Það var árið 1989 sem 12 ára drengur ákvað að stofna fyrirtæki og sérhæfa sig í garðavinnu
"Það var þannig að mér var sagt upp í unglingavinnunni og var eiginlega atvinnulaus 12 ára, þá ákvað ég að stofna eigið fyrirtæki og keppa við unglingavinnuna," segir Brynjar Kjærnested sem enn rekur þetta fyrirtæki sem heitir Garðlist og er með blómlega starfsemi.
"Ég fór niður í Þór og keypti mér sláttuvél og orf. Pabbi skutlaði mér niður eftir. Svo fór ég að ganga um hverfið og bjóða garðslátt og fékk mjög góðar viðtökur."
Hvar bjóstu þá?
"Ég bjó á Arnarnesinu í Garðabæ og þar eru stórir garðar. Ég var svo heppinn að fyrsti garðurinn sem ég fékk að slá var sá stærsti á Arnarnesinu, ég var sex klukkutíma að slá hann," segir Brynjar.
"Fyrirtækið byrjaði sem sagt á að slá garða en smám saman urðu verkefnin fjölbreyttari. Fólk fór að biðja mig að hreinsa beð og gera ýmislegt fleira sem tengdist viðhaldi á görðum. Það var beðið um að klippa, þá voru keyptar klippur og þannig gekk þetta. Þetta kom allt svona eins og af tilviljun koll af kolli. Ég fékk bróður minn með mér og hann var með bílpróf sem var mikill fengur. Þá var fyrirtækið þriggja ára. Við störfuðum svo saman í tvö ár, þá lauk hann námi í Bandaríkjunum og fór í aðra vinnu en ég hélt áfram með fyrirtækið og fór að ráða til mín starfsfólk. Núna starfa hjá Garðlist 70 manns svo þetta hefur heldur betur undið upp á sig."
Flytur inn stubbatætara
Hver eru helstu verkefnin?"Helstu verkefnin núna eru að slá garða fyrir einstaklinga, húsfélög og bæjarfélög. Síðan erum við mikið í að hreinsa beð og í trjáklippingum, garðúðunum og alls konar viðhaldi í görðum."
Ertu garðyrkjumaður?
"Nei, ég lauk framhaldsskóla og síðan viðskiptafræðinámi í Bandaríkjunum en eigi að síður rek ég enn þetta fyrirtæki. Það eina sem snýr að fræðilegri hlið garðyrkjunnar sem við stundum er klippingar en þeir sem annast þær fyrir okkur fara á námskeið hjá fagfólki.
Þess má geta að Garðlist flytur nú inn mjög sérhæft tæki sem kallað er stubbatætari og er notað til að tæta stubba eftir að tré hafa verið felld. Trjástubburinn er þá tættur 30 sentimetra fyrir neðan jarðveg. Síðan er hægt að tyrfa yfir allt saman eða dreifa mold og gróðursetja. Þetta tæki sáum við á sýningu erlendis og erum með umboðið fyrir það."
Hefur mikið breyst í tækjakosti í garðyrkju síðan þú stofnaðir Garðlist?
"Já, það hefur heilmikið breyst. Nú erum við t.d. með fjarstýrðar sláttuvélar sem eru sérhæfðar í að slá mjög brattar brekkur þar sem erfitt er að slá öðru vísi. Við flytjum þessar fjarstýrðu sláttuvélar inn, þær eru frá Þýskalandi og við erum með umboð fyrir þær. Þróun í smærri tækjum til garðverka hefur líka verið mikil. Komnir eru á markað vélknúnir litlir kústar til að sópa stéttar og vélknúnir kantskerar til að kantskera meðfram beðum. Við höfum lagt okkur fram um að auðvelda garðhirðingu með æ betri tækjakosti. Þetta skilar sér með ánægðari starfsmönnum og aukinni hagræðingu.
Við erum með mikið af ungu fólki í vinnu og leggjum mikla áherslu á góða kennslu í byrjun. Allir verkstjórar hjá okkur fara á námskeið áður en þeir hefja störf og er mjög virkt eftirlit með verkum hvers og eins verkstjóra. Hver og einn þeirra fær mat vikulega á frammistöðu sinni. Þetta hefur breytt heilmiklu, starfsmaðurinn veit þá hvernig hann stendur sig, hvað hann gerir gott og hvernig hann getur bætt sig.
Sömu viðskiptavinir frá upphafi
Þetta hefur líka skilað sér í aukinni ánægju viðskiptavina."Hefur þú tölu á þeim görðum sem þið sinnið?
"Við sinnum yfir sumarið um 2000 görðum."
Er það vaxandi tilhneiging einstaklinga að fá fagfólk til að sinna görðum?
"Já það hefur aukist mjög. Yngra fólk hefur minni tíma en áður og eldra fólkið er þurfandi fyrir aðstoð."
Ertu með jafnmikið af konum og körlum í vinnu?
"Við erum með fleiri karlmenn í vinnu en það stafar af því að þeir leita fremur til okkar í leit að starfi. Á skrifstofunni eru tvær konur og tvær eru verkstjórar. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera framúrskarandi starfsmenn. Garðavinna af þessu tagi er líkamlega erfið og þess vegna er sennilegt að konur sæki minna í hana."
Ætlar þú að helga líf þitt garðastarfinu?
"Ég hef gert það hingað til og hef ekki plön um að breyta því. Ég hef alla vega ekki fundið neitt skemmtilegra að gera. Ég er enn með nokkra garða frá upphafi fyrirtækisins, það er tilhlökkunarefni á hverju vori að hitta þessa garðeigendur og sinna görðum þeirra. Svo hafa æ fleiri bæst í hópinn þannig að ég er mjög ánægður með þessa starfsemi og við leitumst við að bæta og víkka þjónustuna ár frá ári."