Vinsæll Mauricio Marci, nýkjörinn borgarstjóri, stígur tangó á götum Buenos Aires.
Vinsæll Mauricio Marci, nýkjörinn borgarstjóri, stígur tangó á götum Buenos Aires. — Retuers
Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is ÍHALDSMAÐURINN Mauricio Macri, forseti knattspyrnuliðsins ofurvinsæla Boca Juniors, var á sunnudag kjörinn borgarstjóri Buenos Aires, höfuðborgar Argentínu.

Eftir Ásgeir Sverrisson

asv@mbl.is

ÍHALDSMAÐURINN Mauricio Macri, forseti knattspyrnuliðsins ofurvinsæla Boca Juniors, var á sunnudag kjörinn borgarstjóri Buenos Aires, höfuðborgar Argentínu. Sigur Macris má hafa til merkis um fallandi gengi Nestors Kirchners forseta og eiginkonu hans í argentínskum stjórnmálum.

Macri, sem er 48 ára, gjörsigraði andstæðing sinn, Daniel Filmus, í síðari umferð kosninganna. Hann hlaut 61% greiddra atkvæða en hafði hlotið 45% þeirra í fyrri umferðinni, sem fram fór 3. júní.

Ákafur stuðningur Nestors Kirchners við Filmus reyndist duga skammt og telst niðurstaðan verulegt áfall fyrir forsetann og stjórnarflokk peronista. Macri, sem jafnframt situr á þingi Argentínu, var frambjóðandi PRO-flokkabandalags (sp. Propuesta Republicana) miðju- og hægrimanna. Sjálfur fer hann fyrir Breytingaflokknum (sp. Compromiso para el Cambio), sem hann stofnaði árið 2003 er hann bauð sig í fyrsta skipti fram til embættis borgarstjóra Buenos Aires.

Macri tók sæti á þingi fyrir PRO-bandalagið í fyrra. Honum er iðulega líkt við "kavalérinn", sjálfan Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Líkt og hann er Macri vellauðugur kaupsýslumaður, hægrisinnaður og nátengdur fótbolta. Macri varð forseti Boca Juniors, eins öflugasta knattspyrnuliðs Argentínu, árið 1995 og hefur tvívegis náð endurkjöri enda hefur liðið notið velgengni. Hann er verkfræðingur að mennt, kominn af auðugu fólki, sem byggt hefur upp mikið viðskiptaveldi í Argentínu.

Pólskipti í höfuðstaðnum

Sigur Macris telst sögulegur því íbúar Buenos Aires hafa aldrei áður kjörið hægrimann borgarstjóra. Og um pólitískt mikilvægi þessara umskipta verður vart deilt, ekki síst í ljósi þess að forsetakosningar fara fram í Argentínu 25. október.

Nestor Kirchner forseti hefur borið höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálamenn argentínska á undanliðnum árum og víst hefur verið talið að hann fari með sigur af hólmi í kosningunum í haust. Forseti Argentínu má einungis gegna embættinu tvö kjörtímabil í röð og hafa innvígðir talið líklegt að eiginkona Kirchners, Christina Fernandez de Kirchner, bjóði sig fram nú og hafi embættið með höndum næstu fjögur árin. Nestor gæti þá snúið aftur 2011. Með þessu móti gætu Kirchner-hjónin stjórnað Argentínu til ársins 2015, jafnvel 2019.

Enn er ekki ljóst hvort þeirra fer fram í forsetakosningunum í haust. Sýnt er þó að algjör yfirburðastaða þeirra í argentínskum stjórnmálum heyrir sögunni til. Kannanir sýna minnkandi fylgi við Kirchner-hjónin og frambjóðendur, sem notið hafa stuðnings forsetans, hafa ekki hlotið brautargengi í undangengnum kosningum. Spillingarmál, sem jafnan eru fyrirferðarmikil í argentínsku þjóðlífi, sýnast einnig munu reynast forsetanum erfiðari en ætla mátti. Kirchner forseti hefur aukinheldur tekið upp náið samstarf við Hugo Chavez, forseta Venesúela og umdeildasta stjórnmálaleiðtoga Rómönsku Ameríku nú um stundir. Í Argentínu telja margir slíkt bandalag lítt til framfara fallið.

Sigurlíkur Kirchner-hjónanna í forsetakosningunum í haust teljast þó enn miklar en gott gengi Mauricio Macri í borgarstjórnarkosningunum í Buenos Aires ætti að verða til þess að hleypa lífi í stjórnarandstöðuna. Macri er aukinheldur á góðum aldri og kann að áforma frekari frama í stjórnmálunum, t.a.m. forsetaframboð árið 2011.