Guðrún Ásbjörnsdóttir fæddist í Hafnarfirði 25. janúar 1945. Hún andaðist á Landspítalanum við Hringbraut sunnudaginn 13. maí síðastliðinn.

Guðrún var jarðsungin frá Vídalínskirkju í Garðabæ 18. maí sl.

Við göngum um litauðugan blómgarð og skynjum litina sem heild án þess að leiða hugann að kraftaverkinu.

Ilmur og angan eru sjálfgefin. Hin hljómræna heild sinfóníu og sönglags er eyranu töm. Flest þiggjum við og njótum án þess að leiða hugann að þeirri vinnu sem að baki liggur.

Í maí 1997 urðu þau tíðindi eftir lokafund í Oddfellowstúkunni nr. 18, Ara fróða I.O.O.F., að hópur bræðra ákvað að stofna sönghóp, sem yrði vísir að kór. Eftir fyrsta fund, 17. september 1997, skyldu væntanlegir söngmenn skrá sig. Æfingar hófust í október sama ár.

Þá komu saman þessir piltar sem langaði að syngja saman. Fæstir höfðu komið að slíkum stórvirkjum en í hópnum var þó þaulreyndur karlakórsmaður, bassi. Nokkrar mannabreytingar urðu á söngtímanum, á tímabili sungu sumar eiginkonurnar með okkur og bræður úr öðrum stúkum Oddfellowreglunnar gengu til liðs við okkur er fram í sótti.

Guðrún var kórstjórinn okkar. Í stuttu máli tókst þar ást við fyrstu kynni. Hún stýrði strákunum sínum af næmi, kímni og innsæi. Guðrún tók til við að raddþjálfa, hífði okkur upp úr pyttum og leiddi okkur af raddlegum villigötum með endalausri þolinmæði.

Söngæfing varð miðpunktur félagsstarfsins og mesta tilhlökkunarefni allra. Hún seiddi okkur áfram lag frá lagi með heillandi framkomu og svífandi léttleika.

Það er enn í minnum haft að fyrsti textinn sem við sungum var á hebresku – enda leist sumum okkar ekkert á þetta og báru við lélegri tungumálakunnáttu. Þeir voru spaugsamir, strákarnir hennar Guðrúnar.

Ást hennar á íslenskum sönglögum varð okkur strax ljós – og við kynntumst þeim nú frá nýrri hlið og tókum enn meira ástfóstri við þau eftir en áður.

Guðrún var hávaxin kona og samsvaraði sér vel, röddin þekk og hljómmikil, fas og framkoma einkenndust af miklu öryggi og glæsileika. Hún var smekkvís og klæddist vel. Bros og hláturmildi settu sterkan svip á lund hennar að ógleymdri þolinmæðinni og umburðarlyndi sem hlaut að spretta upp úr einhverju endalausu og dulúðugu aldýpi sálarinnar.

Hún var glettin og spaugsöm við vinnu sína en hélt okkur þá alltaf við efnið, rétt eins og sá þaulreyndi laxveiðimaður sem landar laxi sínum af leikni, lipurð, snilld og festu.

Guðrún gleymist okkur aldrei. Sönghópurinn sendir eiginmanni, börnum, fjölskyldu og vinum nær og fjær innilegar samúðarkveðjur.

Þótt Guðrún sé látin tendraði hún eld í hjörtum okkar sem logar bjartur og skær. Við vekjum eld af þessu báli hins listræna áhuga og munum bera þann kyndil með okkur að við megum bregða birtu á líf samferðamanna okkar af þeim loga sem Guðrún kveikti í hjörtum okkar allra.

Guð blessi hana og varðveiti.

Söngsveinar Guðrúnar

Ásbjörnsdóttur 1997–2005

og eiginkonur.