Frá Guðvarði Jónssyni: "NÚ hefur ný ríkisstjórn tekið við völdum og sennilega komið fáum á óvart hversu fórnfús formaður Samfylkingarinnar varð, til að tryggja flokknum stólana."
NÚ hefur ný ríkisstjórn tekið við völdum og sennilega komið fáum á óvart hversu fórnfús formaður Samfylkingarinnar varð, til að tryggja flokknum stólana. Mesta furðu mun þó sú ákvörðun vekja að hunsaður skyldi sá vilji, yfir 80% þjóðarinnar, að Ísland skyldi tekið út af lista hinna viljugu þjóða. Þetta sýnir að skoðanir foringjanna einar gilda. Ráðherralisti sjálfstæðismanna sýnir að einræði ríkir í flokknum.

Jóhanna Sigurðardóttir er aftur orðin ráðherra félags- og velferðarmála og mun hún leggja mikið kapp á að bæta stöðu þeirra sem verst eru settir afkomulega séð. Hún mun þó vera minnug þess að þegar hún var síðast ráðherra voru flestar hennar tillögur til úrbóta í þessum málaflokk togaðar og teygðar þar til þær voru lítils virði fyrir þá sem njóta áttu og margir þeirra urðu óánægðir og sáðu slíkum fræjum út í þjóðfélagið svo hún hlaut lítinn hróður af, en tjónsvaldarnir böðuðu sig í ljómanum, með bros á vör. Ekki er líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn ætli Jóhönnu fremur nú að auka fylgi sitt með störfum í ráðuneytinu, hún má því beita allri sinni hörku og kænsku til að ná tillögum fram sem raungildi hafa fyrir þá sem njóta eiga. Formaður Samfylkingarinnar mun aftur á móti fyrst nú vera kominn heim.

GUÐVARÐUR JÓNSSON,

Hamrabergi 5, Reykjavík

Frá Guðvarði Jónssyni