Við afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2006 fékk hljómsveitin Jeff Who? viðurkenningu fyrir að eiga vinsælasta lag ársins 2006 á Tónlist.is, lagið "Barfly". Smekkleysa sm. h/f gaf út plötuna Death Before Disco, sem lagið "Barfly" er á, og að sögn Ásmundar Jónssonar hjá Smekkleysu á tónlist frá fyrirtækinu ekki að vera til sölu fyrir niðurhal frá Tónlist.is, enda ekki samningur um slíkt á milli Smekkleysu og Tónlistar.is hvað sem síðar verði. Elís Pétursson, liðsmaður Jeff Who segist í sjálfu sér ekkert geta sagt mikið um söluna á Barfly á Tónlist.is, "Ég hef ekki grænan Guðmund um hvað hefur verið selt af laginu, hef aldrei fengið uppgjör og veit ekki neitt. Ég veit ekki hvað ég fæ fyrir söluna, hvað ég fær fyrir niðurhal, hvað ég fæ fyrir streymi, hvað áskrif er yfirleitt á tónlist.is, ég veit bara ekki neitt um þetta og það er óþægilegt svo ekki sé meira sagt." Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Tónlistar.is, segir að það sé sinn skilningur að til sé munnlegur samningur milli Tónlistar.is og Smekkleysu, enda hafi bæðið fyrirtækin starfað í samræmi við það. "Smekkleysa sendir okkur þær plötur sem fyrirtækið gefur út og síðan sendum við uppgör vegna tónlistarinnar þannig að menn eru að vinna eftir þeim samningi," segir Stefán. Stefán var staddur á ferðalagi erlendis þegar rætt var við hann og því hafði hann ekki við hendina nákvæmar tölur um hver mikið hefði verið sótt af "Barfly" á síðasta ári, en þó að streymi hefði skipt einhverjum þúsundum og niðurhal einhverjum hundruðum. Á myndinni má sjá meðlimi Jeff Who? taka við verðlaunum fyrir vinsælasta lag ársins á Tónlist.is. Elís Pétursson er í ræðustólnum.
Við afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2006 fékk hljómsveitin Jeff Who? viðurkenningu fyrir að eiga vinsælasta lag ársins 2006 á Tónlist.is, lagið "Barfly". Smekkleysa sm. h/f gaf út plötuna Death Before Disco, sem lagið "Barfly" er á, og að sögn Ásmundar Jónssonar hjá Smekkleysu á tónlist frá fyrirtækinu ekki að vera til sölu fyrir niðurhal frá Tónlist.is, enda ekki samningur um slíkt á milli Smekkleysu og Tónlistar.is hvað sem síðar verði. Elís Pétursson, liðsmaður Jeff Who segist í sjálfu sér ekkert geta sagt mikið um söluna á Barfly á Tónlist.is, "Ég hef ekki grænan Guðmund um hvað hefur verið selt af laginu, hef aldrei fengið uppgjör og veit ekki neitt. Ég veit ekki hvað ég fæ fyrir söluna, hvað ég fær fyrir niðurhal, hvað ég fæ fyrir streymi, hvað áskrif er yfirleitt á tónlist.is, ég veit bara ekki neitt um þetta og það er óþægilegt svo ekki sé meira sagt." Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Tónlistar.is, segir að það sé sinn skilningur að til sé munnlegur samningur milli Tónlistar.is og Smekkleysu, enda hafi bæðið fyrirtækin starfað í samræmi við það. "Smekkleysa sendir okkur þær plötur sem fyrirtækið gefur út og síðan sendum við uppgör vegna tónlistarinnar þannig að menn eru að vinna eftir þeim samningi," segir Stefán. Stefán var staddur á ferðalagi erlendis þegar rætt var við hann og því hafði hann ekki við hendina nákvæmar tölur um hver mikið hefði verið sótt af "Barfly" á síðasta ári, en þó að streymi hefði skipt einhverjum þúsundum og niðurhal einhverjum hundruðum. Á myndinni má sjá meðlimi Jeff Who? taka við verðlaunum fyrir vinsælasta lag ársins á Tónlist.is. Elís Pétursson er í ræðustólnum. — Morgunblaðið/Sverrir
Deilur hafa staðið um vefverslunina Tónlist.is vegna meintra vanefnda fyrirtækisins á samningum. Við nánari eftirgrennslan kemur þó í ljós að það eru aðrir sem ekki hafa staðið sig sem skyldi, þar á meðal hagsmunasamtök rétthafa.
Eftir Árna Matthíasson

arnim@mbl.is

ÞEGAR Tónlist.is fór af stað fyrir fjórum árum naut fyrirtækið velvilja hjá samtökum rétthafa í tónlist, enda litu menn svo á að nauðsynlegt væri að til yrði löglegur vettvangur til að afla tónlistar á vefnum sem mótvægi við ólöglega dreifingu. Þannig naut fyrirtækið þeirrar velvildar á upphafsárum að þurfa ekki að greiða rétthöfum fyrir tónlistarsölu, enda litu menn á Tónlist.is sem tilraunaverkefni, eins og Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri STEFs, orðaði það í viðtali við blaðið í vikunni. STEF gerði síðan formlegan samning við Tónlist.is 2005, en fyrirtækið er einnig með samning við SFH, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda.

Niðurhal og streymi

Á Tónlist.is er tónlist seld á tvennskonar hátt. Annars vegar geta áskrifendur hlustað á tónlist sem er streymt yfir Netið frá vefþjóni Tónlistar.is til tölvu viðkomandi notenda. Lögin eru ekki vistuð á tölvu þess sem hlustar og þegar laginu er lokið getur hann ekki hlustað á það aftur nema opna nýjan straum. Á hinn bóginn er síðan hægt að kaupa lög til að sækja beint á tölvuna á MP3-, AAC- eða WMA-sniði, hala þeim niður, eins og það er kallað, og síðan getur viðkomandi afritað viðkomandi lag á spilastokk eða brennt það á disk sýnist honum svo.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ganga samningar Tónlistar.is alla jafna út á það að sé plata eða lag seld sem niðurhal þá fær rétthafi 67% af smásöluverði að frádregnum virðisaukaskatti og STEFgjöldum. Þegar tónlist er streymt, eins og lýst er að ofan, greiðir Tónlist.is rétthafa ekkert fyrir nema velta hans nái ákveðinni prósentu af heildartekjum Tónlist.is á viðkomandi ársfjórðungi.

Að þessu sögðu benda heimildir Morgunblaðsins til þess að Tónlist.is greiði fasta upphæð fyrir streymi á tónlist og því fé sé síðan skipt eftir spilun í Ríkisútvarpinu, þ.e. það hvaða lög eru spiluð í Ríkisútvarpinu ráða því hvernig greitt er fyrir spilun eða streymi á Tónlist.is. Ekki vildu menn gefa upp hve mikið fyrirtækið greiddi fyrir streymið, sumir sögðu það lítilræði, en það mun vera í fullu samræmi við samninga fyrirtækisins við rétthafa.

Tónlistarmenn óánægðir

Undanfarin ár hefur borið á óánægju meðal tónlistarmanna sem beinst hefur að Tónlist.is og sú óánægja kom upp á yfirborðið í vikunni þar sem menn gagnrýndu harðlega að ekki skuli hafa verið greitt fyrir þá sölu sem greinilega eigi sér stað. Í yfirlýsingu frá STEFi kom aftur á móti fram að Tónlist.is hafi staðið við alla sína samninga gagnvart STEFi og eins lýsti Tónlist.is því yfir að fyrirtækið hafi staðið við samninga við alla rétthafa.

Í áðurnefndu viðtali við Eirík Tómasson komu síðan í ljós ýmsar skýringar á því hvers vegna fé hafði ekki borist félagsmönnum samtakanna; samnorrænu höfundaréttarsamtökin Nordisk Copyright Bureau, NCB, sem sjá um að úthluta þessum greiðslum, hefðu "líklega beðið með að greiða þetta út" þar sem þetta voru svo litlar upphæðir, einhver hluti af sölunni sé hugsanlega skráður í grunni NCB sem sala á hringitónum og svo að STEF hafi "bara hreinlega ekki fylgst með þessu".

Hvað útgefendur varðar barst yfirlýsing frá stærstu plötuútgáfu landsins, Senu, um að fyrirtækið hefði ekki greitt til sinna listamanna vegna streymis og lagasölu á Tónlist.is vegna þess hve umfangið væri mikið og eins hefði Sena kosið að bíða með þessi uppgjör og láta þau safnast upp í hærri upphæðir vegna þess að um væri að ræða "afskaplega lágar fjárhæðir fyrir meginþorra laganna".

Selja fyrst, spyrja svo

Annað sem menn hafa gagnrýnt er að lög þeirra og plötur séu til sölu á Tónlist,is án þess að þeir hafi verið látnir vita, en samkvæmt upplýsingum frá Tónlist.is hefur fyrirtæki samninga við samtök rétthafa um sölu á þeirri tónlist sem þar er til sölu, hvort sem er streymi eða niðurhal. Samkvæmt upplýsingum frá sjálfstæðum útgefendum, sem eiga allan rétt á sinni tónlist, hefur það gerst ítrekað að Tónlist.is hafi verið með til sölu tónlist í heimildarleysi.

Einn slíkur útgefandi sem hafði samband við blaðið sagðist hafa gengið svo langt að hann kærði fyrirtækið til að fá það til að taka tónlistina út og annar benti á að hann hefði komist að því fyrir tilviljun að plötur og lög sem hann gaf út hafi verið til sölu á Tónlist.is án hans samþykkis árum saman. Hann lét fjarlægja lögin af vefnum, en segist engar upplýsingar hafa um sölu á þessum árum. Forsvarsmenn Smekkleysu, sem er með stærri útgáfum hér á landi, hafa einnig látið þau orð falla að Tónlist.is hafi ekki leyfi til að selja lög eða plötur frá Smekkleysu sem niðurhal á vefsíðunni, þó að samkomulag sé um streymið.

Límt yfir vörumerki

Annað sem útgefendur hafa fett fingur út í er að á vefsíðunni komi ekki fram hver sé útgefandi plötu; "Af hverju er verið að líma yfir vörumerkið okkar?" spurði til að mynda Lárus Jóhannesson, annar eigenda 12 Tóna í viðtali við Morgunblaðið. Sú gagnrýni bar þegar árangur því búið er að bæta úr því.

Aftur á móti kemur í ljós að skráning á höfundarrétti virðist ekki í lagi þegar lög eru keypt á Tónlist.is. Dæmi um það er "smáskífa" Bubba Morthens, Grafir og bein, sem kostar 149 krónur á Tónlist.is. Þegar lagið er keypt og skyggnst inn í svonefnt ID3-tag í MP3-skránni, þar sem vistaðar eru upplýsingar um viðkomandi lag, stendur (C) 2006 MúsíkNet.

Sama má segja um fleiri lög, til að mynda Barfly með Jeff Who? sem Smekkleysa gefur út – í ID3 taginu stendur (C) 2005 MúsíkNet og í laginu Fagra líf með Ingibjörgu Þorbergs sem 12 Tónar gáfu út stendur einnig (C) 2005 MúsíkNet.

Hagsmunasamtök hafa staðið sig illa

Af ofangreindu er væntanlega ljóst að þeir sem telja sig eiga fé inni hjá Tónlist.is þurfa að snúa sér annað því ekki verður annað séð en að fyrirtækið hafi staðið fyllilega við gerða samninga. Menn geta síðan deilt um samningana og hversu eðlilegir eða sanngjarnir þeir séu, en gagnrýni ættu menn þá að beina til þeirra sem semja fyrir þeirra hönd, til þeirra samtaka sem stofnsett voru beinlínis til að gæta hagsmuna þeirra.

Ekki verður svo betur séð en að téð hagsmunasamtök hafi staðið sig illa við að uppfræða skjólstæðinga sína um stöðu þeirra, enda bendir útbreidd óánægja tónlistarmanna til þess.

Einnig má gagnrýna Tónlist.is fyrir að hafa farið af stað af meira kappi en forsjá, því það getur ekki talist skynsamleg högun að selja fyrst og spyrja svo eins og sjálfstæðir útgefendur hafa haft orð á. Eins og Benedikt Hermann Hermannsson orðar það: "Svona á ekki að gera þetta, að setja inn plötu og spyrja svo eftir á," en hann lét fjarlægja tónlist sína úr vefversluninni eftir að hún hafði verið þar til sölu í óþökk hans.

Að sama skapi má skilja að það hafi staðið í útgefendum að þeirra hafi ekki verið getið á vefnum, en það er komið í lag núna eins og getið er. Óskiljanlegt er þó að lögin sem hér hafa verið nefnd séu með þær upplýsingar vistaðar í sér að höfundaréttur að lögunum sé í höndum MúsíkNet – varla sætta útgefendur sig við það.

Að lokum verður að teljast undarlegt að hjá fyrirtæki sem selur tónlist á tölvutæku formi í gegnum tölvukerfi skuli ekki liggja fyrir betri upplýsingar um spilun /streymi en svo að stuðst sé við upplýsingar um spilun hjá Ríkisútvarpinu þegar verið er að greiða fyrir streymið – ef Ríkisútvarpið getur haldið skýrslur svo vanbúið sem það er tækjabúnaði hlýtur Tónlist.is að vera enn betur í stakk búin til að halda utan um streymið með sitt öfluga tölvukerfi.

Stigið inn í 21. öldina

Eins og getið er í upphafi naut Tónlist.is velvildar rétthafa í tónlist því þeim var ljóst að koma þurfti upp löglegri dreifingu á tónlist á Netinu til að sporna við ólöglegri dreifingu. Þótt gagnrýna megi eitt og annað í starfsemi fyrirtækisins hljóta menn þó aðallega að gagnrýna hagsmunasamtök rétthafa fyrir að hafa ekki veitt skjólstæðingum sínum nógar upplýsingar og eins hve lítil þekking virðist vera þeirra á meðal á stafrænni dreifingu á tónlist. Framtíð íslenskrar tónlistar verður stafræn og velferð hennar hlýtur að byggjast að miklu leyti á því að forsvarsmenn þeirra sem búa til tónlist, flytja hana og gefa út stígi inn í 21. öldina.