6. júní 2007 | Tónlist | 403 orð | 1 mynd

"Ekkert svalt við þessa plötu"

Um hamingjulíki Hrauns, plötuna I Can't Believe It's Not Happiness

Hljómsveitin Hraun Svavar Knútur, Loftur, Hjalti, Guðmundur og Jón Geir skemmta Úlfhildi Stefaníu.
Hljómsveitin Hraun Svavar Knútur, Loftur, Hjalti, Guðmundur og Jón Geir skemmta Úlfhildi Stefaníu. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@mbl.is HLJÓMSVEITIN Hraun átti lengi sitt andlega heimili á Kaffi Rósenberg. En eftir hraunið kom eldur.
Eftir Ásgeir H Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

HLJÓMSVEITIN Hraun átti lengi sitt andlega heimili á Kaffi Rósenberg. En eftir hraunið kom eldur. Miðbæjarbruninn í vor varð til þess að loka þurfti staðnum tímabundið en á meðan má sjá myndir frá Rósenberg á umslagi nýútkominnar plötu Hrauns, I Can't Believe It's Not Happiness. Nafnið er dregið af bandarísku smjörlíki enda segir Svavar Knútur Kristinsson, söngvari sveitarinnar, að umfjöllunarefni hennar sé eins konar hamingjulíki. "Platan er sú fyrri í tveggja platna verki. Fyrri hlutinn er um að vera hjálparlaus og varnarlaus og ná ekki alveg taki í lífsins ólgusjó. Seinni platan er systurplata hinnar fyrri og eins konar framhald. Hún fjallar ekki síður um erfiðleika og vandræði, en munurinn er að maður hefur meiri stjórn á aðstæðum."

Svavar segir að seinni platan verði ákveðnari og bjartari en rauði þráðurinn verði sögur um endurreisn, þar sem fyrrri platan lýsi eymd og þrá eftir sáluhjálp. Þráðurinn er þegar að miklu leyti orðinn til, hljómsveitin er þegar búin að semja lögin á næstu plötu.

Lögin á nýju plötunni eru mörg undir sterkum áhrifum frá bandarískum þjóðlögum þar sem villta vestrið rennur saman við kalda norðrið. Lög á borð við "Clementine", "Goodbye My Lovely" og "Call Off Your Cavalry" kallast á við "Ástarsögu úr fjöllunum". "Ég er náttúrlega sveitastrákur..." byrjar Svavar Knútur og heldur áfram: "Popptónlist í dag er oft afskaplega ópersónuleg, menn eru alltaf að fela sig á bak við grímu kaldhæðni og töffaraskapar. Ég held að rosalega margir listamenn séu dauðhræddir við að láta sjást þar á bak við. En almennileg þjóðlög lifa lengi því þau eru svo hlý og einlæg. Mér finnst mjög gott fyrir okkur að geta hleypt þessu fram og verið opnir og einlægir en ekki með einhvern töffaraskap." Er þetta sem sagt ekki töff plata? "Við vorum einmitt að grínast með þetta: – Strákar, það er ekkert svalt við þessa plötu. Það eru ekki ein sólgleraugu á þessari plötu." Yrkisefnin eru líka iðulega persónuleg. Það er fjallað um ástina, sambandsslit og föðurmissi. Og Paris Hilton. "Það er kannski meira "Hiltonisminn", hedónisminn sem stingur mig. Að vera sama um sjálfan sig og aðra, vera sama um sjálfsvirðinguna og gufa upp. Ég varð vitni að svipaðri þróun hjá góðri vinkonu minni og þótti það mjög sársaukafullt." Sveitin hefur þegar haldið nokkra tónleika og stefnir að fleirum en planið er þó nokkuð óljóst enda tekur brauðstritið sinn tíma. Meðlimir Hrauns eru frístundaráðgjafi, fataprangari, skrúfubraskari og kjötmaður.

www.hraun.tk

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.