Yfirtaka Sindri Sindrason, stjórnarmaður í Actavis, rakti tilboðsferlið á fundi og kynnti niðurstöðu stjórnarinnar varðandi tilboð Novators.
Yfirtaka Sindri Sindrason, stjórnarmaður í Actavis, rakti tilboðsferlið á fundi og kynnti niðurstöðu stjórnarinnar varðandi tilboð Novators. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur sigrunrosa@mbl.

Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur

sigrunrosa@mbl.is

SINDRI Sindrason, stjórnarmaður í Actavis kynnti á fundi í gær þá ákvörðun stjórnarinnar, að mæla með því við hluthafa að samþykkja nýtt tilboð frá Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns Actavis. Félög tengd honum eiga alls 38,5% af útgefnu hlutafé í A-flokki í Actavis Group.

Nýja tilboðið er upp á 1,075 evrur eða 90,2 krónur á hlut, sem þýðir að Novator metur virði félagsins á yfir 303 milljarða íslenskra króna miðað við gengi evrunnar í gær. Hér er því um að ræða stærstu yfirtöku sem gerð hefur verið á Íslandi.

Ákveði Novator að selja 10% eða meira af hlut sínum í Actavis innan 12 mánaða eftir gildistíma tilboðsins fá þeir hluthafar sem samþykkja tilboðið aukagreiðslu.

Tilboðið talið sanngjarnt

Bandaríski fjárfestingabankinn JP Morgan var fenginn sem óháður ráðgjafi, til að meta tilboðið og var niðurstaðan sú að tilboð Novator teldist áhugavert fyrir hluthafana. Að ráðum bankans ákvað stjórnin því að mæla með tilboðinu.

Í yfirlýsingu sem Björgólfur Thor sendi frá sér segir hann yfirtökutilboðið að sínum dómi sanngjarnt og endurspegla ríflega verðmæti félagsins. Það sé jafnframt ánægjulegt að stjórn Actavis og ráðgjafar hennar, JP Morgan, telji tilboðið áhugavert og sanngjarnt og að þessi óháði aðili, sem þekki félagið mjög vel, skuli mæla með tilboðinu við hluthafa þess. Hann segist einnig ánægður með að samstaða skuli vera að myndast um hvernig framtiðarhagsmunum Actavis sé best borgið.

Tilboð Björgúlfs nú er 9,7% hærra en tilboðið sem stjórn Actavis hafnaði fyrir um hálfum mánuði síðan. Það var upp á 0,98 evrur á hlut sem jafngilti rúmum 85 krónum á þáverandi gengi. Stjórnin taldi það tilboð hvorki endurspegla raunverulegt virði félagsins né framtíðarmöguleika þess.

Gengi bréfa Actavis hækkaði um 2,87% í kauphöllinni í gær og stóð í 88,50 krónum við lokun markaðar. Alls hefur gengi Actavis hækkað 13,2% í kauphöllinni, síðan Novator tilkynnti yfirtökuáform sín í maí.

Þeir stjórnarmenn sem lögðu mat á tilboðið eru Sindri Sindrason, Magnús Þorsteinsson og Baldur Guðnason.

Tólf mánuðirnir eru baktrygging

"Fyrir hluthafana eru tólf mánuðirnir trygging fyrir því, að ef svo færi að Novator seldi fljótlega, fyrir mun hærra verð, þá fái þeir að njóta þess að hluta til," segir Sindri Sindrason, stjórnarmaður í Actavis þegar hann er spurður hvort stjórnin hafi sett einhver skilyrði í samningaviðræðunum við Novator. En selji Novator, 10% hlutafjár eða meira í Actavis frá sér á hærra verði en tilboðið hljóðar upp á, á næstu 12 mánuðum eftir að tilboðið verður óskilyrt, eiga hluthafar sem hafa samþykkt tilboðið fá aukagreiðslu.

Novator tilkynnti tilboð sitt í gær og stuttu á eftir tilkynnti stjórn Actavis að hún mælti með tilboðinu. Segir Sindri stjórnina hafa talið mikilvægt að kynna sem fyrst að stuðning sinn við tilboðið til að koma í veg fyrir getgátur á markaði líkt og gerðist þegar fyrra tilboðið var kynnt.

Aðspurður sagðist Sindri hafa heyrt í nokkrum stórum hluthöfum í gær sem töldu tilboðið ásættanlegt. Sjálfur ætlar hann að selja og þarf því að leita að nýjum fjárfestingatækifærum þó hann gefi ekkert upp um hvað hann hefur í hyggju.