27. maí 2007 | Aðsent efni | 618 orð | 1 mynd

Ólympíustærðfræði í sókn

Chien Tai Shill segir frá nýjungum í stærðfræðikennslu

Chien Tai Shill
Chien Tai Shill
Chien Tai Shill segir frá nýjungum í stærðfræðikennslu: "Ólympíustærðfræðin hefur kennt börnunum að stærðfræði getur verið skemmtilegt tómstundagaman."
ÓLYMPÍUSTÆRÐFRÆÐI fyrir grunnskólabörn er ný og skemmtileg aðferð til að leiða börnum fyrir sjónir hversu skemmtileg stærðfræðin getur verið. Hún byggist á þrautum sem eru settar fram í formi keppna. Þær reyna á hugmyndaflug og rökhugsun. Þetta eru skemmtileg og ögrandi verkefni fyrir þá sem hafa gaman af að glíma við þrautir og að reikna. Áhersla er lögð á ánægju af stærðfræði, innsæi og samvinnu.

Ég kynntist ólympíustærðfræði fyrir grunnskólanema í Bandaríkjunum þegar elsti sonur minn tók þátt í námskeiði þar. Hann saknaði þess að geta ekki haldið áfram í ólympíustærðfræði þegar fjölskyldan flutti heim til Íslands og yngri bróðir hans var svekktur að fá ekki líka að spreyta sig á stærðfræði í keppnisanda. Úr varð að ég gekk til liðs við Háskólann í Reykjavík til að koma á fót ólympíustærðfræði fyrir grunnskóla á Íslandi. Undirbúningur hófst árið 2005 og var eitt námskeið haldið í Hlíðaskóla skólaárið 2005-2006, með 26 nemendum. Efnið er fengið frá Bandaríkjunum og var prófað með íslenskum nemendum, þýtt og staðfært. Skólaárið 2006-2007 var svo blásið til sóknar í ólympíustærðfræði og Háskólinn í Reykjavík bauð upp á námskeið í 15 grunnskólum í Reykjavík auk þess sem nemendum bauðst að sækja námskeið í Háskólanum í Reykjavík. Öflugur liðsstyrkur var fenginn frá fjárfestingarfélaginu Eyri, Kaupþingi og Menntasviði Reykjavíkurborgar til þess að niðurgreiða námskeiðskostnaðinn.

Viðtökurnar voru framar björtustu vonum, í haust mættu um 700 krakkar í kynningar á ólympíustærðfræði. Það var mjög ánægjulegt að sjá hve margir mættu með opinn huga fyrir því að prófa ólympíustærðfærði. Um 400 nemendur skráðu sig síðan til þátttöku í námskeiðum í ólympíustærðfræði, þar af voru 45% drengir og 55% stúlkur. Námskeiðið stóð í 20 vikur, með vikulegum æfingum og mánaðarlega var blásið til keppni. Þátttakendur söfnuðu stigum í 5 keppnum yfir árið. Í lok mars var svo haldið lokahóf í Háskólanum í Reykjavík þar sem helmingi allra þátttakenda voru veitt verðlaun. Efstu 50% fengu silfurverðlaunapening, efstu 10% fengu gullverðlaunapening og stigahæsti einstaklingur í hverju liði fékk bikar. Það var stórkostleg stund að sjá fullan sal af börnum og fjölskyldum þeirra samankomin til að fagna árangri þeirra og ástundun í stærðfræði.

Ólympíustærðfræði byggist á þungum þrautum sem nemendur leysa með dyggri aðstoð leiðbeinenda. Leiðbeinendur eru nemendur í kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík. Með því að takast reglulega á við verkefni af þessu tagi byggja nemendur upp færni í þrautalausnum sem nýtist þeim almennt í námi sínu og jafnframt í öðru sem þau taka sér fyrir hendur. Nemendur kynnast spennandi og skemmtilegri hlið stærðfræðinnar og þjálfast í að beita aðferðum þrautalausna.

Ólympíustærðfræðin hefur kennt börnunum að stærðfræði getur verið skemmtilegt tómstundagaman, hún færir stærðfræðina út úr hinu hefðbundna námi og gefur börnum kost á að kynnast stærðfræðinni á öðrum forsendum, auk þess sem þau hafa fengið mikla þjálfun í reikningi og þrautalausnum. Það sem ég sé á meðal barnanna sem ég hef fengið að vinna með er nánast ólýsandi, glampinn úr augunum, spennan og ákefðin sem þau fyllast þegar þau fá nýja hugmynd. Þessi áhugi og ánægja sem ólympíustærðfræðin veitir þeim eflir sjálfstraust þeirra í námi.

Það er ekki síður ánægjulegt að segja frá því að nú hefur menntamálaráðuneytið veitt 5 milljóna króna styrk til ólympíustærðfræði fyrir grunnskóla sem gerir okkur kleift að gera enn betur á næsta ári. Stefnt er að því að bjóða ólympíustærðfræði í enn fleiri skólum á næsta ári auk þess sem við höfum hug á að færa út kvíarnar í nágrannasveitafélögin. Þetta er gott dæmi um samvinnu einkageirans, ríkisins og sveitarfélaga. Menntasvið Reykjavíkurborgar, Kaupþing og fjárfestingarfélagið Eyrir gerðu okkur kleift að fara af stað með þetta verkefni, og með liðsstyrk menntamálaráðuneytisins og Orkuveitu Reykjavíkur höfum við tækifæri til að bjóða enn fleiri börnum að kynnast því hvað stærðfræði er skemmtileg.

Höfundur er verkefnisstjóri við Háskólann í Reykjavík.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.