27. maí 2007 | Innlendar fréttir | 345 orð | 1 mynd

Vandi sem brýnt er að bregðast við

Skortur á úrræðum fyrir eldri sjúklinga gagnrýndur

Matthías Halldórsson
Matthías Halldórsson
"ÞETTA er því miður þekkt vandamál í heilbrigðiskerfinu í dag sem brýnt er að bregðast við," sagði Matthías Halldórsson landlæknir, þegar leitað var viðbragða hjá honum við aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær þar sem aðstandandi kvartaði...
"ÞETTA er því miður þekkt vandamál í heilbrigðiskerfinu í dag sem brýnt er að bregðast við," sagði Matthías Halldórsson landlæknir, þegar leitað var viðbragða hjá honum við aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær þar sem aðstandandi kvartaði undan úrræðaleysi kerfisins þegar útskrifa átti aldraðan föður viðkomanda eftir stutta sjúkrahúslegu í kjölfar beinbrota.

Aðspurður segist Matthías ekki vilja tjá sig um einstök mál og tók fram að líkt og greinarhöfundur nefndi þá hefði málið ekki komið til kasta landlæknisembættisins. "Almennt talað er hér um að ræða mál sem þarf að vinna með, þ.e. gamalt fólk með fleiri en einn sjúkdóm, sem þarf meiri aðhlynningu um tíma, en á samt ekki heima á bráðasjúkrahúsum." Að sögn Matthíasar standa stóru tæknivæddu sjúkrahúsin sig vel í að meðhöndla alvarlega bráðasjúkdóma, en á þeim sé hins vegar mikil pressa að útskrifa fólk sem fyrst. "Þau eiga þó aldrei að ráðstafa fólki í pláss á öðrum stofnunum án samráðs við fólk. Landspítalinn hefur verið í viðræðum við sjúkrahúsin í nágrenni Reykjavíkur um að hægt verði undir vissum kringumstæðum, og þá í samráði við sjúklinginn og aðstandendur, að vista þar sjúklinga til einhvers tíma til framhaldsmeðferðar og aðhlynningar og líst mér vel á þá þróun," segir Matthías.

Að hans sögn hefur sú hugmynd komið til tals á fundum hans með yfirlæknum heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að sett verði á stofn í Reykjavík eins konar heimilislæknasjúkrahús. "Það er einfalt sjúkrahús sem sinnir fólki með tiltölulega einfalda sjúkdóma, sem þarfnast alúðar, en er án þess asa sem gjarnan fylgir bráðadeildum," segir Matthías og að slík sjúkrahús hafi gefið góða raun í Kanada og líkist því kerfi sem viðgangist á landsbyggðinni hér.

"Ég hef átt eitt mjög gott samtal við nýja heilbrigðisráðherrann, sem hefur orð á sér fyrir atorkusemi. Á okkar fyrsta fundi var ekki tími til að ræða margar hugmyndir sem vert væri að koma á framfæri. Hann óskaði hins vegar eftir hugmyndum landlæknisembættisins um það sem betur mætti fara og þetta er sannarlega eitt af þeim málum sem vert er að ræða og ég hafði hugsað mér að ræða við hann við fyrsta tækifæri."

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.