27. maí 2007 | Innlent - greinar | 542 orð | 1 mynd

Kleppsspítali 100 ára

Undið ofan af ímyndinni

Texti Orri Páll Ormasson orri@mbl.is

Sviðsstjóri Hannes Pétursson vonar að nýtt hlutverk Klepps verði til þess að vinda ofan af ímynd hans sem sé í hugum margra neikvæð.
Sviðsstjóri Hannes Pétursson vonar að nýtt hlutverk Klepps verði til þess að vinda ofan af ímynd hans sem sé í hugum margra neikvæð. — Morgunblaðið/Eyþór
Hlutverk Kleppsspítala hefur breyst jafnt og þétt á undanförnum fjórum áratugum. Fyrst eftir tilkomu geðdeildar Borgarspítalans, 1968, og síðan þegar geðdeild Landspítalans var sett á laggirnar, 1979.
Hlutverk Kleppsspítala hefur breyst jafnt og þétt á undanförnum fjórum áratugum. Fyrst eftir tilkomu geðdeildar Borgarspítalans, 1968, og síðan þegar geðdeild Landspítalans var sett á laggirnar, 1979. Sem kunnugt er voru spítalarnir sameinaðir árið 2000 undir heitinu Landspítali – háskólasjúkrahús.

Hannes Pétursson, sviðsstjóri lækninga á geðsviði LSH, segir að Kleppur sé fyrst og fremst endurhæfingarmiðstöð fyrir geðsjúka í dag og þannig verði það í framtíðinni. Að vísu eru ennþá um sjötíu legusjúklingar á Kleppi en það er fólk sem ekki getur nýtt sér búsetuúrræði utan spítalans, a.m.k. ekki enn sem komið er. Hannes segir stefnt að því að legusjúklingar njóti félagslegra búsetuúrræða í framtíðinni en erfitt sé að setja sér markmið um fjölda eða tímaramma í þeim efnum.

Kleppi ekki lokað

Hannes segir engin áform um að loka Kleppi, þvert á móti gegni spítalinn mikilvægu hlutverki í starfi geðsviðs Landspítalans. "Við höfum Klepp eins lengi og við þurfum og á næstu árum verður lögð áhersla á að byggja þar upp öfluga og nútímalega endurhæfingarmiðstöð. Kleppur er snar þáttur í sögu geðlækninga á Íslandi og okkur þykir mikilvægt að halda nafninu enda þótt það hafi neikvæða merkingu í huga margra. Vonandi verður þetta nýja hlutverk Klepps til þess fallið að vinda ofan af þeirri ímynd."

Geðsviðið leggur nú höfuðáherslu á félagsleg búsetuúrræði fyrir geðsjúka og hefur þjónusta utan sjúkrahúsa verið efld til muna á umliðnum árum. Árið 2005 voru um eitt hundrað einstaklingar metnir í þörf fyrir búsetuúrræði, þar af um sextíu í forgangsröð. Síðan hafa 23 einstaklingar fengið ýmsar úrlausnir, m.a. á landsbyggðinni. Hannes segir listann yfir fólk í þörf fyrir búsetuúrræði annars mjög breytilegan.

Tvö til níu rými voru nýlega tekin í gagnið á Fellsenda, Öryrkjabandalagið á þrettán íbúðir í Reykjavík og fimm bætast við á næsta ári og fimm rými eru í íbúðasambýli í Njarðvíkum. Reiknað er með fimmtán rýmum fyrir eldri geðsjúka á hjúkrunarheimilinu Mörkinni og rætt hefur verið um kaup á lóðum og íbúðum, auk bygginga íbúðasambýla í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Í flestum tilvikum er um sólarhringsþjónustu að ræða.

Árið 2005 samþykkti ríkisstjórn Íslands að verja einum milljarði króna í uppbyggingu búsetuúrræða fyrir geðsjúka og Öryrkjabandalagið leggur til hálfan milljarð. Hannes segir að skriður sé nú að komast á það mál.

Samkvæmt tilmælum frá Svæðisráði málefna fatlaðra í Reykjavík óskaði félagsmálaráðuneytið eftir því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar tæki að sér framkvæmd átaksverkefnisins og uppbyggingu þjónustu fyrir geðsjúka í Reykjavík. Segir Hannes þetta upphaf þess að málaflokkurinn flytjist til Reykjavíkurborgar. "Þetta tímamótaverkefni er í góðum höndum hjá borginni og við bindum miklar vonir við það."

Velferðarsvið mun sjá um öll ný búsetuúrræði á vegum átaksverkefnisins. Velferðarráð hefur samþykkt þetta erindi og segir Hannes að viðræður séu að hefjast. Stefnt er að því að koma á fót áttatíu plássum fyrir geðsjúka fram til ársins 2010.

Mikil gróska í rannsóknum

Hannes segir bjart yfir geðlækningum á Íslandi nú um stundir og fræðastarf hafi ekki í annan tíma verið öflugra. "Víðtækt samstarf er um rannsóknir, m.a. við erlendar háskólastofnanir, og mikil gróska. Rannsóknaverkefni og styrkir eru fjölmargir og þess má geta að íslenskir doktorsnemar í geðlækningum og sálfræði eru nú fjórir. Árlega er fjöldi greina eftir þá birtur í viðurkenndum fagritum, auk bókakafla, veggspjalda og fyrirlestra. Við geðlæknar erum mjög stoltir af þessari framþróun í faginu og horfum björtum augum til framtíðar."

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.