27. maí 2007 | Minningargreinar | 1403 orð | 1 mynd

Birna Björk Friðbjarnardóttir

Birna fæddist á Akureyri hinn 6. júlí 1927 og lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hinn 13. maí 2007.

Foreldrar hennar voru Sumarrós Guðmundsdóttir, verkakona á Akureyri, f. 1890, d. 1950, og Friðbjörn Björnsson, bóndi í Staðartungu í Hörgárdal, f. 1873, d. 1945. Birna átti 3 hálfsystur samfeðra, þær Láru og Helgu sem báðar eru látnar og Unni sem dvelst á Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri. Fóstursystir Birnu og frænka hennar, Dalrós Sigurgeirsdóttir, f. 1918, d: 2004 ólst upp hjá móður Birnu og ömmu á Akureyri.

Birna átti eina dóttur, Sumarrósu Sigurðardóttur (Rósu), f. 22. febrúar 1953, framhaldsskólakennara í Reykjanesbæ. Faðir hennar er Sigurður Þórhallsson, f. 21. apríl 1933, búsettur í Reykjavík. Foreldrar hans voru Helga Jóhannsdóttir, f. 1897, d. 1941, og Þórhallur Traustason, f. 1908, d. 1947. Maður Rósu var Gísli Torfason framhaldskólakennari, f. 10. júlí 1954, d. 21. maí 2005. Foreldrar hans voru Anna Bergþóra Magnúsdóttir, f. 1914, d. 2002, og Torfi Helgi Gíslason, f. 1920, d. 1992. Rósa og Gísli eignuðust einn son, Torfa Sigurbjörn Gíslason, f. 16. maí 1985. Torfi nemur verkfræði við Háskóla Íslands.

Birna ólst upp á Akureyri og ól mestallan aldur sinn þar nyrðra. Árið 2002 urðu þáttaskil í lífi hennar er hún tók sig upp og fluttist búferlum til Reykjanesbæjar til að geta verið nær dóttur sinni og fjölskyldu hennar. Hún keypti sér íbúð í húsi fyrir eldri borgara og undi hag sínum nokkuð vel, þó hún saknaði gamla bæjarins síns alltaf.

Eftir hefðbundna skólagöngu fór Birna að vinna fyrir sér og starfaði lengstum sem matráðskona á Akureyri og í nærsveitum Akureyrar, lengst af á Elliheimilinu í Skjaldarvík norðan Akureyrar.

Birna var jarðsungin frá Lögmannshlíðarkirkju hinn 18. maí. sl. og hvílir hún í kirkjugarðinum í Lögmannshlíð.

Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna

og varst þér sjálfri hlífðarlaus og hörð.

Þú vaktir yfir velferð barna þinna.

Þú vildir rækta þeirra ættarjörð.

Frá æsku varstu gædd þeim góða anda,

sem gefur þjóðum ást til sinna landa

og eykur þeirra afl og trú.

En það er eðli mjúkra móðurhanda

að miðla gjöfum – eins og þú.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Þegar ég minnist móður minnar finnst mér þessar ljóðlínur skáldsins frá Fagraskógi eiga einkar vel við. Mamma ólst upp í miklu ástríki móður sinnar og móðurömmu. Hún var mikið eftirlæti þeirra beggja enda fallegt barn, fremur ákveðin og viljasterk frá fyrstu tíð. Ákveðnin og viljastyrkurinn einkenndi hana æ síðan og mótaði líf hennar. Hún missti móður sína 23 ára og stóð þá ein og óstudd í samfélagi þar sem hver og einn þurfti að sjá um sig.

Mamma var ákaflega fríð sýnum, dökk á brún og brá. Hún var leiðtogi í sér og fór oft ótroðnar slóðir. Hún gerði sér fljótt ljóst að til að komast af í þessu lífi yrðu konur að vera sjálfstæðar og treysta á sjálfar sig. Hún var mikill dugnaðarforkur til allra verka sem setti sér markmið sem hún vann ótrauð að.

Eftir að ég hleypti heimdraganum eru mér minnisstæðar matarsendingarnar miklu að norðan. Þaðan komu heilu kassarnir fullir af alls kyns góðgæti og hlýjum bréfum sem alltaf yljuðu mest og best. Þessum sendingum fylgdi ávallt ósk um Guðs blessun okkur til handa.

Mamma var ákaflega trúuð kona og var trúin henni alltaf brú yfir boðaföllin. Hún þurfti oft að bíta á jaxlinn í einkalífi sínu, veikindum og öðru mótlæti. Alltaf stóð hún keik og hélt áfram.

Hún var hlífðarlaus og hörð við sjálfa sig. Að loknum löngum vinnudegi var oft sest við saumavélina til að sauma ný föt á einkadótturina.

Mamma var fyrirmyndin mín. Hún var mér ástrík móðir. Hjá henni lærði ég bænamál og góða siði. Hún var sú sem hlýddi mér yfir heimalærdóminn fram á unglingsár og hjálpaði þegar steytti á skeri. Hún var ljóðelsk með afbrigðum og kenndi mér að meta Einar Ben. og skáldið frá Fagraskógi enda af góðum hagyrðingum komin. Hún gerði sér alltaf ljóst gildi menntunar og hvatti mig á þeirri braut þó svo að hún sjálf og margir af hennar kynslóð hefðu ekki átt kost á langri skólagöngu. Hún var móðirin sem stóð sem klettur að baki barni sínu jafnt í ágjöf sem lygnum sjó.

Mamma var lífsglöð kona. Það var ekki í hennar anda að vera upp á aðra komin, ekki einu sinni sem sjúklingur á spítala. Hún elskaði vorið, þó svo að vorhretin hafi stundum verið henni fullharkaleg. Hún vissi að á eftir vori kæmi sumar með sól í heiði.

Ég á eftir að sakna samverustundanna, umhyggju hennar og kærleikans sem ávallt stóð í öndvegi. Ég er þakklát fyrir að hafa getað veitt henni stuðning þegar hún þurfti á honum að halda. Ég mun minnast hennar hvort sem sólin strýkur vanga mína eða norðangaddurinn nístir. Ég reyni að hlúa að þeim fræjum sem hún sáði í þessu lífi og bera þau áfram til komandi kynslóða afkomenda hennar. Ég sé hana nú fyrir mér í blárri berjabreiðu þar sem fallega brosið leikur um varir hennar. Ég bið Guð að geyma hana og leiða hana til ljóssins.

Ég flyt þér, móðir, þakkir þúsundfaldar,

og þjóðin öll má heyra kvæði mitt.

Er Íslands mestu mæður verða taldar,

þá mun það hljóma fagurt, nafnið þitt.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Rósa.

Birna amma mín, sem hefur verið fastur punktur í tilveru okkar frá því ég man eftir mér, hefur kvatt þetta tilverustig.

Hún var yndisleg amma. Ég minnist þess þegar ég var lítill hve ég hlakkaði til að vera í pössum hjá ömmu á Akureyri meðan mamma var að vinna á Hótel Eddu. Þar var margt brallað og amma stjanaði endalaust við mig. Það var farið í sund með nesti, keyptur ís á góðviðrisdögum, spilaður fótbolti þar sem amma stóð í markinu, og unað við leiki þar sem amma tók virkan þátt. Ég minnist þess að geta varla beðið eftir að amma kæmi í heimsókn vitandi að hún myndi leika við mig, gæti hjálpað mér með heimalærdóminn og myndi taka eftir hve miklum framförum ég hefði tekið síðan síðast, vitandi að amma var góð og skemmtileg.

Hún gladdist yfir gengi mínu í námi og beið spennt eftir að ég fengi einkunnirnar mínar um jól og vor. Hún sagði oft frá því þegar ég einn daginn kom heim úr skólanum kotroskinn og tilkynnti henni að nú gæti hún ekki hjálpað mér lengur í stærðfræðinni því nú væri komin deiling! Ég óx úr grasi og ég fann alla tíð hve ömmu var mikils virði að ég yrði góður maður og forgangsraðaði rétt. Hún vissi að til að komast áfram í lífinu þyrftu menn að hafa góða menntun og hvatti mig óspart.

Tíminn líður hratt og allt í einu skynja ég að ég er orðinn fullorðinn og amma leitar skjóls hjá mér eins og ég hjá henni þegar ég var lítill. Þegar amma liggur fársjúk á sjúkrahúsi fyrir nokkrum dögum legg ég vanga minn að vanga hennar og hvísla að henni að ég sé búinn að fá út úr tveimur prófum í verkfræðinni. Amma ljómar og deyr nokkrum klukkustundum síðar.

Ég mun reyna að leggja rækt við þau lífsgildi sem amma innprentaði mér alla tíð og vera sjálfum mér trúr og kveð hana með kærri þökk.

Torfi.

Látin er í Keflavík Birna Friðbjarnardóttir, frænka mín.

Hún var fædd á Akureyri og ólst þar upp. Hún flutti fyrir nokkrum árum til Keflavíkur til þess að vera þar í skjóli dóttur sinnar, Rósu, og fjölskyldu hennar, en Rósa starfar sem kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Birna starfaði lengst af sem matráðskona fyrir norðan, lengi við heimilið Skjaldarvík en einnig við skóla á Akureyri og víðar. Alls staðar annáluð fyrir dugnað og áreiðanleika. Birna hafði sterkar og ákveðnar skoðanir og fylgdi þeim fast eftir, eins þótt öllum líkaði ekki. Hún var einstök kona og ósérhlífin. Hún bjó yfir mörgum og margvíslegum hæfileikum. Kunni ókjör ljóða og lausavísna og var sjálf ágætur hagyrðingur. Henni var ættfræði í blóð borin og gerði sitt til að glæða áhuga minn og fjölskyldu minnar á að treysta fjölskyldu- og ættarbönd. Sýndi það m.a. í verki með því að standa fyrir fjölskyldumótum. Ég bar mikla virðingu fyrir Birnu, frænku minni, og dáðist að þrautseigju hennar og elju. Hennar verður sárt saknað en minning hennar mun lifa með okkur áfram. Nú þegar Birna mín er komin til hvíldar á grænni grundu eilífðarinnar biðjum við almáttugan Guð að blessa hana og styrkja og gefa henni sinn frið. Jafnframt sendum við Rósu og Torfa og öðrum ástvinum hugheilar samúðarkveðjur og biðjum þann sem öllu ræður að vera með þeim í sorg þeirra.

Hreinn Sumarliðason

og dætur.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.