Geðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss við Hringbraut.
Geðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss við Hringbraut. — Morgunblaðið/Kristinn
Í dag eru liðin 100 ár frá því, að Kleppsspítali var stofnaður. Sá dagur markaði tímamót í meðferð geðsjúkra á Íslandi. Þessi saga er rifjuð upp í stórum dráttum í Morgunblaðinu í dag. Þar er m.a.
Í dag eru liðin 100 ár frá því, að Kleppsspítali var stofnaður. Sá dagur markaði tímamót í meðferð geðsjúkra á Íslandi. Þessi saga er rifjuð upp í stórum dráttum í Morgunblaðinu í dag. Þar er m.a. vitnað til orða Þorgríms Johnsens héraðslæknis frá árinu 1871, þar sem hann lýsir meðferð geðsjúkra seint á 19. öldinni og segir:

"...hafa menn neyðst til þess að grípa til þeirra villimannlegu aðgerða að loka sjúklingana inni í þröngum kössum með litlu opi fyrir framan andlitið. Þessir kassar eru síðan settir í eitthvert útihús til þess að sjúklingarnir trufli ekki ró annarra."

Langt fram eftir 20. öldinni var fólk hrætt við Klepp. Margir þorðu ekki að fara þangað og það þóttu jafnvel tíðindi að þekkja einhvern, sem þangað hafði komið. Þekkingarleysið á því, sem þar fór fram skapaði ótta og jafnframt fordóma gagnvart þeim sjúklingum, sem þar voru.

Ef einhver vildi ná sér niðri á öðrum var sagt, að hann væri "Klepptækur". Þetta var á þeim árum, þegar þroskaheft fólk var kallað "fávitar" og til voru stofnanir, sem í daglegu tali voru kallaðar "fávitahæli". Eða þá að þetta fólk var kallað "aumingjar". Það eru innan við 50 ár síðan þessi orðanotkun var í fullum gangi hér á Íslandi og segir mikla sögu.

Tómas Helgason, fyrrum yfirlæknir á Kleppi, sem ólst þar upp sem barn, segir skemmtilega sögu í Morgunblaðinu í dag, sem er alger andstæða þeirrar upplifunar almennings, sem hér hefur verið lýst. Í frásögn af samtali við hann segir:

"Tómas rifjar upp, að í eitt skipti, þegar hann var drengur var hringt á Klepp vegna "ógnvekjandi" hegðunar manns, sem var á gangi í Kleppsholtinu. "Pabbi dreif sig upp í bíl til að sækja manninn, sem hann vissi að var sjúklingur á spítalanum og tók mig með sér, ætli ég hafi ekki verið svona tíu ára. Þegar við fundum manninn fór ég út úr bílnum til að sækja hann. Varð hann ákaflega glaður að sjá mig. Vitaskuld stóð almenningi engin ógn af þessum manni, þó hegðun hans hafi kannski verið svolítið óvenjuleg. Vegfarendur hafa örugglega rekið upp stór augu að sjá barn stíga út úr bílnum og ná í manninn.""

Þessi litla saga Tómasar Helgasonar segir í raun og veru allt, sem segja þarf um ranghugmyndir almennings á þeim tíma og veruleika hinna geðsjúku. Það eru ekki bara geðsjúkir, sem þjást af ranghugmyndum.

Í frásögn Morgunblaðsins í dag af fyrstu árunum á Kleppsspítala vekur fernt athygli. Í fyrsta lagi segir:

"Spítalanum var valinn staður á afskekktri jörð í Reykjavík, Kleppi, en á þessum tíma var talið æskilegt að búa geðsjúkum rólegt og fallegt heimili utan alfaraleiðar."

Í öðru lagi segir, að Þórður Sveinsson, fyrsti yfirlæknir Kleppsspítala, hafi rekið stórt bú á Kleppi og hafi þótt góður búmaður og orðrétt:

"Þórður leit svo á, líkt og venjan var á þessum tíma, að hollt væri fyrir sjúklingana að vinna að bústörfum enda komu þeir að langmestu leyti úr sveitum landsins. Á vetrum voru konurnar í ullar- og tóvinnu og karlarnir skáru tóbak og fleira."

Í þriðja lagi er fjallað um vatnslækningar Þórðar Sveinssonar og um þær er haft eftir Óttari Guðmundssyni, lækni:

"Það var viðtekin trú manna um allan heim, að þetta væri góð aðferð til að kljást við geðveiki. Kalda baðið var notað til að gera fólki bilt við og róa það þannig niður en heita baðið var notað til að draga alla orku úr jafnvel hraustustu skrokkum."

Og í fjórða lagi vekur afstaða Þórðar Sveinssonar til lyfja athygli en um það segir í Morgunblaðinu í dag:

"Róandi lyf voru líka komin fram á sjónarsviðið en Þórður hafði, að sögn Óttars, litla trú á þeim og notaði þau ekki, nema helzt magnyl."

Nú er varasamt að leggja mælikvarða nútímans á lækningaaðferðir fyrri tíma. Engu að síður er það svo, að til eru þeir á okkar tímum, sem með sterkum rökum geta sett fram þá skoðun, að það sé gott fyrir fólk, sem á við geðræn vandamál að stríða að dveljast um skeið á rólegum og fallegum stað, fjarri ys og þys stórborga samtímans. Þessi skoðun fólks fyrir 100 árum þarf því ekki að vera svo fráleit í dag.

Lýsingar á þeim búskaparstörfum, sem Þórður Sveinsson taldi gott fyrir geðsjúka að stunda vekja spurningar um það, hvort þar sé ekki komin að hluta til iðjuþjálfun samtímans, þótt í öðru formi hafi verið.

Alkunna er, að böð hafa róandi áhrif á fólk og afstaða Þórðar Sveinssonar til lyfja, sem þá voru að koma fram, minnir á þær umræður, sem staðið hafa yfir undanfarin ár um lyfjanotkun, þar sem mjög mismunandi skoðanir hafa verið uppi.

Má ekki segja með nokkrum rökum, eins og hér hefur verið sýnt fram á, að Þórður Sveinsson hafi verið nútímamaður á sínum tíma?

Frá fortíð til nútíðar

Feðgarnir Helgi Tómasson og Tómas Helgason höfðu mest áhrif á mótun meðferðar geðsjúkra í tæpa hálfa öld. Það er athyglisvert að lesa lýsingu Óttars Guðmundssonar læknis – sem er að skrifa bók um Klepp – á þeirra tíma hér í Morgunblaðinu í dag.

Óttar segir:

"Helgi er frumkvöðull nútímageðlækninga í landinu. Hann kom með lyfjameðferð af ýmsu tagi að utan og í hans tíð var Nýi-Kleppur mjög lyfjamiðaður spítali..."

Og síðan:

"Rafrotið eða raflostið ruddi sér til rúms í geðlækningum á árunum eftir seinna stríð og varð á skömmum tíma ein mest notaða aðferðin í Bandaríkjunum og Evrópu. Helgi tók á hinn bóginn eindregna afstöðu gegn raflostinu, taldi meðferðina hættulega og var henni ekki beitt í hans tíð á Kleppi. Í kjölfarið kom upp undarleg staða í geðlækningum á Íslandi en flestir aðrir geðlæknar voru hlynntir raflostinu. Sú aðferð var þar af leiðandi stunduð víða um bæ, á elliheimilinu Grund, Farsóttarsjúkrahúsinu og Hvítabandinu. En ekki á Kleppi.

Þetta kemur vel fram í héraðsskýrslum frá þessum tíma en þá skrifa læknar að sjúklingar séu t.d. sendir í raflost á elliheimilinu Grund, þar sem ekki sé hægt að koma þeim inn á Klepp. Þarna voru skýrar línur dregnar og um þetta deilt. Þær deilur náðu inn á síður dagblaðanna og var m.a. talað um "ófremdarástand" vegna þvermóðsku yfirlæknisins á Kleppi," segir Óttar."

Nú var sem sagt komin ný kynslóð geðlækna, sem augljóslega hefur gert lítið úr andstöðu Helga Tómassonar við raflostum með sama hætti og Þórður Sveinsson hefur orðið að þola það að lítið hefur verið gert úr hans lækningaaðferðum, þegar Helgi kynnti lyfjameðferðina til sögunnar.

En með sama hætti og bent var á hér að framan varðandi Þórð Sveinsson má færa rök að því í ljósi umræðna samtímans, að Helgi Tómasson hafi haft mjög nútímalega afstöðu til raflosta. Sú lækningaaðferð hefur alla tíð verið mjög umdeild en ef nokkuð er má segja, að andstaða við hana, ekki sízt úti í heimi, hafi vaxið á seinni árum.

Tómas Helgason hafði sömu afstöðu til raflosta og faðir hans og í umfjöllun Morgunblaðsins í dag um 100 ára afmæli Kleppsspítalans segir m.a.:

"Tómas var andsnúinn raflækningum eins og faðir hans. Fyrir vikið voru raflækningar ekki stundaðar á Kleppi fyrr en á áttunda áratugnum. Þá heimilaði Tómas læknum á spítalanum að nota þá aðferð á eigin ábyrgð. "Það var ekki auðveld ákvörðun en kollegar mínir sóttu þetta fast og ég bar virðingu fyrir þeirra sýn á starfið. Þess vegna gaf ég þeim þetta leyfi", segir Tómas. Raflosti beitti hann aldrei sjálfur.

Hann segir andúð þeirra feðga fyrst og fremst hafa byggzt á því að þeim þótti aðferðin ómannúðleg. "Raflostið var hálfgerð hrossalækning. Hleypt var straumi gegnum heilann á fólki, sem olli krampa. Það bar á minnistruflunum fyrst á eftir og í sumum tilvikum urðu varanlegar breytingar."

Þessar deilur fyrri tíðar um raflostin eru merkilegar í ljósi þess, sem síðan hefur gerzt. Til eru þeir sjúklingar, sem gengizt hafa undir meðferð með raflostum, sem telja, að þeir bíði þess aldrei bætur og gagnrýnendur nútímans á þessa aðferð nota mjög stór orð um áhrif hennar og afleiðingar.

Staðreynd er að raflostin hafa stundum undraverð áhrif til skemmri tíma en meiri spurning er hver áhrif þeirra eru til lengri tíma og kannski liggur einfaldlega ekki fyrir vitneskja um það, þótt rannsóknir hafi ekki sýnt fram á heilaskemmdir af þeirra völdum.

Millispil á Borgarspítala

Afskiptum fjölskyldu Þórðar Sveinssonar af geðheilbrigðismálum á Íslandi lauk ekki með fráfalli hans. Á sjöunda áratugnum var sonur hans, Úlfar Þórðarson, augnlæknir, borgarfulltrúi í Reykjavík. Hann hafði þá mikil áhrif á ákvarðanir borgarinnar í heilbrigðismálum og átti mikinn þátt í að opin geðdeild var sett upp á Borgarspítalanum. Hann átti líka mikinn þátt í að fá Karl Strand lækni heim frá London til þess að veita þeirri geðdeild forstöðu.

Þetta var í fyrsta sinn, sem geðdeild var sett upp í húsakynnum almenns spítala og opin að auki, þótt aukin varzla hafi að vísu verið tekin upp við dyrnar inn á geðdeildina, þegar frá leið.

Saga geðlækninga á Íslandi verður ekki skrifuð nema Karls Strands sé getið, þótt hann hafi ekki komið við sögu Kleppsspítala. Hann var stórmerkur læknir og skapaði sérstakt andrúm á geðdeild Borgarspítalans, þar sem hann sást reglulega á göngum deildarinnar.

Mikilvægi geðdeildar Borgarspítalans var ekki sízt fólgið í því, að þar með áttu sjúklingar og aðstandendur þeirra val. Þeir gátu valið um, hvort þeir leituðu til Klepps eða til geðdeildar Borgarspítalans. Þetta val var mikilvægt m.a. vegna þeirra fordóma, sem tengdust Kleppi á þeim árum og vegna hins að lækningaaðferðir voru ekki þær sömu. Karl Strand var hlynntur raflækningum.

Við sameiningu Landspítala og Borgarspítala runnu geðdeildirnar saman í eina deild undir forystu Hannesar Péturssonar, sem varð eftirmaður Karls á Borgarspítalanum. Þótt hagkvæmnisrök hafi verið sterk fyrir sameiningu þessara deilda í eina er ekki þar með sagt, að slík sameining hafi endilega verið góð fyrir sjúklingana. Þeir áttu ekki lengur val. Það er bara um þessa einu deild að ræða á Reykjavíkursvæðinu. Þótt auðvitað sé hægt að leita til geðdeildarinnar á Akureyri.

Ekki bara læknar

Eitt hundrað ára saga Kleppsspítala er ekki bara saga læknanna þar. Sjúklingarnir skipta auðvitað mestu máli en fleiri fagstéttir koma þar við sögu. Og þar er átt við geðhjúkrunarfræðinga og iðjuþjálfa. Sjúklingar, sem dveljast á geðdeild eiga áreiðanlega meiri dagleg samskipti við geðhjúkrunarfræðinga en við geðlæknana. "Sjúklingarnir eru stöðugt í okkar umsjá", segir Eydís Sveinbjarnardóttir, sviðstjóri hjúkrunar á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss", og það er rétt.

Í sögu geðhjúkrunar á Íslandi eru til konur, sem hafa markað djúp spor. Ein þeirra var Guðríður Jónsdóttir, sem starfaði á Kleppi í 30 ár. Hún hafði frumkvæði að því að koma upp heimili fyrir sjúklinga á Reynimel 55 og rak það sjálf þangað til hún gaf Kleppsspítala húsið árið 1973. Þetta var frumraun í því að veita geðsjúku fólki tækifæri til búsetu utan stofnunar en njóta um leið ákveðinnar þjónustu og kannski táknrænt að í hinum enda þessa húss bjó fjölskylda, sem hafði orðið að þola margt af völdum þessa sjúkdóms.

Önnur slík kona var María Finnsdóttir en Eydís Sveinbjarnardóttir lýsir framlagi hennar m.a. með þessum orðum í Morgunblaðinu í dag, sunnudag:

"Þegar hún tekur til starfa er Kleppur stofnun í öllum skilningi þess orðs. Sjúklingarnir voru allir í stofnanafötum, sem bundið var snæri utan um þegar þeir lögðust til hvílu. Borðað var af blikkdiskum og drukkið úr blikkmálum. María einhenti sér í að breyta þessu – gera umhverfið manneskjulegra. Hún keypti húsgögn, leirtau, blóm og bjó til borðstofu, svo eitthvað sé nefnt. Þá hóf hún að klæða fólkið í venjuleg föt. Þetta var algjörlega ný sýn í geðheilbrigðismálum á Íslandi, þar sem áherzla var lögð á að styrkja sjálfsmynd sjúklinganna."

Og einnig má í þessu sambandi nefna Þórunni Pálsdóttur, sem var náin samverkakona Tómasar Helgasonar og átti m.a. mikil samskipti við ritstjórn Morgunblaðsins á sinni tíð um málefni geðsjúkra.

Ekki verður fjallað um þessar merku konur án þess að minnast Margrétar Blöndal, sem lengi var geðhjúkrunarfræðingur á geðdeild Borgarspítala. Hafi Florence Nightingale verið til á Íslandi var hana að finna í Margréti Blöndal.

Þótt Þórður Sveinsson hafi lagt áherzlu á að sjúklingar hans gætu stundað búskaparstörf fyrir 100 árum er staðreyndin sú, að iðjuþjálfun, sem fólst í því að sjúklingar gætu haft einhverju öðru að sinna en ganga um gólf og reykja sígarettur á sér ekki langa sögu, kannski nokkra áratugi en átti mikinn þátt í að breyta yfirbragði geðdeildanna, þegar hún kom til sögunnar og gera lífið bærilegra fyrir sjúklingana. Í tvo áratugi frá 1944 starfaði aðeins einn iðjuþjálfi á Kleppi.

Um þetta segir Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í samtali við Morgunblaðið í dag:

"Það er ekkert vafamál, að iðja, sem hefur þýðingu og gildi fyrir fólk hefur áhrif á heilsu og sjálfstraust þess. Með iðjuþjálfuninni fengu sjúklingarnir á Kleppi hlutverk, sem hafði gildi, alla vega innan spítalasamfélagsins. Oft er eina "hlutverk" geðsjúkra sjúklingshlutverkið. Það er nauðsynlegt að geðsjúkir fái verkefni við hæfi, þannig öðlast þeir trú á það að þeir hafi eitthvað fram að færa í samfélaginu þrátt fyrir veikindi sín."

En hvað um sjúklingana?

Enginn einstaklingur hefur lagt sig meira fram um að koma því sjónarmiði á framfæri, að á sjúklingana sjálfa eigi að hlusta en Héðinn Unnsteinsson, sem um tíma veitti svonefndu geðræktarverkefni forstöðu en hefur síðustu ár starfað hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni í Kaupmannahöfn og haft mikil afskipti af málefnum geðsjúkra í því, sem kalla mætti þróunarlöndin í Evrópu, þ.e. í ríkjum austurhluta Evrópu og í Albaníu. Um reynslu sína af þessum störfum skrifaði Héðinn athyglisverðar greinar hér í Morgunblaðið í vetur.

Héðinn Unnsteinsson hefur verið áhrifamesti boðberi nýrrar hugsunar í geðheilbrigðismálum og notið til þess stuðnings öflugra kvenna á borð við Elínu Ebbu Ásmundsdóttur og Auði Axelsdóttur, sem veitir Hugarafli forstöðu.

Í stuttu máli má segja, að boðskapur þeirra sé sá, að í fyrsta lagi eigi að hlusta meira á það, sem geðsjúkir sjálfir hafi að segja um þá meðferð, sem í boði er og hins vegar að færa eigi meðferðina í eins ríkum mæli og mögulegt er út af spítala.

Fyrir fjórum áratugum var nánast ekki hægt að fá geðlækni til að skoða sjúkling á heimili hans. Í dag þykir það gamaldags afstaða og eðlilegt að teymi fagfólks komi á heimili eða vinnustað eða í raun hvert sem er.

Eitt hundrað árum eftir að Kleppsspítalinn hóf starfsemi sína er meira og meira fylgi við þá stefnu, að fara eigi með meðferð hinna sjúku út af spítölum, þótt augljóst sé að í sumum tilvikum verður aldrei hægt að komast hjá því að leggja mikið veikt fólk inn.

Um þessi álitamál öll er ekki full samstaða meðal þeirra, sem starfa að málefnum geðsjúkra á Íslandi. Kannski er ekki við öðru að búast, þegar horft er til sögunnar. Þótt nú sé deilt um leiðir að sameiginlegu markmiði er það ekkert nýtt. Í þeirri sögu, sem rakin er í Morgunblaðinu í dag kemur fram að deilt var um lækningaaðferðir Þórðar Sveinssonar og Helga Tómassonar og stundum harkalega. Þess vegna er kannski ekki ástæða til að hafa of miklar áhyggjur af því, þótt menn séu ekki á einu máli nú.

Tími fyrirmæla frá læknum og öðru fagfólki er sennilega að líða. Tími aukins samráðs við sjúklinga er sennilega að ganga í garð. Þó má ekki gleyma því að geðlæknar hafa alltaf haft samráð við sína sjúklinga en upplifun sjúklinga þegar inn á spítala er komið er sú, að þeir hafi lítið um eigin meðferð að segja.

Á eitt hundrað ára afmæli Kleppsspítalans er hins vegar ástæða til að horfa yfir farinn veg og leitast við að ræða framtíðarmarkmið í ljósi þeirrar reynslu, sem safnast hefur saman á heilli öld. Vonandi bera fagfólk og sjúklingar gæfu til þess.