27. maí 2007 | Innlent - greinar | 740 orð | 1 mynd

Stoltur Kleppari

Kleppari "Ég er stoltur af því að vera "kleppari". Á hinn bóginn hefur mér alltaf fundist þetta leiðinlegt sjúklinganna vegna þar sem þeir eiga það á engan hátt skilið," segir Tómas Helgason prófessor emeritus.
Kleppari "Ég er stoltur af því að vera "kleppari". Á hinn bóginn hefur mér alltaf fundist þetta leiðinlegt sjúklinganna vegna þar sem þeir eiga það á engan hátt skilið," segir Tómas Helgason prófessor emeritus. — Morgunblaðið/Sverrir
Tómas Helgason óx úr grasi á Kleppi þar sem faðir hans, Helgi Tómasson, var yfirlæknir um árabil. Tómas tók síðar sjálfur við þeim kyndli. Hann er fæddur árið 1927 og var því fimm ára þegar faðir hans tók öðru sinni við starfi yfirlæknis.
Tómas Helgason óx úr grasi á Kleppi þar sem faðir hans, Helgi Tómasson, var yfirlæknir um árabil. Tómas tók síðar sjálfur við þeim kyndli. Hann er fæddur árið 1927 og var því fimm ára þegar faðir hans tók öðru sinni við starfi yfirlæknis. Tómas segir það hafa verið gott að alast upp á þessum óvenjulega stað enda hafi Kleppur verið frjálslegt og þægilegt samfélag sjúklinga og starfsfólks.

"Kleppur var mjög gott samfélag og ég öðlaðist strax þann skilning að bera á virðingu fyrir fólki sem á við geðræn vandamál að stríða. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta líka bara fólk – rétt eins og ég og þú – og engin ástæða til að umgangast það með öðrum hætti. Ég lærði líka fljótt að ef ég mætti sjúklingunum af skilningi og umburðarlyndi guldu þeir í sömu mynt. Ég vingaðist við marga sjúklinga á æskuárum mínum og sumir þeirra léku við mig."

"Ógnvekjandi" hegðun

Tómas varð ungur var við fordóma og hræðslu fólks í garð Klepps sem hann rekur öðru fremur til einangrunar spítalans og þekkingarleysis á geðsjúkdómum. Ekki hjálpaði það heldur til að opinber umræða um veikindi af þessu tagi var afskaplega lítil. "Það hefur sem betur fer breyst í seinni tíð en ætli hræðslan verði ekki alltaf í einhverjum mæli til staðar. Óttast menn ekki mest að missa vitið eða deyja?"

Tómas segir að vissulega séu brögð að því að geðsjúklingar geti verið hættulegir – og þá aðallega sjálfum sér – en þeim er þá ekki hleypt út af spítalalóðinni nema í fylgd. "Upp til hópa eru þeir meinlausir enda þótt hegðun þeirra geti verið óhefðbundin."

Tómas rifjar upp að í eitt skipti þegar hann var drengur var hringt á Klepp vegna "ógnvekjandi" hegðunar manns sem var á gangi í Kleppsholtinu. "Pabbi dreif sig upp í bíl til að sækja manninn, sem hann vissi að var sjúklingur á spítalanum, og tók mig með sér, ætli ég hafi ekki verið svona tíu ára. Þegar við fundum manninn fór ég út úr bílnum til að sækja hann. Varð hann ákaflega glaður að sjá mig. Vitaskuld stóð almenningi engin ógn af þessum manni, þó hegðun hans hafi kannski verið svolítið óvenjuleg. Vegfarendur hafa örugglega rekið upp stór augu að sjá barn stíga út úr bílnum og ná í manninn," segir Tómas og hlær.

Ein birtingarmynd fordóma íslensku þjóðarinnar í garð geðsjúkra er að áratugum saman hefur verið lagt með neikvæðum hætti út af orðinu "Kleppur". Allir kannast við orð eins og "kleppari", "klepptækur" og "kleppsvinna".

Tómas segir þetta aldrei hafa komið við sig persónulega. "Ég er stoltur af því að vera "kleppari"," segir hann hlæjandi. "Á hinn bóginn hefur mér alltaf fundist þetta leiðinlegt sjúklinganna vegna þar sem þeir eiga það á engan hátt skilið."

Dregið hefur úr þessu í seinni tíð og sennilega þýddi lítið að tala um "kleppsvinnu" við ungmenni í dag. Þau kæmu af fjöllum.

Tómas segir hins vegar ennþá eima eftir af þessu viðhorfi. "Mér þykir það til dæmis ákaflega miður á að síðustu árum er búið að breyta merkingu orðsins "geðveikt". Í dag notar ungt fólk þetta til að lýsa hrifningu sinni. Einhver er "geðveikt" góður í fótbolta og bíómyndir eru "geðveikar". Þetta er leiðinleg þróun og vanvirðing við geðsjúkt fólk."

Samt má segja að þetta dæmi stingi í stúf við hina almennu málþróun. Hér áður voru geðsjúkir iðulega kallaðir fávitar eða vitleysingar en það þótti Tómasi og öðrum sem til þekktu mjög miður. Í dag er talað um geðsjúka eða geðfatlaða.

Ekki talað um "hjartafatlaða"

Enda þótt tíu ár séu síðan Tómas settist í helgan stein fylgist hann vel með geðheilbrigðismálum í dag og er umhugað um geðheilsu þjóðarinnar. "Það fer alltaf jafnmikið fyrir brjóstið á mér þegar verið er að spara og loka geðdeildum. Þá furða ég mig á því þegar menn eru að býsnast yfir notkun geðlyfja. Þau hafa fyrir löngu sannað ágæti sitt. Það er enginn að setja út á notkun hjarta- eða krabbameinslyfja. Á þessu er enginn eðlismunur. Ég er líka andvígur því að flytja málefni geðsjúkra út úr heilbrigðiskerfinu, þau eiga hvergi annars staðar heima. Geðsjúkdómar eru heilbrigðismál rétt eins og hjartasjúkdómar. Hefur fólk einhvern tíma heyrt talað um "hjartafatlaða"?"

Tómas segir margt hafa áunnist í geðheilbrigðismálum á Íslandi á þeim hundrað árum sem liðin eru frá opnun Kleppsspítala. En betur má ef duga skal. "Það þarf að hlúa vel að þeim sem eiga við langvinna geðsjúkdóma að stríða og fjölga búsetuúrræðum með nauðsynlegum læknisfræðilegum stuðningi. Lengi getur gott batnað."

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.