27. maí 2007 | Innlent - greinar | 1274 orð | 3 myndir

Hugsjónir, höft og framtakssemi á sléttum Manitoba

Baldur Þóra, Björgólfur og Ragnar B. Ragnarsson, systursonur Þóru, við heimili séra Friðriks Hallgrímssonar og fjölskyldu á 1. stræti í Baldur.
Baldur Þóra, Björgólfur og Ragnar B. Ragnarsson, systursonur Þóru, við heimili séra Friðriks Hallgrímssonar og fjölskyldu á 1. stræti í Baldur. — Morgunblaðið/Steinþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, og Þóra Hallgrímsson, eiginkona hans, tengjast Íslendingabyggðum í Argylehéraði í Suðvestur-Manitoba og heimsóttu svæðið fyrir skömmu. Steinþór Guðbjartsson var með í för.
Hjónin Björgólfur Guðmundsson og Þóra Hallgrímsson voru í Winnipeg í Kanada fyrir skömmu í tengslum við opnun skrifstofu Landsbankans í borginni. Þau notuðu tækifærið og heimsóttu slóðir ættmenna sinna í Argyle áður en þau héldu aftur heim til Íslands.

Saga Íslendinga vestra utan Utah spannar rúmlega 130 ár. Þeir settust að við Winnipegvatn haustið 1875 og á næstu árum dreifðust þeir um sveitirnar í nágrenninu og reyndar víðar. Þeir könnuðu aðstæður í Argyle í suðvesturhluta Manitoba 1880 og fluttu þangað vorið eftir. Þessir flutningar drógu Björgólf og Þóru á svæðið á dögunum og þau komust í snertingu við liðna tíð sem þau aðeins þekktu af afspurn.

Merkileg saga

Íslendingar stofnuðu fjórar kirkjusóknir í Argyle, þ.e. í Brú 1884, á Grund 1885, í Glenboro og Baldur 1903. Björgólfur og Þóra tengjast þessu svæði fjölskylduböndum. Langalangamma Björgólfs, Sigríður Jónsdóttir, hvílir í Grundarkirkjugarði þar sem afi Þóru, séra Friðrik Hallgrímsson, jarðsetti hana fyrir tæplega öld.

Þegar grannt er skoðað má sjá að fólk af íslenskum ættum hefur spjarað sig vel á ýmsum sviðum í Kanada og í flestum tilfellum á það ættir að rekja til smábæja, ekki síst í Manitoba. John Harvard, fylkisstjóri í Manitoba, er til dæmis frá Glenboro.

"Þetta er merkileg saga og ekki þarf að heyra nema brot úr svona sögu til að verða hluti af henni," segir Björgólfur. "Viðmælendur eru svo persónulegir og líkja má þessu við að vera uppi í dal í Borgarfirði, en samt sem áður virðast margir hverjir hafa náð óskaplega langt og með ólíkindum er, hvað mikil rækt hefur verið lögð við að mennta alla."

Sigríður Jónsdóttir frá Mývatni var einn vesturfaranna, en á meðal barna hennar voru Jón Sveinsson og Ármann, öðru nafni Nonni og Manni. Hún var mikil ævintýrakona og haft hefur verið eftir Halldóri Kiljan Laxness að hún hafi verið fyrirmynd Úu í Kristnihaldi undir Jökli. Hún flutti vestur og giftist William Taylor, bróður Johns Taylor, sem var ein helsta hjálparhella Íslendinga í Nýja Íslandi. Kristín Guðmundsdóttir, langamma Björgólfs Guðmundssonar, var elsta dóttir hennar og hálfsystir Nonna og Manna. Sigríður og William settust að í Argyle-byggðinni og séra Friðrik Hallgrímsson, afi Þóru, jarðsetti hana þegar hún dó 1910.

Séra Friðrik Hallgrímsson og Bentína Björnsdóttir, eiginkona hans, fóru til Kanada ásamt tveimur dætrum sínum 1902 og var séra Friðrik prestur í Argylebyggðinni til 1925, þegar hann var kallaður heim til að verða Dómkirkjuprestur. Þau bjuggu fyrst á Grund og síðan í Baldur, en Hallgrímur, sonur þeirra og faðir Þóru, fæddist þar 1905.

Vindlareykur

Fyrir utan kirkjuna á Brú tekur Ellen Rawlings á móti þeim, heilsar og snýr sér þegar að efninu. "Afi og amma þín komu stundum heim í kaffi eftir kirkju og ég man sérstaklega eftir því að hann reykti vindla og blés út úr sér stórum og fallegum reykhringjum," segir hún við Þóru.

"Hann gerði það líka oft fyrir mig," svarar Þóra og það er eins og þær hafi þekkst alla tíð. Eru samt að hittast í fyrsta sinn.

"Þegar þau fóru aftur til Íslands 1925 komu þau heim til okkar til að kveðja og ég man að þau óskuðu okkur góðs bata en ég og systur mínar vorum með mislinga. Þá var ég fjögurra ára," heldur Ellen áfram.

Framsýni

Fyrir nokkrum árum var kirkjunni á Brú breytt í veitinga- og gististað. Veitingastaðurinn er þétt setinn fólki af íslenskum ættum þegar okkur ber að garði og frásagnir af séra Friðriki eru allar á einn veg. Þar fór mætur maður sem öllum þótti vænt um. Hann var áberandi í þessu litla samfélagi, stofnaði meðal annars golfklúbb og tennisklúbb.

"Þetta hefur verið svo langt á undan öllu öðru og við höfðum ekki hugmynd um þessi mál, menn voru ekki einu sinni farnir að hugsa svona á þessum tíma á Íslandi, hvað þá framkvæma," segir Björgólfur og Þóra tekur í sama streng.

Þóra og Björgólfur segja gaman að fara um slóðirnar þar sem ættingjar þeirra bjuggu. Það rifji upp liðna tíð. "Nú er ekkert mál að hringja á milli landa og fólk getur þess vegna verið í símasambandi daglega og jafnvel oft á dag, en þegar ég var 15 ára í skóla á Englandi fékk ég eitt símtal og það var vegna þess að amma mín dó," segir Þóra.

"Það er varla hægt að ímynda sér hvernig fólk fór að í vetrarkuldunum hérna á árum áður," heldur hún áfram, þegar ský dregur aðeins fyrir sólu.

Björgólfur segir að sagan verði ljóslifandi þegar komið sé til Argyle-byggðarinnar. "Maður getur ímyndað sér hvernig lífið var hérna. Það er ákveðinn tregi í manni þegar maður horfir á umhverfið og veltir fyrir sér lífinu eins og það var. Erfiðleikunum. Baslinu. Samt sem áður virðist það hafa verið ótrúlega fjölbreytt eftir vinnu og tengslin mikil. Mikil samskipti voru á meðal Íslendinganna á svæðinu, þeir héldu ótrúlega vel saman og voru með margs konar klúbba og félög. Ljóst er að prestarnir spiluðu stórt hlutverk við að halda þessu öllu saman."

Stórhugur

Hallgrímur Hallgrímsson var ræðismaður Kanada á Íslandi um árabil. Þóra segir að foreldrar sínir hafi verið í góðum tengslum við Kanada en hún og Björgólfur séu í raun að uppgötva þennan heim í fyrsta sinn. Þau hafi samt fylgst með mönnum og málefnum og merkir atburðir eins og til dæmis ólympíumeistaratitill "íslenska" íshokkíliðsins Fálkanna frá Winnipeg 1920 hafi ekki gleymst. "Pabbi var mjög hrifinn af Fálkunum," segir Þóra og bætir við að hann verið framsýnn maður og stórhuga og hafi meðal annars viljað reisa íshokkíhöll á Íslandi. Hann hafi hins vegar gengið á vegg. "Það voru svo mikil höft á þeim tíma," segir Þóra.

Björgólfur bætir við að Hallgrímur hafi aldrei ætlað að festast á Íslandi heldur séð fyrir sér framtíðina í Kanada. "Hann flutti aldrei aftur til Kanada en lokaðist ekki inni á Íslandi heldur ferðaðist mikið og var mjög alþjóðlegur."

Vilja leggja í púkkið

"Það er yndislegt að koma hérna," segir Björgólfur og vísar ekki síst til þess að fá tækifæri til að hitta fólk sem þekkir söguna og hefur upplifað hana, fólk sem hefur verið svo nálægt ættmennum þeirra Þóru.

"Þessi tenging hverfur með þessu fólki og ómögulegt er að segja hvað tekur við," segir hann en bætir við að opnun skrifstofu Landsbankans í Winnipeg sé liður í að viðhalda þessum tengslum sem og stuðningur bankans við Snorraverkefnið, verkefni sem miðar fyrst og fremst að því að gefa 18 til 28 ára ungmennum af íslenskum ættum í Norður-Ameríku tækifæri til þess að kynnast uppruna sínum á Íslandi og hins vegar að veita íslenskum ungmennum tækifæri til að kynnast Nýja Íslandi í Manitoba.

"Ég hef hrifist af því hvað ættmenn vesturfaranna hafa haldið mikla tryggð við Ísland og hvað þeir leggja mikla rækt við að vera Íslendingar," segir Björgólfur. "Með það í huga finnst mér skylda að koma til móts við þá og það er gaman að geta tekið þátt í því að efla þessi tengsl, vera þátttakandi í því að þetta samband slitni ekki. Hvernig brugðust þeir við þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað? Hvað gerðu þeir síðan við hlutabréfin? Þeir stofnuðu styrktarsjóð við Háskólann og gjafir þeirra voru miklar, miklu meiri en menn gera sér grein fyrir þegar allt blómstrar í velmegun. Það var engin velmegun á þessum tíma en þeir unnu skipulega að því að Íslendingar gætu stofnað Eimskipafélag Íslands. Þeir reyndust þá vera miklir Íslendingar og þessi hugsun er víða enn fyrir hendi hér vestra. Þetta fólk er svo einlægt og það snertir mann. Það er svo uppnumið og glatt í hjarta sínu yfir því að vera Íslendingar að maður getur ekki annað en hrifist með því. Eldri menn hafa meira að segja komið til mín og spurt hvar hægt sé að kaupa bréf í hinum ýmsu fyrirtækjum okkar. Þeir vilja taka þátt í þessu með okkur."

steinthor@mbl.is

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.