja gangsetningu næsta ár.

Um fyrsta áfanga yrði að ræða og er ráðgert að þriðja og síðasta áfanga muni ljúka seint á árinu 2011 og framleiðslugetan þá verða um 11.000 tonn úr 20.700 tonnum af úrgangi, eða sem nemur 91% af lífræna úrganginum frá fyrirtækjum og heimilum á Eyjafjarðarsvæðinu.

Líkt og önnur sveitarfélög á landinu þurfa Eyfirðingar að draga úr urðun lífræns úrgangs vegna tilskipana frá Evrópusambandinu.

Miðast þær við að 1. janúar 2009 hafi urðun lífræns úrgangs minnkað niður í 75% af viðmiðun árið 1995. Rúmum fjórum árum síðar, eða 1. júlí 2013, á hlutfallið að vera komið niður í 50% af viðmiðunarmagninu og svo niður í 35% sama dag 2020.

Draga kann til frekari tíðinda í sorpmálunum fyrir norðan en verið er að skoða hvort lífrænum úrgangi verður safnað í sértunnur við heimili á Akureyri.

Í hnotskurn
»S jö stór fyrirtæki koma að verkefninu, Norðlenska, Samherji, Brim, Gámaþjónustan, Kjarnafæði, B. Jensen og Sagaplast, auk níu sveitarfélaga við Eyjafjörð.
» Hugmyndin undirstrikar hversu mikil alvara er að baki þeim ásetningi að umbylta sorphirðu á Eyjafjarðarsvæðinu og gera hana nútímalegri og grænni.
» Molta ehf. mun einnig festa kaup á 350 milljón króna moltugerðarverksmiðju á næstu mánuðum.
» Lífmassaverksmiðja þykir henta einkar vel fyrir mikið magn lífræns úrgangs, líkt og búfjárúrgang, og á stórum þéttbýlissvæðum.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.