Í Laugardalnum Bjarni á heima nærri Laugardalnum en hann fer þangað ásamt konu sinni Jónu Hrönn, sem einnig er prestur, oft í viku í göngutúra um dalinn og eru þau þá iðulega að semja saman prédikanir og segir hann það hafa reynst þeim vel að vinna með þessum hætti.
Í Laugardalnum Bjarni á heima nærri Laugardalnum en hann fer þangað ásamt konu sinni Jónu Hrönn, sem einnig er prestur, oft í viku í göngutúra um dalinn og eru þau þá iðulega að semja saman prédikanir og segir hann það hafa reynst þeim vel að vinna með þessum hætti. — Morgunblaðið/G.Rúnar
Bjarni Karlsson, prestur í Laugarneskirkju, vill að þjóðkirkjan opni hjónabandið fyrir samkynhneigðu fólki og vinnur að ritgerðarskrifum um þetta málefni.

Bjarni Karlsson, prestur í Laugarneskirkju, vill að þjóðkirkjan opni hjónabandið fyrir samkynhneigðu fólki og vinnur að ritgerðarskrifum um þetta málefni. Inga Rún Sigurðardóttir ræddi við hann um karlaveldi, kynverund, kynfrelsi og margar stærstu spurningarnar sem fólk tekst á við í nútímasamfélagi.

SÉRA Bjarni Karlsson hefur einbeitt sér meira að kynlífssiðfræði en sóknarbörnunum undanfarið en hann hefur verið í námsleyfi síðustu fimm mánuði. Ástæða leyfisins er meistararitgerð sem Bjarni er að vinna við guðfræðideild Háskóla Íslands og stóra spurningin sem hann er að fást við í ritgerðinni er þessi: Á íslenska þjóðkirkjan að opna hjónabandið fyrir samkynhneigðu fólki?

"Þetta er spurningin sem ég spyr í upphafi og er að svara allan tímann," segir Bjarni. Í stuttu máli svarar hann því játandi að samkynhneigðir eigi að hafa aðgang að hjónabandinu en ritgerðin er um 200 blaðsíður. Hann spyr hvað það sé í kristnum trúararfi sem styðji við kynöryggi og kynheilsu og kemst að því að það sé ekki eitt heldur allt. Hann horfir ekki á viðfangsefnið frá sjónarhóli skipulags og stjórnunar heldur segir þetta vera "guðfræði neðan frá, frekar en ofan frá."

"Ég bankaði upp á fyrir bráðum þremur árum hjá dr. Sólveigu Önnu Bóasdóttur siðfræðingi, sem starfar hjá Reykjavíkurakademíunni um leið og hún er stundakennari við guðfræðideildina. Ég fékk hana til að leiðbeina mér og var búinn að lesa mér til í tvö ár áður en ég fór í námsleyfið. Það eru þvílík forréttindi að hafa fengið frí á launum til þessa," segir Bjarni og kallar leyfið "himnasendingu". "Öllu fólki er nauðsynlegt einhvern tímann á ævinni að standa upp frá sínu starfi, varpa af sér byrðunum og endurnýja kraftana." Hann hefur starfað samfleytt sem prestur frá 1990 og 1. júní næstkomandi hefur hann verið sóknarprestur í Laugarneskirkju í níu ár.

Kirkjan aðili að réttlæti og ranglæti

"Málefni samkynhneigðra eru mikið rædd í þjóðfélaginu og þjóðkirkjunni. Það þarf að nást sátt varðandi stöðu samkynhneigðs fólks í okkar samfélagi. Annað er óásættanlegt. Kirkjan sem afl er aðili að bæði réttlæti og ranglæti í samfélaginu og er samábyrg með öllum öðrum stofnunum um það sem hægt er að kalla félagslegt og menningarlegt ranglæti."

Hugtak sem Bjarni fæst mikið við í ritgerðinni er kynverund, sem hann skilgreinir sem hæfni manneskjunnar til að stíga út fyrir sjálfa sig og skapa djúp og innihaldsrík tengsl. Hann vill gjarnan að þetta hugtak festi sig í sessi í íslensku máli.

Umfjöllun um réttindi samkynhneigðra er nátengd réttindum kvenna, að sögn Bjarna. Hann skoðar málið út frá sjónarhóli þeirra sem þola ranglæti, lifa ekki við kynferðislegt öryggi eða njóta ekki kynfrelsis. Hann veltir jafnframt fyrir sér hvaðan þetta ranglæti sé komið og kemst að því að maðurinn sé ekki svona vondur í eðli sínu heldur stjórnist hann af ótta sínum við dauðann. "Við tortryggjum efnisheiminn og líkamann vegna þess að okkur virðist það vera hann sem dregur okkur í gröfina." Samkvæmt því sem má kalla platónskan kristindóm höfum við tvískipt veruleikanum í hið andlega og efnislega í tilraun til að takast á við þennan ótta."

Hið karllæga vald

"Svo hefur það gerst í menningu okkar að við höfum karlkennt hið andlega og kvengert við efnislega. Við tölum um guð föður og móður jörð. Við höfum tileinkað hinu karllega skynsemi, festu, stjórnun. En við höfum tileinkað konunni líkamann, náttúruna og allar hinar líkamsmiðuðu tilfinningarnar. Við höfum gríðarlega þörf til að hafa stjórn á efnisheiminum af því að við óttumst hann. Og það hefur einhvern veginn gerst að við höfum gert valdamisvægi kynferðislega aðlaðandi þar sem karlmaðurinn er ríkjandi og konan víkjandi. Þetta er ævaforn arfleifð sem tengist tvíhyggjunni," segir hann og ræðir um þetta sem skort á kynöryggi og kynheilsu. "Klám snýst til dæmis ekki um nekt heldur um að sýna kynferðisleg samskipti þar sem viðfangið er auðmýkt," útskýrir hann.

"Af hverju erum við þá svona hrædd við samkynhneigð?" spyr Bjarni og svarar: "Það er vegna þess að samkynhneigð sambönd brjóta upp þetta ævaforna valdakerfi karla yfir konum, hið gagnkynhneigða valdamunstur. Samkynhneigt par hefur stigið út úr rammanum og samþykkt tilfinningar sem eru ekki í meginstraumnum."

Hann segir karllæga valdið vilja stýra efnisheiminum og samkynhneigðir, og þá sérstaklega hommar, séu svikarar við þennan málstað. Þeir ögri samfélaginu jafnvel meira en lesbíur. "Karlaveldinu finnst í lagi með lesbíur nema hvað að það er ákveðin móðgun því karlarnir eiga ekki séns í þær. Hommarnir eru mikil ögrun því þeir eiga að vera með í okkar liði en svíkja málstaðinn."

Bjarni spyr líka hvaða þættir það séu í kristinni trú sem styðja við kynöryggi og kynheilsu og notast við skilgreiningar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO í þeim efnum. Hann svarar því til að það sé "ekki eitt heldur allt. Kristin hefð hefur allar forsendur til þess að vera varnarþing kynverundarinnar," segir hann.

Jafningjasamskipti aðlaðandi

"Trúin færir okkur þá frétt að jafningjasamskipti séu kynferðislega aðlaðandi og yfir höfuð bæði möguleg og æskileg. Við þurfum ekki að gera valdamisvægi kynferðislega aðlaðandi. Jafningjasamskipti eru það sem er spennandi og áhugavert. Jesús Kristur iðkaði jafningjasamskipti við allt fólk og endurskilgreindi fyrir okkur hvað það er að vera sönn manneskja. Karlmennska mín þarf ekki og má ekki vera fólgin í því að meðhöndla þvingunarvald."

Eftirfarandi þrjá punkta notar Bjarni í ritgerðinni. Í fyrsta lagi er líkaminn góður og það sem honum viðkemur. Í öðru lagi eru jafningjasamskipti bæði möguleg og erótísk. Í þriðja lagi eigum við að hugsa mannmiðlægt þegar við hugsum siðferðislega, sumsé ekki ofan frá heldur út frá hinu lifaða lífi, því að guð hefur gerst maður í Jesú Kristi. Og eftirfarandi setningu segir hann vera rammasetningu í ritgerðinni þar sem hann hafnar tvíhyggjunni: "Veruleikinn er einn og allir menn eru aðilar að honum, því höfnum við framandleikanum sem viðmiði í mannlegum samskiptum."

Hann segir misrétti gagnvart samkynhneigðum sprottið upp af nákvæmlega sömu hvötum og þegar náttúrunni, útlendingum eða konum sé ýtt til hliðar.

"Við lifum á tímum þar sem keðjan er byrjuð að rakna upp, þótt klámheimurinn sé meira uppi á yfirborðinu nú en áður. Samfélag okkar er búið að komast að þeirri niðurstöðu að samkynhneigð sé heilbrigð og æskileg kynhneigð rétt eins og gagnkynhneigð. En hverjir draga lappirnar? Það er kirkjan," segir Bjarni og bætir við að þetta sé ein ástæða þess að hann sem kennimaður í kirkjunni hafi farið af stað í ritgerðarvinnuna.

"Ég er að leita að ásættanlegum sjónarhóli í kristinni kynlífssiðfræði og rannsaka í þeim tilgangi skrif fjögurra guð- og siðfræðinga. Ég kanna hvort þeir uppfylli viðmiðin sem ég hef sett mér. Loks enda ég á því að taka álit kenningarnefndar þjóðkirkjunnar sem lá fyrir prestastefnu í vor og greini það með sömu aðferðum. Ég spyr hvort þar sé á ferðinni ásættanlegur sjónarhóll fyrir kristna kynlífssiðfræði og kemst að þeirri niðurstöðu að svo er ekki að öllu leyti."

Siðferðisþrek og trúarkjarkur

Bjarni vill þó benda á að það sé ekkert í áliti kenningarnefndarinnar frá síðustu prestastefnu sem fordæmir líf og ástir samkynhneigðra. "Það eru góðir og mikilvægir hlutir að gerast innan þjóðkirkjunnar."

Hvað stendur þá í veginum?

"Íslenskum kennimönnum er ljóst að það er ekkert í trúargrundvellinum sem bannar hjónaband samkynhneigðra eða krefst þess að samkynhneigð sé fordæmd. Þetta er að mínu áliti spurning um siðferðisþrek og spurning um trúarkjark."

Fólk hefur oft spurt Bjarna af hverju honum sé þetta málefni svona hugleikið og kann hann svar við því. "Vegna þess að ef einstaklingur fær þau skilaboð úr umhverfi sínu að hann megi ekki treysta sjálfum sér og að grundvallarhæfni hans til að tengjast og finna tilgang í lífinu er á einhvern hátt ljót er verið að framkvæma sálarmorð á þessum einstaklingi."

Orð hans eru sterk en hann segist vita það af eigin starfsreynslu að það að koma út úr skápnum, fyrir fjölskyldunni, getur verið upp á líf og dauða.

"Mér varð snemma mjög ljóst að kennimannsstarfinu innan kirkjunnar fylgja mikil völd. Ég man þegar við hjónin fórum fyrst að tala um hvað það hefði mikil áhrif sem sagt væri og gert innan kirkjunnar. Því meiri áhrif sem þú hefur, því meira verður þú að vanda þig," segir Bjarni en kona hans er Jóna Hrönn Bolladóttir, prestur í Garðabæ og á Álftanesi.

"Ég má ekki standa fyrir framan unglingahóp í fermingarfræðslunni og segja að samkynhneigðir eigi ekki að njóta sömu mannréttinda og gagnkynhneigðir. Unglingar eru svo næmir fyrir réttlætinu og óréttlætinu. Við skuldum þeim góð skilaboð um virðingu fyrir öllu fólki svo við getum átt trúnað þeirra sem andlegir leiðbeinendur."

Hann segir að við verðum að spyrja að inntaki en ekki formi samskipta.

"Hver eru gæðin í kynferðislegum tengslum? Gæðin liggja ekki í því að þarna standa aðilar með ólík kynfæri. Þau liggja í þeim trúnaði, virðingu og kærleika sem ríkir á milli þessara einstaklinga. Enda þegar hjón standa fyrir altarinu á brúðkaupsdaginn er ekki spurt að kyni, það er spurt að inntaki samskiptanna. Þess vegna má kristin kirkja ekki skilgreina hjónabandið út frá kyni því gæði þess að eiga sér lífsförunaut liggja ekki í líkamsgerð hjónanna."

Tími tiltalsins liðinn

Bjarni segir að samtíminn vilji samtal og tími tiltalsins sé liðinn. "Tími kirkjulegrar valdstjórnunar er algjörlega liðinn. Það er enginn að spyrja: Hvernig finnst prestinum að ég eigi að haga kynlífi mínu? Og kirkjan verður að hætta að svara þeirri spurningu, annars sviptum við þjóðina kirkjunni og það höfum við ekki leyfi til að gera."

Hann segir spurninguna um tilgang lífsins verða sífellt meira knýjandi. "Á öldinni sem leið var verið að spyrja: Hvað er hægt að gera? Verið var að fara yfir allskonar þröskulda og ná tökum á tækni- og vísindalegum atriðum. Núna er allt hægt. Spurningin er frekar: Hvað er rétt að gera?"

Og meira um samtímann: "Það sem er að meiða okkur svo mikið í vestrænni menningu er einsemdin, framandleikinn og tilgangsleysið. Skortur á tengslum og sjálfræði og þar af leiðandi skortur á tilgangi. Við höfum svo lítið sjálfræði nema sem neytendur á markaði. Okkar sjálfræði er í Kringlunni."

Bjarni er hrifin af Netinu og samskiptunum sem fara þar fram. "Þar eru stórkostlegir hlutir að gerast og fólkið fær rödd. Mannsandinn opnast og fólk getur miðlað skoðunum óhindrað. Vissulega felur Netið líka í sér margvíslegan ljótleika en það gefur okkur líka miklar upplýsingar. Þetta er öflugasta samtal sem nokkru sinni hefur átt sér stað og út úr þessu mun koma áframhaldandi þroski mannkyns."

Málið undir niðri í höfn

Á þjóðkirkjan eftir að leyfa hjónaband samkynhneigðra í náinni framtíð?

"Ég er sannfærður um að þetta málefni er undir niðri í höfn og að þetta leysist á næstu misserum. Þau sem mestu ráða innan kirkjunnar eru skynsamar og góðar manneskjur. Það eru margir sem styðja þennan málstað og það væri rangt að segja að það væri einhver óvild í garð samkynhneigðra af hálfu þjóðkirkjunnar. Það er fullur vilji hjá yfirstjórn kirkjunnar að leiða þessi mál til farsælla lykta en það þarf að fara yfir ákveðna félagslega og tilfinningalega þröskulda."

Um þessar mundir fer mikil umræða fram innan þjóðkirkjunnar um stöðu samkynhneigðra og málefni þeirra. "Á kirkjuþingi á komandi hausti verða teknar stefnumótandi ákvarðanir varðandi aðgengi samkynhneigðra að hjónabandinu. Umræðan hefur farið fram árum eða áratugum saman en nú er komið að ákveðnum þáttaskilum."

Ritgerð Bjarna er innlegg í þessa umræðu en hann stefnir á að vera fram á haust að ganga frá ritgerðinni en hann útskrifast í október. Hann hyggst nota efnið áfram í sinni vinnu en hann býður jafnan vikulega upp á trúfræðslu fyrir fullorðið fólk. "Þetta er viðleitni mín og þátttaka í þessari umræðu. Ég er að reyna að vinna mína vinnu af sem mestri ábyrð. Ég er bara að prédika inn í samtímann."

Í hnotskurn
» Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er að trúfélögum verði veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra.
» Tillaga hóps presta og guðfræðinga um að prestum verði heimilt að annast hjónavígslu samkynhneigðra var felld með 64 atkvæðum gegn 22 á prestastefnu í Húsavík í lok apríl.
» Kirkjuþing verður haldið á komandi hausti og má búast við því að þar verði teknar stefnumótandi ákvarðanir í málefnum samkynhneigðra.