27. maí 2007 | Leiðarar | 341 orð

Úr gömlum leiðurum

28. maí 1977 : "Ekkert þjóðfélag, ekkert efnahagskerfi eða atvinnulíf þolir til langframa óðaverðbólgu af því tagi, sem hér hélt innreið sína á vinstri stjórnarárunum. En verðbólgan er ekki síður siðferðilegt vanamál.
28. maí 1977: "Ekkert þjóðfélag, ekkert efnahagskerfi eða atvinnulíf þolir til langframa óðaverðbólgu af því tagi, sem hér hélt innreið sína á vinstri stjórnarárunum. En verðbólgan er ekki síður siðferðilegt vanamál. Hún spillir bæði þjóð og einstaklingum, slævir réttlætisskyn fólks. Allir hyggjast græða á verðbólgunni. En sá gróði hlýtur óhjákvæmilega að verða á kostnað náungans. Sá, sem sparar, tapar. Sá, sem skuldar, græðir, ef rétt er fjárfest. Slíkt verðbólgukerfi, sem hvetur til óeðlilegrar fjárfestingar og kippir stoðum undan nauðsynlegri sparifjármyndun í landinu, leiðir fyrr eða síðar til ófarnaðar. Rekstraröryggi atvinnugreina hverfur. Samdráttur í atvinnurekstri leiðir til atvinnuleysis. Og verst kemur óðaverðbólgan við hann, sem minnst má sín, sem ekki hefur fjármuni til fjárfestingar, sen horfir á gjaldmiðilinn í launaumslaginu minnka frá degi til dags."

31. maí 1987: "Um það er væntanlega ekki ágreiningur að íslenska er einhver mikilvægasta námsgrein grunnskólanna. Það skiptir öllu máli að það takist að viðhalda og örva áhuga nemenda á greininni. Áréttað skal, að til íslenskukennslu þurfa að veljast hæfustu kennarar, sem völ er á hverju sinni, og vanda verður til námsefnis svo sem kostur er. Sama gildir um íslenskupróf. Þau þurfa að vera sanngjörn og eins vafalaus og unnt er. Það væri hörmulegt slys, ef illa samin próf, eða misskilningur og kannski sambandsleysi milli kennara og höfunda prófa, yrði þess valdandi að nemendur í skólum landsins misstu áhuga á íslenskri tungu og bókmenntum."

31. maí 1997: "Árekstrar vegna skipulags- og byggðaþróunar hafa ítrekað komið upp á yfirborðið og hefur fólk mótmælt kröftuglega áformum sveitarfélaga um lagningu vega og öðrum framkvæmdum. Fyrir fáum dögum var umferð stöðvuð um Miklubraut, því að íbúar þar og í Hlíðum vildu mótmæla áformum borgaryfirvalda, sem talin voru ófullnægjandi, um að færa umferð í stokk undir Miklubraut til að draga úr mengun. Íbúarnir vilja að stokkurinn nái lengra í austur.

Í febrúar mótmæltu íbúar við Reykjanesbraut tvöföldun hennar fyrir Setbergslandi og töldu að breyttar forsendur rýrðu verðmæti íbúða þeirra. Í upphafi árs 1996 urðu hávær mótmæli vegna nýs skipulags í Garðabæ vegna vegar út Álftanes og tengivegar frá Arnarnesvogi."

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.