27. maí 2007 | Innlendar fréttir | 190 orð

Mikill ávinningur af snjóflóðavörnum

AÐ mati forsvarsmanna Bolungarvíkurkaupstaðar er ávinningur af snjóflóðavörnum í Traðarhyrnu svo mikill að neikvæð áhrif eru lítil eða hverfandi í því samhengi.
AÐ mati forsvarsmanna Bolungarvíkurkaupstaðar er ávinningur af snjóflóðavörnum í Traðarhyrnu svo mikill að neikvæð áhrif eru lítil eða hverfandi í því samhengi. Hefur kaupstaðurinn tilkynnt til athugunar Skipulagsstofnunar frummatsskýrslu um snjóflóðavarnagarð í fjallinu. Í frummatsskýrslunni kemur m.a. fram að félagsleg áhrif snjóflóðahættu verði seint vanmetin og því sé nauðsynlegt að bægja þeirri vá frá eins og auðið er. Verði varnargarðar ekki byggðir sé nauðsynlegt að kaupa upp stóran hluta bæjarins. Að mati forsvarsmanna Bolungarvíkur er sá kostur í raun óraunhæfur vegna mikils kostnaðar sem og ákvæða í lögum um að Ofanflóðasjóður taki ekki þátt í uppkaupum eða flutningi á húseignum.

Í frummatsskýrslunni kemur fram að framkvæmdin muni hafa óveruleg áhrif á jarðmyndanir, vatnafar, fuglalíf og landnotkun. Hins vegar eru áhrif á gróður nokkuð neikvæð en samt að hluta til afturkræf.

Þeir þættir sem verða fyrir talsverðum neikvæðum áhrifum eru landslag, hljóðvist og fornleifar. Við framkvæmdir munu þannig minjastaðir vera í hættu eða verða raskað. Þar er átt við landdísarstein, fjárhús/hlöðu, bæjarhól, fjós, kvíar, kálgarð, brunn, tvo túngarða og áður óþekktar rústir. Frummatsskýrslan liggur frammi til kynningar til 9. júlí á skrifstofu Bolungarvíkur, bókasafninu á Bolungarvík, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.