Bylting Svona fínar græjur voru ekki á hvers manns færi að kaupa.
Bylting Svona fínar græjur voru ekki á hvers manns færi að kaupa.
"ÞÚ SETUR bara spóluna í gang og kveikir svo á fimmtudeginum..." Einhvern veginn á þessa leið voru auglýsingar sem hljómuðu fyrir hátt í 30 árum og höfðu það að markmiði að sannfæra landann um hvílíkir kostagripir myndbandstæki væru.
"ÞÚ SETUR bara spóluna í gang og kveikir svo á fimmtudeginum..."

Einhvern veginn á þessa leið voru auglýsingar sem hljómuðu fyrir hátt í 30 árum og höfðu það að markmiði að sannfæra landann um hvílíkir kostagripir myndbandstæki væru. Sá möguleiki að varðveita sjónvarpsefni á vídeóspólu var enda mikil bylting frá því að þurfa að stilla sig eftir stundatöflu Ríkissjónvarpsins.

Álíka bylting varð þegar Rás tvö var sett á laggirnar og persónuleg kasettuútgerð manns var ekki lengur bundin við Lög unga fólksins eitt kvöld í viku. Skyndilega jókst framboðið af sjóðandi heitri tónlist margfalt svo iðnir unglingar gátu verið í fullri vinnu við að taka upp. Að vísu var dálítill galli á gjöf Njarðar hvað nýir og frískir útvarpsmenn voru málglaðir svo upptökurnar urðu hálfampúteraðar fyrir vikið. Fæstir létu það þó stöðva sig heldur stóðu í stórbrotinni kasettuframleiðslu nótt sem nýtan dag.

Nú berast tilkynningar um andlát kasettunnar utan úr heimi. Þótt ég standi í flutningum get ég engan veginn fengið mig til að henda gamla kasettusafninu mínu þar sem m.a. er að finna fyrstu útsendingu Rásar tvö með ávarpi útvarpsstjóra "og alles." Ég er líka búin að setja niður myndbandsspólur í kassavís þótt allt virðist benda til þess að örlög þeirra verði þau sömu.

Það er ekki einber tilfinningasemi sem ræður. Sjónvarpstækið mitt er nefnilega svo gamalt að það er ekki nokkur leið að tengja DVD spilara við það.

Bergþóra Njála Guðmundsdóttir