Stella Guðmundsdóttir Poteet fæddist í Reykjavík 18. maí 1923 og lést í Klamath Falls í Oregon að morgni 5. maí sl. eftir langvarandi baráttu við erfiðan sjúkdóm.

Stella var dóttir hjónanna Guðmundar K. Bjarnasonar málarameistara og Henriettu H. Magnúsdóttur húsfreyju. Systir Stellu var Júlíana Lillý Guðmundsdóttir, f. 20. febrúar 1920, d. 12. júní 2005.

Útför Stellu fór fram í Klamath Falls 12. maí sl.

Stella kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum, Rayburn Poteet, á árum seinni heimsstyrjaldarinnar, en hann kom hingað á vegum bandaríkjahers. Þau hófu búskap sinn á Íslandi, en árið 1961 fluttust þau til San Rafael í Kaliforníu þar sem þau bjuggu fram til ársins 2003, er þau fluttu til Klamath Falls í Oregonríki.

Stella undi sér vel í Bandaríkjunum og sinnti hún heimilisstörfum af alúð meðan heilsan leyfði.

Stolt hennar var heimilið og að hugsa vel um eiginmanninn og synina þrjá, þá Henry f. 1947, David, f. 1951 og Raymond f. 1958. Stella hafði mikinn áhuga á garðrækt og lagði hún mikla vinnu í að rækta blóm og runna í garðinum sínum í San Rafael.

Annað áhugamál Stellu var útsaumur og vann hún til fjölda verðlauna á þeim vettvangi fyrir handverk sitt.

Stella var alltaf stolt af íslenskum uppruna sínum og lagði sig fram við að bera fram þjóðlega íslenska rétti á heimili sínu. Svo eitthvað sé nefnt þá var hangikjöt, flatkökur og SS pylsusinnep þar jafnan til og borið fram með stolti ef gest bar að garði.

Synir Stellu og Rayburn búa allir í Bandaríkjunum, Henry er giftur Penny Poteet, sonur þeirra er Jeffrey giftur Shirley Poteet og eiga þau dótturina Lauren. David er giftur Kathy Poteet og Raymond er giftur Tingting Poteet og búa þau tvö síðastnefndu í Klamath Falls í Oregon.

Garðar Lárusson.