Kyrrlát fegurð Hestfjallið í Héðinsfirði skartaði sínu fegursta. Rúmum sextíu árum áður, eða árið 1942, varð þar eitthvert mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar er 25 manns létu lífið. Um var að ræða áætlunarflug milli Eyjafjarðar og Reykjavíkur og fórust allir um borð.
Kyrrlát fegurð Hestfjallið í Héðinsfirði skartaði sínu fegursta. Rúmum sextíu árum áður, eða árið 1942, varð þar eitthvert mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar er 25 manns létu lífið. Um var að ræða áætlunarflug milli Eyjafjarðar og Reykjavíkur og fórust allir um borð. — Ljósmynd/Guðrún Gunnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Héðinsfjörður og Hvanndalir eru miklar náttúruperlur og enginn kemur þaðan ósnortinn. Guðrún Gunnarsdóttir fór í gönguferð með Ferðafélagi Íslands.
Hurðasmiður, þingmaður, póstberi, fasteignasali, bankastarfsmaður, píanóleikari og arkitekt voru meðal þeirra sem höfðu skráð sig í göngu Ferðafélagsins um eyðibyggðir Tröllaskaga. Auk þess var blaðamaður með í för en sá hafði takmarkaða reynslu af íslenskri veðráttu og fjallaferðum. Fyrsta dag ferðarinnar lá leiðin í kulda og trekk frá Reykjavík til Siglufjarðar. Náttúran var ægifögur séð út um bílgluggann en aftur á móti virtist sumarið vera fokið út í veður og vind. Blaðamaðurinn kveið því sem hann átti í vændum – fjallgöngu í Héðinsfjörð og Hvanndali. Meðferðis hafði hann aðeins haft tvær flíspeysur og nælonsvefnpoka og misreiknaði þar nokkuð íslensku sumarhitana. Bíllinn brunaði norður og komið var til Siglufjarðar um miðnæturbil. Bærinn svaf en á götuhorni fyrir framan náttstaðinn, stóð góðleg kona. "Ég heiti Álfrún," sagði mannveran og blaðamanninum datt þá í hug sú della að það væri landsbyggðarsiður að kynna sig fyrir aðkomufólki um miðjar nætur. Svo var þó ekki, heldur vísaði Álfrún einfaldlega veginn að gististaðnum.

Á fjöllum

Næsta dag hófst síðan trússaferðin í Héðinsfjörð og Hvanndali. Hér áður lögðu Íslendingar líf sitt í hættu við að ganga frá Siglufirði yfir í Héðinsfjörð. Sækja þurfti læknisaðstoð, skíra börn og fæða, fara á mannamót og hitta ástvini. Margir létust í snjóflóðum og urðu úti í vetrarhörkum áður en þeir náðu nokkru sinni á leiðarenda. Fyrir þá sem spyrja sig hver gulrótin okkar, nútímamanna, hafi verið verða svörin sjálfsagt mörg. Varla er hægt að ganga langar vegleysur um fjöll og firnindi nema eitthvað bíði á áfangastað, eða hvað? Fyrir utan ægifagra náttúruna væri gulrót hins einhleypa göngumanns sjálfsagt að kynnast sálufélaganum á fjöllum. Eða eins og ein vinkonan orðaði það svo skemmtilega rétt fyrir brottförina; "Láttu mig vita ef þarna verða einhverjir á réttum aldri og á lausu, þá skrái ég mig úr Útivist og yfir í Ferðafélagið!"

Pælingunum lauk er fararstjórinn steig fram og kynnti sig sem Pál Guðmundsson. Hann var ákafur, róleg ganga varð oftast að hlaupum upp um misgrýtt fjöll og firnindi þar sem Páll leiddi hópinn örugglega. Fararstjórar virðast alltaf sprækastir manna en þessi var um leið afar íbygginn og dularfullur. Á þessum fyrsta degi benti hann eitthvað upp eftir fjallshlíðinni og hópurinn elti í blindni. Eflaust minntum við helst á beljur að fagna vori því eftirvæntingin var svo mikil í upphafi ferðarinnar. Við rætur fjallsins hömuðust stórar vinnuvélar við að grafa Héðinsfjarðargöngin og ásýnd landsins var óðum að breytast.

Við vorum aðeins búin að vaða einn læk þegar himinninn gránaði og þykk súldin helltist yfir. Göngu í vondu veðri má annars líkja við að sálinni sé stungið í þvottavél og hún tekin út tandurhrein. Okkur leið vel. Í gegnum grámann grillti síðan í rákótt og svört fjöllin. Þegar hér var komið sögu vorum við búin að leggja á okkur ferðalag á hjara veraldar en hefðum allt eins getað verið í Hveragerði því varla sáust handa skil fyrir þokunni. Þó var gengið áfram með þá von eina í brjósti að bráðum létti til. Einhvers staðar var stoppað örlitla stund og biðlað til álfa og trölla um gott veður – helst sól fyrst við vorum með þessa stæla á annað borð.

Einhver hefur verið að hlusta, en skyndilega var eins og pottloki væri lyft af himninum og birtan steig fram. Nú sást Héðinsfjörðurinn, vatnið, blár sjórinn og marglit fjöllin í baksýn. Sagt er að margt búi í þokunni og þegar henni létti komu í ljós hundruð plantna og gróðurtegunda, rennvot eftir döggina. Tárin láku af blómunum, burknarnir hristu sig og mosi í lækjarsprænu tók á sig skærgrænan lit. Sumar plöntutegundirnar höfðu ferðalangarnir aldrei séð áður en skilyrði fyrir þessar sjaldgæfu jurtir í afskekktum firðinum eru ákjósanleg. Nú tók einnig heldur betur að lifna yfir hópnum og í ljós komu hinir ýmsu karakterar sem höfðu áður haft hægt um sig. Við gengum niður að ströndinni en þar moraði allt í stórum rekaviðardrumbum, misvel förnum eftir hristinginn á úthafinu. Það þurfti að vaða eina straumþunga á til að komast yfir í Héðinsfjörðinn. Þá brettu menn skálmarnar upp á hvít lærin og smeygðu sér í vaðskó úr gúmmíi. Vatnið ólgaði og krafturinn reif í allt sem hann gat. Einn missti af sér gönguskóinn sem flaut langleiðina út á haf áður en annar afréð að synda á eftir skótauinu. Svona uppákomur urðu dag hvern, krydduðu ferðina og gerðu hana sífellt ævintýralegri. Við gengum áfram inn fjörðinn en ætlunin var að slá upp tjaldbúðum við neyðarskýli slysavarnafélagsins um nóttina.

Hestfjallið skartaði sínu fegursta í baksýn en efst á tindinum lá þokan eins og slæða. Rúmum sextíu árum áður, 1942, varð þar eitthvert mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar er 25 manns létu lífið. Um var að ræða áætlunarflug milli Eyjafjarðar og Reykjavíkur og fórust allir um borð, fjögurra manna áhöfn og 21 farþegi. Árið 1997 reistu Kiwanismenn úr Ólafsfirði kross til minningar um hina látnu.

Perlur og mannabein

Það kom mörgum á óvart að rekast á tvo fornleifafræðinga í neyðarskýlinu. Einhverjum sem ekki vissi betur datt í hug að þarna væru komnir tveir skálaverðir í neyðarskýlið en sú fluga varð ekki langlíf. Dömurnar ætluðu að slást í för með hópnum næsta dag og ganga með okkur yfir til Hvanndala. Þær voru á höttunum eftir mannabeinum og perlum en vildu lítið segja af ferðum sínum, annað en að nóttina áður höfðu þær gist í húsi mikils kvennaljóma í Siglunesi. Fræðingarnir veifuðu fljótlega framan í okkur myndarlegu korti af gönguleiðinni til Hvanndala, hönnuðu af Vésteini Ólafssyni. Hafði hann rissað kortið upp, litað og límt saman. Auk þess hafði maðurinn talið stúlkunum trú um að fjallið sem ganga þyrfti yfir til Hvanndala, væri litlu hærra en sjálfur Arnarhóll. Með þetta og haframjöl í poka voru þær næstum vissar um að leiðin yrði greið.

Næsta dag sást heldur meira í himininn en áður. Fyrir höndum var erfið ganga þar sem bera átti svefnpoka og vistir til tveggja daga. Áfangastaðurinn var Hvanndalir, eitthvert afskekktasta ból á norðurhjara veraldar. Til stóð að sofa undir berum himni um nóttina og var það sjálfsagt rúsínan í pylsuenda ferðarinnar. Margir höfðu meðferðis svefnpoka af bestu gerð, áttu þeir að þola eld og brennistein og þar af leiðandi íslenskar sumarnætur. Sannarlega var þetta mikið ævintýri fyrir alla, nema kannski fyrir illa búinn blaðamann sem hafði talið sjálfum sér trú um að hann gæti kastað sér í nælonpokanum út í móa og sofnað vært. Engin var heldur dýnan meðferðis svo allt stefndi í óefni. Það mátti samt ekki gefast upp áður en á reyndi og hvað þá koma upp um sjálfan sig. Því var gengið af stað með hinum og látið sem ekkert væri. Hópurinn stikaði nú sem leið lá upp brattann, alltaf hærra og hærra. Náttúrubarnið Trausti úr Bjarnagili tók fljótt forustuna en hann tók þátt í Ólympíuleikunum árið 1976.

Sól skein í heiði og ekki bærðist hár á höfði nokkurs manns. Á tæplega 800 metra háum tindinum var fegursta sýn til sjávar og sveita. Grænir, bláir og hvítir litir hvert sem augað leit. Hér í eina tíð voru tveir bræður, stóreignamenn þess tíma, sem keyptu allar jarðir í sveitinni og lái þeim hver sem vill. Báðir létust þeir í snjóflóðum, en slíkt var algengt á þessum slóðum. Til að komast niður í Hvanndalina þurftum við að renna okkur niður bratta snjóbrekku í heitri sólinni, það var ævintýri líkast. Lítið vissum við þá um fegurðina sem beið okkar; Hvanndalina og hafið bláa við sjónarrönd.

Undir Hvanndalahimni

Hvanndalir sitja á hárri klettasyllu við sjóinn og eru með öllu ógreiðfærir öðrum en fótgangandi mönnum, ferfætlingum og fuglinum fljúgandi. Há fjöllin ramma dalsmynnið inn í mynd þar sem allt leikur í lyndi. Lækurinn, fíflarnir í grasinu, suðandi flugurnar, mosinn í berginu og silfraður sjórinn. Þaðan er vel sýnt yfir til Grímseyjar og Látrabjargs. Sé gengið upp á hæstu klettasylluna í dalnum, þaðan sem ekkert sést nema sjórinn til allra átta og stöku fugl á sveimi, verða maður og náttúra eitt.

Svo þegar sólin varpar geislum sínum á hafið og litar það grænt og túrkísblátt höldum við að ekkert verði fegurra hér á jörð. Þá taka allt í einu höfrungar að stökkva í sjónum. Seinna leggst döggin yfir, sólin hverfur í hafið og litar fjöllin lillablá. Svona truflar náttúran manninn og heldur fyrir honum vöku allt fram til sólarupprásar næsta dags.

Þann dag gengum við aftur yfir til Héðinsfjarðar og busluðum í tjörnunum í fjöllunum til að skola af okkur ferðarykið. Dagur var að kvöldi kominn og ferðin senn á enda, því var slegið upp brennu úr rekaviði og tíu lambalæri grilluð í jörðinni. Aðeins til að safna kröftum fyrir lokaspölinn en við áttum eftir að ganga yfir til Ólafsfjarðar. Þar beið okkar lítill bátur sem flutti mann og mús heim. Rétt í þann mund sem við sigldum frá höfninni lagðist þokan aftur yfir, eins og leiktjöld sem falla í lok sýningar. Báturinn hvarf út í þokuna, sigldi út fjörðinn og meðfram klettóttri ströndinni. Aldan vaggaði ferðamönnunum í svefn þar sem þeir lágu örþreyttir á þilfarinu. Í draumalandinu benti fararstjórinn áfram og hrópaði: "Hvanndalir – dalir hamingjunnar!"

g.gunnarsdottir@gmail.com

Í hnotskurn
» Eyðibyggðir yst á Tröllaskaga eru einhver afskekktustu byggðarlög landsins í fyrri tíð. Þar ráða erfið náttúruöflin ríkjum bæði til lands og sjávar. Þangað er nær ógreiðfært öðrum en ferfætlingum og fuglinum fljúgandi.
» Í sumar skipuleggur Ferðafélag Íslands göngu til Hvanndala og Héðinsfjarðar og er lagt af stað frá kirkjugarðinum á Siglufirði.
» Ferðin tekur fjóra daga og er nauðsynlegur búnaður fyrst og fremst orkuríkt nesti, góður fatnaður sem hentar öllum veðraskilyrðum, vaðskór, gönguskór og gott gönguprik.
» Rúsínan í pylsuenda ferðarinnar er gisting undir berum himni í Hvanndölum. Því er best að hafa meðferðis svefnpoka af bestu gerð, poka sem þolir eld og brennistein og þar af leiðandi íslenskar sumarnætur.

Höfundur er viðskiptafræðingur.

Leiðrétting 30. maí - Flugslysið í Héðinsfirði

Í GREININNI Dalir hamingjunnar, sem birtist sl. sunnudag, segir að flugslys hafi orðið á Hestfjalli í Héðinsfirði 1942. Hið rétta er að slysið varð 29. maí 1947 og því voru rétt 60 ár liðin í gær frá þessum hörmulega atburði þegar 25 manns fórust.

Beðist er velvirðingar á þessari villu.