Aðalbyggingin Horft frá herberginu yfir aðalbyggingu Voksenåsen sem opnuð var árið 1960. Þar er barinn og veitingastaðinn að finna og útsýnið yfir Osló er hreint út sagt mergjað.
Aðalbyggingin Horft frá herberginu yfir aðalbyggingu Voksenåsen sem opnuð var árið 1960. Þar er barinn og veitingastaðinn að finna og útsýnið yfir Osló er hreint út sagt mergjað. — Morgunblaðið/Orri Páll
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is Leigubíllinn er stöðugt að klifra, ein brekka tekur við af annarri, og ég get ekki setið á mér að spyrja bílstjórann hvort reikna megi með því að Guð almáttugur verði í næsta herbergi við mig á hótelinu.

Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

Leigubíllinn er stöðugt að klifra, ein brekka tekur við af annarri, og ég get ekki setið á mér að spyrja bílstjórann hvort reikna megi með því að Guð almáttugur verði í næsta herbergi við mig á hótelinu. Hann hlær kurteislega en útilokar það ekki. Við erum á leið upp í efstu hlíðar Óslóar, á hótel sem heitir því ágæta nafni Voksenåsen.

Ég er í helgarferð með Iceland Express, sem hóf á dögunum beint flug til Óslóar, og það var einmitt flugfélagið sem benti mér á þetta óvenjulega en huggulega hótel.

Það er ofsögum sagt að Voksenåsen sé miðsvæðis í höfuðborg Noregs en aðbúnaðurinn, útsýnið og kyrrðin bætir það margfalt upp. Hótelið er sannarlega "á þaki Óslóar", eins og það kynnir sig á Netinu, í ríflega 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Á björtum degi mun útsýnið vera 110 km yfir borgina, fjöllin og fjörðinn. Kyrrðin þarna efra er algjör og varla er hægt að hugsa sér betri stað til að hlaða rafhlöðurnar.

Ferðin frá aðalbrautarstöðinni í miðbænum, Oslo S, upp að Voksenåsen tekur um tuttugu mínútur með leigubíl og um hálftíma með lest. Lestin er ekki lakari kostur enda gefst frábært tækifæri til að virða fyrir sér hlíðarnar, húsin þar og mannlífið á leiðinni. Brautarstöðin Voksenkollen er steinsnar frá hótelinu.

Þjóðargjöf Norðmanna til Svía

Voksenåsen er hannað í norrænum nútímastíl og var tekið í notkun árið 1960. Hótelið er þjóðargjöf Norðmanna til Svía í þakklætisskyni fyrir veitta aðstoð í heimsstyrjöldinni síðari og á árunum eftir stríð. Tilgangur gjafarinnar var að hvetja til samstarfs og menningarlegra samskipta milli þessara frændþjóða og finna þeim viðeigandi stað.

Hótelið er því ekki síður sænskt en norskt og heita flestar álmur og salir í höfuðið á nafnkunnum Svíum. Þar er að finna Dag Hammarskjöld-álmuna, Setustofu Selmu Lagerlöf, kaffistofu Astridar Lindgren og veitingastaðurinn heitir eftir sjálfum Nils Holgersson. Á veggjum er saga hótelsins rakin í máli og myndum og á einni má sjá Einar Gerhardsen, forsætisráðherra Norðmanna, afhenda hinum sænska starfsbróður sínum, Tage Erlander, Voksenåsen árið 1960.

Fleira er á veggjum en sögulegar heimildir en Voksenåsen rekur einnig gallerí og meðan ég dvelst þar er í gangi sýning á sænsku samtímamálverki. Verðið á sumum verkanna er viðráðanlegt en ekkert freistar nægilega mikið.

Voksenåsen hefur verið stækkað um helming frá 1960 og þekur nú um 7.000 fermetra. Þar eru 76 svefnherbergi, 20 ráðstefnusalir af öllum stærðum og gerðum og útisundlaug, svo eitthvað sé nefnt.

Voksenåsen er fyrst og fremst ráðstefnuhótel en rólegt er þar þessa helgi í maí. "Óvenjurólegt", segja starfsmenn brosandi. Eitt kvöldið er þó mikil afmælisveisla í Dag Hammarskjöld-álmunni, sem tekin var í notkun í fyrra, en hún veldur næturgestum engu ónæði.

Skemmtileg skógganga

Viðmót starfsfólks Voksenåsen er með besta móti og þjónustan lipur. Veitingastaður hótelsins er bjartur og maturinn hreint prýðilegur og á sanngjörnu verði. Annar góður veitingastaður, Frognerseteren, er í göngufæri. Hægt er að stytta sér leið þangað gegnum skóglendi en því miður er þar lítið um birni, elgi og aðra vætti. Vert er að vara konur við því að fara þessa leið á háhæla skóm. Frognerseteren er í gömlu glæsilegu timburhúsi og þar er einnig krá. Skemmtilegur bar er líka á Voksenåsen en gestir skulu hafa það í huga að hann er harðlokaður á sunnudögum. Á þeim helga degi súpa frændur vorir ógjarnan öl.

Hinn goðsagnakenndi skíðastökkpallur Holmenkollen er líka í göngufæri frá Voksenåsen, það er um þrjátíu mínútna gangur og á leiðinni fær maður góða tilfinningu fyrir þessu skemmtilega hlíðarhverfi sem kunnugir segja mér að sé í dýrari kantinum í Ósló. Ef menn nenna ekki að ganga uppeftir aftur er lestin á næstu grösum.