Öflugur William Fall á að baki langan og farsælan feril í alþjóðlegum fjármálaheimi og fróðlegt verður að fylgjast með störfum hans fyrir Straum-Burðarás. Stefnan er tekin á að verða stærsti fjárfestingabanki Norðurlandanna.
Öflugur William Fall á að baki langan og farsælan feril í alþjóðlegum fjármálaheimi og fróðlegt verður að fylgjast með störfum hans fyrir Straum-Burðarás. Stefnan er tekin á að verða stærsti fjárfestingabanki Norðurlandanna. — Morgunblaðið/Kristinn
Óhætt er að segja að nýr forstjóri Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka, William Fall, búi yfir mikilli reynslu þegar kemur að alþjóðafjármálum, en hann stýrði þar til fyrir skömmu allri starfsemi Bank of America utan Bandaríkjanna, en BoA er annar...

Óhætt er að segja að nýr forstjóri Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka, William Fall, búi yfir mikilli reynslu þegar kemur að alþjóðafjármálum, en hann stýrði þar til fyrir skömmu allri starfsemi Bank of America utan Bandaríkjanna, en BoA er annar stærsti banki veraldar. Bjarni Ólafsson ræddi við William Fall.

Verkefni Fall á þessum tíma voru mörg og umfangsmikil, en sem dæmi má nefna að undir hann heyrðu um 16.000 stöðugildi í átján löndum. Þótti honum takast vel til, en deild hans skapaði verulegar tekjur fyrir BoA og var með yfir 20% ávöxtun eigin fjár.

Einstakur tímapunktur

"Við Björgólfur hittumst fyrst í febrúar á þessu ári, en sameiginlegur vinur okkar kynnti okkur. Ég var þá að hugsa mér til hreyfings eftir nokkurra mánaða veru utan atvinnulífsins. Ég hætti störfum hjá Bank of America árið 2006 vegna veikinda í fjölskyldunni, en þegar við Björgólfur hittumst þá voru þau veikindi að baki og tími fyrir mig að koma mér til verks á ný. Það var svo í lok aprílmánaðar sem nokkuð föst mynd var komin á viðræður okkar og ljóst hvert stefndi," segir hann um aðdraganda þess að hann var ráðinn til Straums-Burðaráss.

Fall segir Björgólf drífandi og ástríðufullan mann þegar kemur að viðskiptum. "Það að vinna skiptir hann gríðarlega miklu máli og hann er getur tekið ákvarðanir mjög hratt. Við höfum í öllum aðalatriðum sömu sýn á það hvernig við viljum sjá bankann þróast og þroskast þótt ekki séum við fyllilega sammála um hvert smáatriði, eins og eðlilegt er."

Fall segir Straum-Burðarás staddan á einstökum tímapunkti þar sem miklir möguleikar eru til vaxtar. "Bankinn hefur gríðarleg sóknarfæri, hvort heldur sem er í gegnum sterkan efnahagsreikninginn eða eigið fé. Við höfum því möguleika til að grípa tækifæri til ytri vaxtar skjóti þau upp kollinum, en einnig til hraustlegs innri vaxtar."

Stærsti fjárfestingarbankinn

Björgólfur Thor og Fall nefndu báðir á fréttamannafundinum á þriðjudag að markmið þeirra væri að gera Straum-Burðarás að stærsta fjárfestingarbanka á Norðurlöndum. Fall segir þó að grundvallaratriðið sé ekki að ná einhverju tölulegu markmiði án tillits til annarra þátta. "Það sem mestu máli skiptir er að vöxturinn verði heilbrigður og gagnist fyrirtækinu og hluthöfum þess til lengri tíma. Vöxtur næstu ára mun því taka mið af þremur mikilvægum þáttum. Í fyrsta lagi verður að hafa í huga orðspor bankans, enda skiptir það banka miklu öðrum fyrirtækjum fremur að orðspor þeirra sé gott. Það þýðir að viðskipti bankans séu alltaf í samræmi við viðtekið viðskiptasiðferði."

Segir Fall að tilgangurinn sé að gera bankann sem traustastan fjárfestingarkost fyrir hluthafa.

"Í öðru lagi þurfum við að horfa til viðskiptavina okkar. Miklu máli skiptir að halda í þá viðskiptavini sem við bankinn aflar sér. Við viljum að viðskiptavinir okkar leiti til okkar í hvert sinn sem þeir þurfa á þjónustu sem okkar að halda. Markmið okkar er að sjálfsögðu að fjölga viðskiptavinum okkar til muna, en slíkur vöxtur er ekki til langframa séu viðskiptavinirnir ekki ánægðir með þjónustuna og vörurnar sem þeir fá."

Þriðja markmið Fall snýr að starfsmönnum bankans. "Við viljum að fólki sé umbunað sem skyldi fyrir vinnu sína fyrir bankann, en með því á ég ekki aðeins við launin heldur annan aðbúnað. Við viljum að starfsfólkið sé sannfært um að það sé að vinna fyrir fyrsta flokks fjármálafyrirtæki, að vinna þess og framlag sé metið að verðleikum og að það hafi réttlátan möguleika á framgangi innan bankans."

Segist Fall sjá fyrir sér að þessum markmiðum verði náð innan þriggja ára.

Fall segir að þrátt fyrir að bankinn sé nú þegar með meirihluta sinnar starfsemi erlendis og að hlutfall alþjóðlegrar starfsemi muni fara mjög vaxandi á næstu árum sé hann íslenskt fyrirtæki, skráð á íslenskum hlutabréfamarkaði. "Það er ljóst að eftir því sem bankinn stækkar og eykur umsvif sín erlendis mun erlendum viðskiptavinum hans fjölga og væntanlega mun erlendum hluthöfum og starfsmönnum fjölga sömuleiðis. Það skiptir okkur hins vegar miklu máli að halda í og viðhalda íslenskum rótum bankans, enda er velgengni hans sprottin úr þeim. Það er á hinn bóginn einnig nauðsynlegt að búa svo um hnútana að allir starfsmenn bankans, erlendir sem íslenskir, sitji við sama borð. Að erlendir starfsmenn fái það ekki á tilfinninguna að einungis íslenskir starfsmenn fái framgang innan bankans," segir hann.

Dýralæknirinn

Fræðilegur bakgrunnur Fall er óvenjulegur, en hann er með háskólapróf í dýraskurðlækningum og náttúruvísindum. "Faðir minn var bóndi og móðir mín læknir, þannig að í anda breskrar málamiðlunarhefðar gerðist ég dýralæknir. Það tók mig hins vegar ekki nema nokkra mánuði að gera mér grein fyrir því að dýraskurðlækningar hentuðu mér ekki." Fall segir að á þeim tíma hafi nokkrir skólafélagar hans úr Cambridge verið að vinna í fjármálahverfinu í London. "Þetta var í upphafi níunda áratugarins og fjármálamarkaðir í Bretlandi á mikilli siglingu í kjölfar aukins markaðsfrelsis. Ég skrifaði fjármálafyrirtækinu Kleinwort Benson og spurði þá hvort pláss væri fyrir mig hjá því. Ólíkt því sem nú er þurfti fólk ekki MBA-próf eða þvílíka menntun til að komast að í fjármálageiranum."

Síðan hefur Fall gegnt ábyrgðarstöðum hjá fjármálafyrirtækjum eins og Wespac Banking Corporation og NationsBank þar til hann hóf störf hjá Bank of America árið 2001, eins og áður hefur komið fram.

Teymismiðaður

Stjórnunarstíl sinn segir Fall vera teymismiðaðan og að starfsmenn þurfi að vera færir um að vinna í hópum. "Það segjast allir forstjórar vera áhugamenn um teymi og teymisvinnu, en þetta er einn af hornsteinum minnar stjórnunarstefnu," segir Fall. "Þar skiptir miklu máli að hlutverk og verkefni starfsmanna séu vel skilgreind, að hver og einn starfsmaður viti upp á hár hvert hans hlutverk er, hvaða markmiðum hann eigi að ná og hvernig eigi að ná þeim." Segir Fall að á næstu þremur mánuðum verði farið í það innan Straums að skoða verkferla og verkefnahópa innan fyrirtækisins með það að markmiði að skýra betur hlutverk starfsfólks þar sem þess er þörf og skerpa áherslur vinnuhópa.

"Þá er nauðsynlegt að starfsfólk hafi trú á stjórnendum fyrirtækisins, að það hafi það á tilfinningunni að framtíð þess sé í góðum höndum. Það fæst með skilvirkum samskiptum milli stjórnenda og starfsfólks, að starfsmenn séu sér meðvitandi um ástæður ákvarðana stjórnenda sinna og fái tækifæri til að tjá sig um það sem máli skiptir."

Fall segist gera miklar kröfur til starfsfólks síns enda geri hann miklar kröfur til sjálfs sín.

"Ég vinn mikið og lengi og ætlast til þess að fólk leggi sig allt fram í vinnunni. Sömuleiðis verður starfsfólk að vilja og geta unnið með öðrum. Það verða allir að vera á sömu blaðsíðu hvað þetta varðar," segir hann að endingu.

Í hnotskurn
» Bakgrunnur William Fall er óvenjulegur er hann er menntaður í dýraskurðalækningum og náttúruvísindum. Faðir hans var bóndi og móðirin læknir.
» Hann gafst upp á dýralækningum og fylgdi í kjölfar margra skólafélaga sinna úr Cambridge-háskóla í fjármálahverfið í Lundúnum. Síðan eru liðin meira en 25 ár.
» Fall gekk til liðs við Bank of America árið 2001 og var þar forstjóri alþjóðasviðs.
» Hann átti fyrst viðræður við Björgólf Thor Björgólfsson í febrúar sl. um að koma til starfa hjá Straumi-Burðarási. Hann mun starfa í Reykjavík og London.

bjarni@mbl.is