Kleppsspítali fagnar aldarafmæli.
Kleppsspítali fagnar aldarafmæli. — Morgunblaðið/Sverrir
KLEPPUR, hið gamalgróna geðsjúkrahús í Reykjavík, er hundrað ára í dag. Áratugum saman var það táknmynd þessara flóknu veikinda í augum almennings og margir sjúklingar áttu aldrei afturkvæmt eftir að hafa lagst þar inn.
KLEPPUR, hið gamalgróna geðsjúkrahús í Reykjavík, er hundrað ára í dag. Áratugum saman var það táknmynd þessara flóknu veikinda í augum almennings og margir sjúklingar áttu aldrei afturkvæmt eftir að hafa lagst þar inn. Á undanförnum áratugum hefur hlutverk Klepps gjörbreyst og Hannes Pétursson, sviðsstjóri lækninga á geðsviði LSH, segir að Kleppur sé í dag fyrst og fremst endurhæfingarmiðstöð fyrir geðsjúka og þannig verði það í framtíðinni.

Að vísu eru ennþá um sjötíu legusjúklingar á Kleppi en það er fólk sem ekki getur nýtt sér búsetuúrræði utan spítalans, a.m.k. ekki enn sem komið er. Hannes segir stefnt að því að legusjúklingar njóti félagslegra búsetuúrræða í framtíðinni en erfitt sé að setja markmið um fjölda eða tímaramma í því efni.

Hannes segir engin áform um að loka Kleppi.

"Við höfum Klepp eins lengi og við þurfum og á næstu árum verður lögð áhersla á að byggja þar upp öfluga og nútímalega endurhæfingarmiðstöð.

Kleppur er snar þáttur í sögu geðlækninga á Íslandi og okkur þykir mikilvægt að halda nafninu enda þótt það hafi neikvæða merkingu í huga margra. Vonandi verður þetta nýja hlutverk Klepps til þess fallið að vinda ofan af þeirri ímynd." | 10