Íslensk heimildamynd. Leikstjórn, klipping, taka, framleiðsla og handrit: Þorsteinn Jónsson. Viðmælendur: Ástþór Skúlason, Skúli Hjartarson, Ólöf Matthíasdóttir o.fl. 66 mín. Kvikmynd. Ísland. 2007.

ÖKULEIÐIN upp frá Rauðasandi er með þeim glæfralegustu á landinu, örmjóar, krappar beygjurnar hanga utan í bröttum Bjarggötudalnum. Ekkert má út af bera, þá tekur hengiflugið við, eins og henti Ástþór Skúlason, ungan mann og bónda á Rauðasandi vestur. Bíllinn valt með þeim alvarlegu afleiðingum að mænan skaddaðist og Ástþór lamaðist á fótum, en ekki að sjá að annað sé heilt.

Hvað gera menn eins og Ástþór? Þorsteinn leitar svara með því að draga upp portrett af manninum með rólegum og athugulum hreyfingum tökuvélarinnar. Hann virðir viðfangsefnið fyrir sér úr náinni fjarlægð og veltir því íhugull fyrir sér. Þorsteinn er vandvirkur heimildamyndagerðarmaður, árangurinn er sá að eftir því sem á líður kemst áhorfandinn í snertingu við sterkan persónuleika Ástþórs Skúlasonar.

Hann er sterkur og harðduglegur og lætur ekkert undan óveðrum lífsins frekar en mikilúðlegt umhverfið sem mótaði hann. Brött fjöllin sem girða af sveitina hans í næsta nágrenni Látrabjargsins, grænt og búsældarlegt vallendið, síðan seiðandi ægissandurinn, rómaður fyrir fegurð, og hafið úti fyrir í öllum sínum myndum. Ef á að reyna að finna þekkta samlíkingu þá minnir þessi skarpleiti og stælti náungi með dökkt hökuskegg og hár, eilítið sposkur en með viljafestu í hverjum andlitsdrætti, á leiðtogann, hinn trausta og óbifanlega Robert De Niro, sem Michael í The Deer Hunter . Slíkir menn gefast ekki upp.

Fylgst er með Ástþóri í sjúkraþjálfun í Reykjavík, en mestum tíma er varið í sveitinni, við almenn jafnt sem ólíklegustu störf sem honum tekst að ljúka við eins og þar fari alheill maður. Ástþór heyjar, hugsar um dýrin, þeysist um á bílum og fjórhjólum, bregður sér á hestbak, gerir við vélar, bætir sprungið dekk, skýtur varg og fer á sjó með félögunum – svo eitthvað sé nefnt. Engu er líkara en að lömunin hái honum ekki þótt maður skynji líkamlegt erfiðið og sársaukann.

Við kynnumst heimilisfólkinu á bænum, foreldrum, systur og unnustu, sem öll standa eins og klettur með Ástþóri, þótt ekki sé ein báran stök í sjúkrasögu heimilisfólksins. Við eigum notalegar stundir með því er það ræðir búskaparmálin og framtíðarhorfurnar.

Draumur Ástþórs er að vera bóndi í sinni fallegu sveit og með viljastyrk, þvermóðsku og góðra manna og véla hjálp er hann að rætast. Ástþór er ekki maður sem velur auðveldu leiðina og áhorfandinn fær sterkari trú á lífið eftir kynnin við þennan vestfirska galdramann sem sækir styrk í landið, dýrin og lífið og lætur óblíð örlög ekki buga sig. Megi hann yrkja sinn reit sem lengst.

Sæbjörn Valdimarsson