Eftir Andra Karl andri@mbl.is NÝLEGIR dómar sem fallið hafa í kynferðisbrotamálum hér á landi hafa vakið upp þá spurningu hvort ekki sé rétt að halda skrá yfir dæmda kynferðisbrotamenn. Vissulega eru skrár fyrir hendi, þ.e.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

NÝLEGIR dómar sem fallið hafa í kynferðisbrotamálum hér á landi hafa vakið upp þá spurningu hvort ekki sé rétt að halda skrá yfir dæmda kynferðisbrotamenn. Vissulega eru skrár fyrir hendi, þ.e. sakaskrá og málaskrá lögreglu, en vart verður sagt að þær séu jafn gagnlegar og ef hægt væri að sækja upplýsingar í miðlægan gagnagrunn sem innihéldi lífsýni að auki.

Gagnagrunnar af þessu tagi hafa nýst vel við rannsóknir sakamála í þeim löndum sem Íslendingar bera sig helst saman við og eru umfangsmestu skrárnar í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Lög um erfðaefnisskrá voru samþykkt í júní árið 2001 á Alþingi. Samkvæmt þeim á ríkislögreglustjóri að halda rafræna skrá með upplýsingum um erfðaefni einstaklinga sem skiptist raunar í tvær skrár. Í kennslaskrá eru skráðar upplýsingar um erfðagerð þeirra sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, s.s. fyrir kynferðisbrot eða hættulega líkamsárás. Í sporaskrá eru þá upplýsingar um erfðaefni sem fundist hafa á brotavettvangi og ætlað er að tengist broti, án þess að vitað sé frá hverjum þau stafa.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra er vinna við erfðaefnisskrána í fullum gangi – nú sex árum eftir að lögin voru sett. Þegar hafa verið sendar út leiðbeiningar til lögreglu um hvernig safna eigi sýnum á vettvangi en tafir hafa einkum verið vegna þess að ekki hefur fengist staðfesting frá Bandarísku alríkislögreglunni, FBI, um að hægt verði að nýta hugbúnað stofnunarinnar, Codis, hér á landi. Þó er talið fullvíst að skráin verði komin í notkun innan árs.

Víst þykir að lögin muni taka einhverjum breytingum frá því sem nú er, en heimildir nágrannaþjóða Íslands vegna sambærilegra gagnagrunna hafa verið rýmkaðar til muna á undanförnum árum og eru mun rýmri en íslensku lögin. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagðist aðspurður ekki hafa heyrt þau sjónarmið að rýmka þyrfti lögin um erfðaefnisskrána og vildi því ekki tjá sig um þau að sinni.