27. maí 2007 | Kvikmyndir | 268 orð | 1 mynd

KVIKMYNDIR - Smárabíó, Laugarásbíó, Sambíóin og Selfossbíó

Langavitleysan lengist

Sjóræningjar Karíbahafsins: Á hjara veraldar (Pirates of the Caribbean: At World's End) stjörnugjöf: 2

Knightley og Depp "Frammistaða Depps er raunar það eina sem hægt er að festa hugann við í kvikmynd sem einkennist af viðvarandi athyglisbresti."
Knightley og Depp "Frammistaða Depps er raunar það eina sem hægt er að festa hugann við í kvikmynd sem einkennist af viðvarandi athyglisbresti."
Leikstjórn: Gore Verbinski. Aðalhlutverk: Johnny Depp, Keira Knightley, Orlando Bloom, Geoffrey Rush o.fl. Bandaríkin, 168 mín.
SJÓRÆNINGJAR Karíbahafsins eru mættir til leiks í þriðja sinn og enn lengist langavitleysan, en nýjasta myndin er tæpir þrír tímar að lengd og drekkhlaðin af ævintýrum og tæknibrellum. Eins og fyrr spilast ævintýrið út innan skemmtilegrar heimsmyndar, þar sem siðmenningin tekst á við hin villtu öfl sjóræningjamenningarinnar. En hér eru sjóræningjarnir góðu gæjarnir en fulltrúar heimsvaldasinnaðrar vestrænnar menningar eru illskan uppmáluð. Heimur þeirra Jack Sparrows og félaga er jafnframt laus í reipunum þegar kemur að mörkum lifenda og dauðra og ýmsum eðlisfræðilegum lögmálum. Þannig sigla hetjurnar meðal annars fyrir endimörk alheimsins, sem er vitanlega flatur eins og gömul sjóræningjakort gefa til kynna og halda til heljar til þess að sækja Jack Sparrow. En því miður er ævintýraframvindan sem á sér stað innan þessa hugmyndaríka söguheims lítið annað en ruglingsleg steypa sem knúin er áfram af óðagoti fremur en sagnagleði. Sagan fer frá einu bardaga- og tæknibrelluatriðinu til annars og þróun persónanna og söguþráðarins er troðið inn þar sem hún kemst fyrir í miklum flýti. Þannig sver sagan sig í ætt við uppruna sinn – rússibana í skemmtigarði sem gengur hring eftir hring. Hvorki Orlando Bloom né Keira Knightley ná að yfirgnæfa skarkalann með fremur veikri og útlitsmeðvitaðri frammistöðu sinni, en Johnny Depp heldur sínu striki og vel það í hlutverki Jacks Sparrows. Aðrir leikarar, á borð við Geoffrey Rush og Bill Nighy gera sitt besta til að fóta sig í æðibunuganginum, og innkoma Keith Richards (innblásturs Depps að þróun Jack Sparrow persónunnar), er aðeins í mýflugumynd. Frammistaða Depps er raunar það eina sem hægt er að festa hugann við í kvikmynd sem einkennist af viðvarandi athyglisbresti.

Heiða Jóhannsdóttir

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.