Hugsar rökrétt "Ég get líka ímyndað mér að íslenskan sé skemmtileg fyrir einhverfa að læra af því að orðin eru ekki flókin og heldur ekki málfræðin. Íslenska málfræðin er erfið en hún er líka rökrétt. Og einhverft fólk hugsar mjög rökrétt," segir Daniel Tammet.
Hugsar rökrétt "Ég get líka ímyndað mér að íslenskan sé skemmtileg fyrir einhverfa að læra af því að orðin eru ekki flókin og heldur ekki málfræðin. Íslenska málfræðin er erfið en hún er líka rökrétt. Og einhverft fólk hugsar mjög rökrétt," segir Daniel Tammet. — Colin McPherson/Corbis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Daniel Tammet hefur einstaka sérgáfu, sem gerir honum kleift að læra íslensku á viku og setja Evrópumet í að þylja upp aukastafi pí. Honum hefur tekist að yfirvinna ýmsar hindranir, sem fylgja sérgáfu hans, og brjótast út úr lokuðum heimi. Hallgrímur Helgi Helgason ræddi við Tammet.

Daniel Tammet hefur vakið athygli um allan heim hin síðustu ár fyrir einstæða sérgáfu sína. Hann er það sem nefnt er "savant" á ensku, sem er fágæt tegund Asperger-heilkennis. Savantar búa allajafna yfir sérstakri snilligáfu, hvort sem er á sviði lista eða stærðfræði. Nú eru um 50 manns í heiminum skilgreindir sem savantar. Það sem gerir Daniel Tammet hins vegar einstakan og hefur gefið vísindamönnum ómetanlegt tækifæri til að skyggnast inn í hugarheim savanta er að hann er ekki lokaður inni í einhverfu sinni heldur er fullfær um eðlileg samskipti og getur tjáð sig um reynslu sína.

Tammet er sjálfur með einstæða stærðfræðigáfu. Sé hann beðinn um að margfalda töluna 37 í fjórða veldi nefnir hann næstum samstundis töluna 1.874.161. Hann á einnig Evrópumet í því að endursegja eftir minni aukastafi tölunnar pí. Tammet hætti að þylja þá romsu þegar hann var kominn í 22.514 aukastafi. Hann hefði getað haldið lengi áfram en honum fannst mestu skipta að hætta á fallegri tölu. Því það er annað einkenni á samneyti Tammets við heim talnanna að það byggist á fegurð og ríkri tilfinningu. Hann sér tölur sem bæði liti og form, jafnvel áferð. Þegar hann reiknar út flókin dæmi notar hann ekki sömu aðferð og "venjulegt fólk" heldur sér tiltekin form umbreytast í önnur form sem eru þá útkoman. Sumar tölur eru næstum yfirþyrmandi fallegar. Aðrar eru ógnvekjandi. Þetta fyrirbrigði er nefnt samskynjun (synaesthesia).

Tammet kom hér fyrir tveimur árum með breskum kvikmyndagerðarmönnum sem höfðu lagt fyrir hann þá þraut að læra íslensku á fáeinum dögum. Að þeim dögum liðnum kom hann fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins og sat fyrir svörum á furðulega góðri íslensku. Hann hefur haldið íslenskunni við og þess ber að geta að viðtalið við Tammet fór nánast allt fram á nær lýtalausri íslensku af hans hálfu.

Þráin eftir "venjulegu lífi"

Tammet kemur úr barnmargri fjölskyldu og er elstur af níu systkinum. Foreldrar hans voru efnalitlir en sinntu börnunum af mikilli umhyggju. Þegar Tammet var fjögurra ára fékk hann skyndilegt flogaveikikast sem kann að hafa framkallað savant-gáfu hans. Í bók sinni Born on a Blue Day lýsir Tammet sér sem erfiðu barni sem braust smám saman út úr félagslegri einangrun sinni og öðlaðist hamingjuríkt og traust líf og lífsfélaga. Þráin eftir að eignast "venjulegt líf" og verða hamingjusamur er sem rauður þráður í gegnum bókina.

"Í barnaskóla var ég venjulega í mínum einkaheimi," segir Tammet. "Þegar ég hugsaði um tölur og orð sá ég liti og form og þau voru vinir mínir. Ég var oftast einn í skólanum og önnur börn skildu mig ekki. Ég lifði bara í þögn og talaði ekki við aðra. En svo þegar ég var átta eða níu ára ákvað ég að ég þyrfti að eignast leikfélaga, kynnast vinum. Það var í fyrsta sinn sem ég fann fyrir því.

Ég hafði alltaf tilfinningar en það var ekki auðvelt fyrir mig að sýna þær eða skilja hvað ég ætti að gera með þær. Þegar ég var hamingjusamur var það oftast vegna þess að ég var að hugsa um orð og tölur. Svo mér fannst skrýtið að hugsa mér að ég gæti orðið hamingjusamur með öðru fólki.

Það tók mig tíma að læra að vera opinn fyrir fólki og eignast vini. Ég þurfti til dæmis að læra að horfa í augun á fólki og líka það hvernig ætti að hlæja. Í sambandi við hlátur skiptir tímasetning miklu máli, að vita hvenær á að hlæja og hvenær ekki. Ef gömul kona dettur á götu þá á maður ekki að hlæja en ég þurfti að læra það því mér fannst þetta kannski fyndið. En sem betur fer naut ég þess að læra."

– Þú segir frá því í bókinni þinni að til þess að skilja tilfinningar fólks hafirðu stundum þurft að ímynda þér tilteknar tölur. Eins og töluna 6. Þarftu þess ennþá?

"Já, en það er samt ekki eins mikilvægt og áður. Mér gengur miklu betur núna en áður með það. Já, 6 er fyrir mér myrk tala, svört, eins og að vera "hnugginn" á íslensku..."

– Er talan 6 þá hnuggin?

"Já, og talan 9 er blá, mjög stór og mér finnst hún mjög falleg. 6 er ekki svo falleg, hún er frekar ljót."

Þráin eftir venjulegu lífi

– Þú segist í bókinni vilja nota reynslu þína til að hjálpa einhverfu fólki og fólki með Asperger-heilkenni að finnast það meira velkomið í heiminn.

"Já, af því að ég er einhverfur og yngri bróðir minn líka. Þegar menn hugsa um einhverfu hugsa þeir oftast um kvikmyndina Rain Man. En ég vona að þegar fólk les bókina mína sjái það að það er mögulegt fyrir einhverfan mann eða mann með Asperger-heilkenni að öðlast nýtt venjulegt líf og verða hamingjusamur. Og að við getum um leið trúað því að við séum meira velkomin í heiminn."

– Hittirðu þá stundum einhverft fólk sem þér finnst þú geta hjálpað út úr einangrun sinni?

"Já. Þegar ég var í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum vegna töku á kvikmynd um mig þá hitti ég Kim Peek, sem er fyrirmyndin að Rain Man. Hann er mjög klár og spennandi en það er erfiðara fyrir hann að kynnast fólki og eiga venjulegt líf. En hann er skemmtilegur og við töluðum mikið saman um tímasetningar..."

– Í sambandi við hlátur þá?

"Já, og líka um orð og bækur, tölur og allt sem okkur fannst áhugavert."

– En fannst þér að þú gætir aðstoðað mann eins og hann við að verða meira félagslega fær?

"Já, það er reyndar erfitt að segja nákvæmlega því einhverfa er mjög flókin og ólík í tilfelli hvers og eins. En þegar við töluðum saman fannst mér við geta skilið hvor annan og það var mjög gaman."

– Í bókinni segir frá því þegar þú ákveður að halda einn þíns liðs til Litháens til að kenna ensku. Það hlýtur að hafa þurft mikið hugrekki til þess fyrir mann sem var svo háður því að allt í umhverfi hans væri stöðugt?

"Já, ég var 19 ára og hafði nýlokið skóla. Ég var ekki handviss um hvað ég gæti gert í lífinu. Og þá hugsaði ég að það væri spennandi að reyna að hjálpa fólki að læra ensku. Ég var ekki viss um hvort ég gæti þetta en ég vildi reyna."

– Varstu ekkert hræddur við að fara að búa einn í Litháen?

"Ég hugsaði að það yrði kannski erfitt fyrir mig og fjölskylduna, sem var ekki viss um að þetta væri svo gott. Móðir mín var mjög hrædd við þetta og faðir minn líka. Og systkinin líka, bætir Tammet við og hlær. Ég var hræddur sjálfur en mig langaði svo mikið að eignast líf sem væri venjulegt og vera hamingjusamur. Það var mér mikilvægt að reyna þetta, í stað þess að vera alltaf hræddur. Svo ég fór til Litháens og bjó í Kaunas í níu mánuði. Þar lærði ég lithásku fljótt. Ég var kominn með nógu mikið sjálfstraust til að læra hana."

– Sjálfstraust, já. Skiptir það kannski öllu máli við að læra tungumál?

"Já, það gerir það. Ég held að allir geti lært tungumál ef þeir hafa sjálfstraust. Jafnvel íslensku. Svo er líka gott að hafa góðan kennara eins og ég hafði á Íslandi."

– Varstu þá ekki fljótur að læra tungumál sem barn í skóla? Hvað fannst kennurum þínum?

"Jú, þeir sáu að ég var fljótur að því. Ég lærði frönsku þegar ég var 11 ára og þýsku þegar ég var 12 ára. Þegar ég fór í skóla var ég mjög fátækur og skólinn átti ekki peninga til að hjálpa fólki eins og mér sem var – hvað segir maður – "ljóngáfaður"?" spyr Daníel og hlær.

– Við tölum reyndar um sérgáfu.

"Já. En nú er þetta betra á Englandi. Það er meiri peningur í skólakerfinu fyrir sérkennslu."

Á íslensku vaxa orðin upp úr jörðinni

Í bókinni þinni segirðu um íslenskunámið: "Tungumál hefur mótandi áhrif á sjálfsmynd einstaklingsins. Enskan, móðurmál mitt, hafði hjálpað mér að móta mína sjálfsmynd. Að læra íslensku myndi fela í sér að leyfa henni að móta mig upp á nýtt." Finnst þér þá íslenskan hafa bætt einhverju við þína persónu?

"Já, það er kannski erfitt að útskýra þetta. En þeim sem er með Asperger finnst oft að hann sé erlendis af því að hann er dálítið skrýtinn og allt er skrýtið fyrir honum. En þegar ég læri tungumál þá finnst mér ég tengjast öðrum á nýjan hátt. Ef ég tala íslensku er til dæmis auðveldara fyrir mig að kynnast Íslendingum."

Tammet lærði m.a. íslensku með hjálp barnabóka og orðabóka. Og Dagbók Bridget Jones sem hann bar þá saman við enska textann.

– Þér finnst betra að lesa tungumál í gegnum skáldsögur en til dæmis málfræði?

"Já, einmitt. Því Íslendingar tala ekki málfræði, þeir tala íslensku. Auðvitað er málfræði góð líka en það er erfitt að læra tungumál í gegnum málfræði. Maður lærir með því að tala við fólk og lesa bækur, það er auðveldara og gaman líka. Og það er lykilatriði þegar maður lærir tungumál að það sé gaman. Þá gengur námið vel."

– Þú segir í bókinni þinni að það hafi komið þér á óvart hvað íslenskan var myndrænt mál?

"Já, orð á íslensku eru mjög, mjög falleg og líka gegnsæ. Til dæmis orð eins og "hugmynd", "hvítlaukur", "orðabók" og svo framvegis. Mér finnst orðin yfir þessa hluti betri á íslensku en ensku. Svo eru mjög skemmtileg orð eins og "ljósmóðir". Það er mjög fallegt."

– Heldurðu að íslenskan sé kannski sérlega hentugt tungumál fyrir þig af því hvað þú hugsar myndrænt?

"Já, einmitt. Af því að ég hugsa myndrænt og íslensk orð eru gegnsæ og falleg þá hugsa ég að íslenska sé auðveldari fyrir mig en til dæmis litháska. Ég get líka ímyndað mér að íslenskan sé skemmtileg fyrir einhverfa að læra af því að orðin eru ekki flókin og heldur ekki málfræðin. Íslenska málfræðin er erfið en hún er líka rökrétt. Og einhverft fólk hugsar mjög rökrétt."

– Og þú skynjar liti og form í íslenskunni? Einstök orð í henni hafa sinn lit?

"Já, til dæmis orðið "hnugginn". Ég held ég hafi fundið það í orðabókinni. Mér skilst að það sé ekki mjög algengt orð lengur. Mér finnst það mjög fallegt. Það er blátt og líka hvítt. Svo þegar ég hugsa um þetta orð sé ég blátt og ég man að þetta orð þýðir að vera ekki hamingjusamur. Því að blátt tengist oftast slíkri tilfinningu. Og líka orðið rökkur. Það er mjög rautt fyrir mér."

– Er það þá dökkrautt?

"Já, dökkrautt, það er eins og glóð og mjög fallegt. Vegna þess að rökkur snýst um sól er mjög gaman að sjá það orð í rauðu því að sólin er stundum rauð. Svo ég sé tenginguna."

– Þegar þú komst í sjónvarp hér sagðirðu að þú værir orðabóndi. Manstu eftir því?

"Ég sagði já, maður var orðabóndi af því að á íslensku vaxa orðin upp úr jörðinni. Til dæmis eldsnemma. Þetta er orð sem er ekki skapað af fræðingum heldur af því að þegar menn komu á fætur þurfti að byrja á að kveikja eld. Þetta er mjög skemmtilegt."

Myndræn hugsun og innsýn í hugarheim Daniels Tammets

Daniel Tammet heldur fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík, Ofanleiti 2, kl. 16.15 fimmtudaginn 21. júní í stofu 201. Í erindinu ræðir hann um óvenjulega reynslu sína og bók um líf sitt sem nefnist Born on a Blue Day. Nafngiftin stafar af því að Tammet er fæddur á miðvikudegi og miðvikudagar eru bláir í hans huga.

Við sama tækifæri heldur inngangserindi Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik. Hann fjallar um svonefnda myndræna hugsun út frá sjónarhóli fræða eins og heimspeki og sálfræði. Ólafur er með BA próf í heimspeki.

Að koma sér upp akkerum hugans

Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, mun halda inngangserindi að fyrirlestri Daniels Tammets í Háskólanum í Reykjavík. Ólafur hefur lengi haft áhuga á svonefndri samskynjun, m.a. út frá sjónarhóli heimspekinnar.

"Fyrir mig eins og marga er það viss hvalreki að komast í tæri við mann eins og Daníel og sjá hvernig hann hugsar," segir Ólafur. "Hans mesta afrek er að hafa náð þessari félagslegu færni, geta tjáð sig um reynslu sína. Það er svipað afrek og það væri fyrir mig og þig að geta þulið upp 20 þúsund aukastafi tölunnar pí.

Ég mun tala í erindi mínu svolítið um það sem ég hef verið grúska í, sálfræði, heimspeki og félagsfræði. Þetta hefur verið mitt áhugasvið. Ég hef náttúrlega haft mikinn tíma síðustu tíu ár milli æfinga, hef verið í minni holu og grúskað. Þar hefur það hjálpað mér að hafa hald við eitthvað þar sem ég frekar fljótandi karakter. Ég kláraði mína BA-gráðu sem er náttúrlega bara gráða en þetta er samt orðinn hluti af mér auk þess sem ég hef mikinn áhuga á sjónlistum og líka goðsögunum sem eru náttúrlega allegóría fyrir tilfinningalíf okkar.

Ég vil í stuttu máli að við séum duglegri við að velja úr því áreiti sem lendir á okkur en tökum ekki hlutlaust við öllum sköpuðum hlutum heldur veljum og höfnum í samræmi við markmið okkar í lífinu. Og síðan að við gefum okkur tíma í að hægja aðeins á, tóm til að breyta öllu þessu hlutlæga áreiti yfir í eitthvað huglægt og þannig geymist það betur og þannig náum við að fylla okkur sem manneskjur.

Það næsta sem ég kemst því að vera með einhvern svona séreiginleika er að ég er örvhentur og hugsa þá meira með hægra heilahvelinu. Þeir sem eru rétthentir eiga að hugsa meira með vinstra heilahvelinu, vera rökrænni, betri í stærðfræði og svona. En hægra hvelið tengist meira þessari abstrakt heildarhugsun.

En ég hef í þeim skilningi reynslu af þessari svonefndu samskynjun að ég hef verið að smábreyta minni hugsun, dagbókarpælingar mínar eru til dæmis að færast meira yfir í myndir. Þetta tengist allt þessari pælingu um að flokka áreiti, tengja og geyma."

– Þannig að þetta er pínulítið á skjön við þessa venjubundnu rökhugsun, þú leitar að niðurstöðu úr annarri átt?

"Já, maður er með þetta aðeins opnara og síðan er pælingin hjá mér að blanda tilfinningunum þarna inn í og skynjuninni svo maður geti notað hvort tveggja sem hjálpartæki við að flokka áreitið úr umhverfinu, búa til eins lags akkeri í vitundinni og tengja síðan við þau hvers kyns upplifun, lykt, liti og hljóð. Þannig margfaldast allt í þér, taugabrautirnar styrkjast og breikka og möguleikarnir á að ná utan um hugsanirnar aukast og maður verður litríkari karakter.

Röng forgangsröðun í skólakerfinu

Þetta snýst allt um þennan einfalda sannleik, sem er í raun líka fyrsta regla sálfræðinnar, að það sem þú einbeitir þér að verður þinn veruleiki. Það er ekkert flóknara en það. Þá flokkarðu áreitið, velur og hafnar. Ef við viljum til dæmis nota efni eins og skáldskap og goðsögur til þess að auðga líf okkar og ná auknum þroska þá tel ég mig vera með aðferð til þess að breyta þeirri reynslu í eitthvert varðveisluform, á myndrænan hátt.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara að skjóta á skólakerfið. Ég tel bara að forgangsröðin í því sé röng. Starfið þar miðist við að gera nemendur sem færasta til að falla inn í ákveðið hjól þjóðfélagsins svo það snúist og hagvöxturinn sé réttur. En þetta hefur oft í för með sér að einstaklingurinn vaknar kannski upp um þrítugt og fer þá að rækta sjálfan sig. Ég vil hins vegar byrja á því. Ég vil rækta hann til tvítugs, vinna með tilfinningalega greind, húmanískar greinar og tengja þær verkvitinu. Síðan þegar menn eru búnir að finna sjálfa sig þá hafi þeir nægan tíma, þá séu þeir búnir að læra að læra og geti farið að taka hlutina inn á réttum forsendum. Og þar hjálpar til dæmis að vera búinn að þroska skilningarvitin og dýpka. Þá er maður kominn með miklu fleiri akkeri til að hengja hluti á, getur lifað dýpra og skemmtilegra lífi. Sem er náttúrlega hinn endanlegi tilgangur. Eða ætti að vera."