25. júlí 2007 | Minningargreinar | 2267 orð | 1 mynd

Sesselja Hrönn Guðmundsdóttir

Sesselja Hrönn Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 27. nóvember 1972. Hún lést á líknardeild Landspítalans 9. júlí síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Fossvogskirkju 19. júlí.

Stundum geta minningar verið það dýrmætasta sem maður á og þannig líður mér þegar ég hugsa til þín, elsku Dedda mín. Þrátt fyrir að hafa ekki verið í sambandi undanfarin ár er sá tími sem ég átti með þér undir það síðasta mér mikilvægari en orð fá lýst. Þú sagðir við mig þegar ég kom til þín að þú hefðir saknað mín, eins var mér innanbrjósts. Þú ert órjúfanlegur hluti af mínu lífi enda hefur vinátta okkar varað lengi. Ég sá þig fyrst í Sörlaskjólinu sem krakka en síðar lágu leiðir okkar saman í Melaskóla, Hagaskóla og síðast en ekki síst MH. Við vorum saman á hverjum einasta degi og það er deginum ljósara að það var mikið talað og margt gert. Við deildum öllu í MH og okkur fannst t.a.m. óþarfi að báðar væru að glósa þegar við sátum saman í tíma sem var ósjaldan. Gígabeibklúbburinn sem stofnaður var í Danmörku starfar enn, enda talaðir þú um það ekki fyrir svo löngu að hann þyrfti nýtt lógó vegna breytts útlits meðlima. Þú varst einstaklega hugmyndarík og skapandi persóna og fannst snemma þína réttu braut á listasviðinu enda kom strax í ljós hversu mikill listamaður þú varst og hafðir svo sannarlega skapað þér nafn á því sviði.

Þú varst alltaf langt á undan öllum öðrum í pælingum um lífið og tilveruna, dauðann og önnur tilverustig enda kveiðst þú ekki ferðalaginu sem beið þín. Þú settir líf þitt í Guðs hendur þess fullviss að hann myndi leiða þig á betri stað þar sem þú gætir haldið áfram að fullnýta krafta þína og sköpunarhæfileika.

Það er óendanlega sárt að hugsa til þess að loksins þegar við hittumst aftur þá var það til að kveðja. Ég er rík að hafa átt þig sem vinkonu enda hefur sú vinátta haft mikil og mótandi áhrif á mig og mitt líf. Þú hefur snert hjörtu margra meira en þú getur ímyndað þér og í djúpum rótum míns hjarta muntu alltaf eiga þér stað og af öllum þeim ótalmörgu minningum sem ég á um þig er ein sú dýrmætasta um stelpuna sem ég elti norðurljósin með.

...þá kleifst þú klettótta slóða

með slíðrað sverð í farteskinu

leiðin lá á tinda

og faðmaðir himinn

jöklar og eldfjöll

risu til þín

á hæsta tindinn

tré í skógi hafa lofað

þúsundir þig

hrópað þig velkomna

fræ þeirra falla til jarðar

og vaxa með minningu þína

...nú stend ég einn í skógi miðjum

í iljarnar kitlar af iðandi fræjum þar undir

hrópa svo undir taka tré:

af myrkri þínu stafar

birta þess sem lifað hefur

dáið

og valið að lifa...

(Davíð A. Stefánsson)

Þín

Halla.

Fyrir tveimur árum hittumst við Dedda í hádeginu á kaffihúsi til að kveðjast áður en hún héldi til Danmerkur. Hún var á mjög háum hælum og í dökkblárri töff dragt og dökkbláum þykkum ullarsokkabuxum, flott greidd og með svartan augnblýant. Alltaf glæsileg hún Dedda. Þetta var svokallaður "pæju-lunch", ég var auðvitað líka búin að punta mig og Sóley Friðrika kom með.

Það var glampandi sól og yndislegur dagur, og dæmigert að Dedda væri í ullarsokkabuxum enda er seint hægt að kalla hana sóldýrkanda. Hún eyddi ekki dýrmætum tíma sínum í að flatmaga í sólinni. Við sóttum svo Svölu Kristínu í leikskólann og fórum allar saman í landið hennar Deddu, "Lóulöpp", og vitjuðum rabarbara-garðsins míns sem hún gaf mér í afmælisgjöf um sumarið. Við kvöddumst svo allar innilega; stórt knús í garðinum og hlökkuðum til allra stundanna sem við ætluðum að eyða saman á landinu og því næst í húsinu stórkostlega sem hún ætlaði að byggja þar. Við reiknuðum út að það tæki ekki nema hálftíma labb frá landinu hennar heim til mín á Kristnibraut.

Það var mikið áfall og er enn, að nokkrum vikum seinna er Dedda búin að fara í heilauppskurð úti í Danmörku; illkynja æxli sem nær hafði dregið hana til dauða var fjarlægt. Dedda hafði næstum lamast alveg vinstra megin í líkamanum og við tóku lyfja- og geislameðferðir ásamt endurhæfingu. Þessi grimmi skaðvaldur krabbameinið dró síðan Deddu til dauða er hún lést mánudaginn 9.júlí sl. Það var á vissan hátt gott fyrir Deddu að fá frið eftir þessa skelfilegu baráttu þar sem hún barðist eins og hetja. Samt er það að eina sem ég hugsa um að þetta er svo ofboðslega óréttlátt og ég vil bara fá Deddu aftur núna strax ... fara aftur með henni upp á Lóulöpp og spjalla, fara aftur í "pæju-lunch", svo margt sem við eigum eftir að gera saman. Elsku besta Dedda mín var tekin frá mér í blóma lífsins. Deddu þekkti ég frá 10 ára aldri. Dedda var stórkostleg manneskja, alveg einstök persóna og ekki síður einn besti og framsæknasti hönnuður og listamaður sem Íslendingar hafa eignast. Takk fyrir að vera besta vinkona mín, Dedda, og takk fyrir þennan tíma sem við fengum saman. Dedda var listamaður af guðs náð. Dedda var líka sérstök eins og listamenn eru, sjálfhverf og erfið og gerði marga hluti á undarlegan hátt og nálgaðist mannfólk öðruvísi en margur. Líf mitt varð á margan hátt betra og skemmtilegra fyrir vikið að fá að kynnast Deddu; hún gaf mér svo mikið af sér, kenndi mér svo margt og á vissan hátt hugsaði svo vel um mig. Hún var alltaf vinur í raun og samgladdist mér innilega þegar ég eignaðist dætur mínar og fannst hún eiga mikið í þeim og þá sérstaklega Sóley Friðriku sem hún tengdist sterkt. Ég gæti skrifað lengstu minningargrein í heimi um hana Deddu, þvílíkum mannkostum var hún gædd og svo sterkur persónuleiki sem hönnuður sem hún var. Deddu verður minnst að eilífu. Ég og Haukur, Sóley Friðrika, Svala Kristín og Franziska dætur okkar vottum Steina, Jónínu Björgu og nánustu ættingjum okkar dýpstu samúð.

Valgerður Maack.

Að helga allt, áður en maður byrjar, það var hennar lífsmáti. Því verkar brottförin eins og bæn og von er fædd í tómi upp úr þungaðri stund. Verkurinn hverfur og hið skapaða tekur við, hið umbreytta mætir deginum og minnist þess ljóss sem það fann í myrkrinu og hlúði að,

eða fann ljósið okkur aðeins að gamni sínu til að birta okkur sannindin eins og fyrir tilviljun, hefði hún spurt?

Í tóninum hefði hún þó einnig svarað sér óafvitandi kannski en miðlandi játandi bjartsýni, en þannig birtist hún mér ævinlega, mér sem leiði hugann að minningu hennar til að tjá ástvinum Sesselju Hrannar Guðmundsdóttur, Deddu, samhryggð mína um leið og ég vonast til að spegla dálitlu broti af því sem við deildum í fáeinum orðum til að dreifa huganum og tengja við tímann sem ekki er til.

Á þessum síðum og í öðrum greinum hefur vafalaust verið haft orð á hinum ýmsustu staðreyndum varðandi líf Deddu, starf og viðmót gagnvart öllu því sem hún gaf sig að,

heilindi er eitt orð en ást annað sem í fullveldum sínum ná að einhverju leyti að ramma þá eiginleika sem hún bar á þeim vígvöllum sem fótum hennar og anda mættu; og var til eftirbreytni. Ég minnist einskærrar aðdáunar minnar og fölskvaleysis í návist hennar af þeim sökum og varð því oft sem líf manns breyttist og staðfestist í víxlverkan þeirri sem alkunn er sjáendum tímaleysisins.

Verk Sesselju bera þessu sterklega vitni og gera að staðreyndum áhrifamátt lítilla lausna frammi fyrir stórum spurningum. Það þarf ekki að þröngva til með hroka og valdi því sem leiðir sig sjálft áfram í gildi æðri gæða.

Það þarf ekki sýnilega orku eða krafta til að fegra líf sitt og náungans – sem og er jú væntanlega nokkurs konar takmark sem mannkyn allt sammælist um – fegurra mannlíf.

Það er fagurt sem gerist þegar "rétt" er farið að öllu. Að helga allt, áður en er byrjað, og sinna ávallt þeirri endurhelgun sem nýlunda krefst af ferðalangnum svo sporin á enda leiðar kallist fegrun. Hún gerði samverkafólki og aðnjótendum verka hennar heiminn að bærilegri dvalarstað.

Ég er þakklátur og mér er kært að kalla hana eina af þeim sem mér hafa kennt mest á lífsleiðinni. Það eru ekki margir þeim gáfum gæddir að gefa sig alla í miðlun á þeirri gæfu sem þeir eru aðnjótandi, og auðga mann.

Af því einu að spegla sig í samskiptum við hana nemum við sem augasteinar þá birtu sem flóir af ljósbrunni kærleika auk þess heilunarmáttar sem verk hennar öll bjóða upp á.

Og þó að ævintýralegt fordómaleysi og velvilji meistarans gerði mig á stundum að vanþakklátum nemanda þá er manns að greina slíkt og þroskast í átt að umtalaðri fegurð.

Í hversdeginum á meðan við hin eftirlifandi leitum að hreinum tóni munum við hér eftir væntanlega minnast hennar í hvert sinn sem við heyrum hann, að því gefnu að við séum, eins og hún var, á "réttu" leiðinni, inn í heim sköpunar og leyndardóms sem hún kallaði hið eilífa nú.

Í hinu eilífa núi er engin Dedda, "only Hite," og býr í okkur öllum, "only Hidden."

Guð geymir hana, vitanlega.

Arnaldur Máni.

Elsku Dedda.

Það var yndislegt að fá að kynnast þér undir þessum erfiðu og sérstöku kringumstæðum í þínu lífi. Þú svo klár, andlega meðvituð, gefandi, falleg, fyndin og skemmtileg. Ég vil þakka þér fyrir það traust sem þú sýndir mér með því að eiga með mér góðar stundir og skiptast á leyndarmálum á meðan þú gekkst þennan erfiða veg.

Ég gleymi seint þegar við tókum hádegismat og bíltúr í sveitina og ræddum daginn og veginn í fallegu veðri í vor. Við áttum djúpar samræður um alls konar hluti – um drauma og erfiðleika, um vonbrigði og vonina og svo trúna. Ég man svo vel eftir því þegar þú talaðir um þitt samband við Guð með fullvissu um að hann væri með þér í einu og öllu. Ég efa ekki að hann búi með þér að eilífu og sjái um þig alltaf elsku Dedda. Ljós hans skein í gegnum þig. Þú ert hetja og fyrirmynd. Guð geymi þig.

Þín vinkona,

Ragnhildur Magnúsdóttir.

Elsku vinkona. Það er erfitt að ímynda sér að orkuveran þú sért horfin úr holdlegri mynd. Það er ómögulegt að sætta sig við það sem virðist svo ósanngjarnt mannlegum skilningi. Ég veit einnig að þú myndir ráðleggja mér að velta þessu ekki svona fyrir mér, því allt sé í himnalagi.

Þú sást gleðina og það bjarta í lífinu og af einlægni en þroskaðri sköpunargáfu og skilningi hjálpaðir mörgum að víkka sjóndeildarhringinn. Þú varst yfirburða hæfileikarík og last þér til um eðlisfræði og raunvísindi samstiga skapandi listgáfu þinni. Þú sagðir mér að skuggahliðarnar væru kennslustundir sem okkur væru gefnar í lífinu til að þroskast sem sálir og komast nær Guði. Þú sagðist "biðja fyrir Guði því hann fílar það". Ég þekki fáa sem dytti í hug að biðja fyrir Guði.

Þú vissir líka hvernig náttúran vildi láta koma fram við sig. Þú kenndir mér að sýna henni virðingu með því að kaupa lífrænt ræktað grænmeti og umhverfisvænt þvottaefni. Þegar þú heimsóttir mig í Frankfurt varstu að taka á móti verðlaunum fyrir hönnun á lífrænu ljósi. Þú varst þvílík hæfileikakona, elsku Dedda, að auðvitað voru þau mörg verðlaunin sem þú fékkst. Einhvern veginn virðist það haldast í hendur að þeir sem þurfa að kljást við þyngstu byrðina eru gæddir ofurkrafti. Þú barðist hetjulega og sýndir læknavísindunum í tvo heimana. Þú sýndir okkur að kraftaverk á jörðu eru til.

Þegar veikindin voru á lokasprettinum bjóst ég alveg eins við að þú myndir einhvern veginn hefja þig yfir þetta og fljúga á fætur. Í stað þess flaugstu á okkur óþekktar slóðir. Þú kenndir mér svo margt sem hjálpar mér núna að takast á við sorgina. Þú vissir margt sem tekur ábyggilega heila ævi eða lengur að skilja og varst gjafmild á visku þína. Það er engin leið til sem gerir mögulegt að takast á við þessar fréttir önnur en sú að finna til í hjartanu.

Það er svo stutt síðan þú veiktist. Ég var nýflutt til San Francisco en þrátt fyrir yfir áratugar útilegu erlendis á báða bóga áttum við ekki erfitt með að eiga í nánum og skemmtilegum samskiptum með símtölum og tölvupósti. Guði sé lof að ég fékk að sitja við hlið þér áður en þú kvaddir, að ég fékk að halda í hönd þína og horfa í augun þín áður en þú lagðist í dásvefn. Takk fyrir það. Í stað þess að leyfa þér að gleðja okkur með lengri samvistum léði almættið þér vængi og ég bið þig að gæta okkar sem eftir erum. Ég trúi því að þú sért á betri stað núna þar sem lífsmáttur þinn blæs töfraryki á framandi stjörnur, rétt eins og þú skapaðir svo sérstakan heim með list þinni og veru hér á jörðu.

Nú skrifa ég þér hinstu kveðju frá New York. Borginni sem þú kunnir svo vel við að vera í og við stefndum á að búa samtímis í. Ekkert jarðneskt getur linað sársaukann sem fylgir því að missa þig svona alltof snemma. Við getum hins vegar reynt að sýna hugrekki eins og þér einni var lagið og reynt að læra að lifa í þakklæti fyrir þær góðu stundir sem við áttum saman.

Guð geymi þig. Elsku Jónína Björg, Steini, fjölskylda og vinir, mínar einlægar samúðarkveðjur.

Hildur Pálsdóttir.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Kveðja,

Baldursfélagar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.