Gunnar Gunnarsson
Gunnar Gunnarsson
Í TILEFNI af útgáfu Bjarts á Svartfugli verður boðið upp á menningardagskrá á Svartfuglsslóðum, á Saurbæ á Rauðasandi, að kvöldi laugardags, 28. júlí.
Í TILEFNI af útgáfu Bjarts á Svartfugli verður boðið upp á menningardagskrá á Svartfuglsslóðum, á Saurbæ á Rauðasandi, að kvöldi laugardags, 28. júlí. Dagskráin ber titilinn Við klukknahljóm syndugra hjartna og er samvinnuverkefni Bókaútgáfunnar Bjarts, Gunnarsstofnunar og Ferðafélags Íslands.

Sögulegur bakgrunnur Svartfugls er eitthvert frægasta morðmál Íslandssögunnar, svokölluð Sjöundármorð. Gunnar B. Gunnarsson flytur erindi um Svartfugl og landskunnir leikarar lesa valda kafla úr bókinni.

Þá mun Ásthildur Haraldsdóttir flautuleikari leika verkið Lethe eftir Atla Heimi Sveinsson og séra Sveinn Valgeirsson flytur hugvekju. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Bjartur samdi við Gunnarsstofnun í vor um útgáfu á tveimur bóka Gunnars, Svartfugli og Aðventu og er frekari útgáfa Bjarts á bókum hans ekki útilokuð og stefnt á frekara samstarf.