Víkverji er nöldurpúki og skammast sín ekkert fyrir það, enda hverjum manni hollt að nöldra. Villi borgarstjóri lofaði því að hreinsa borgina, fyrir rétt rúmu ári.
Víkverji er nöldurpúki og skammast sín ekkert fyrir það, enda hverjum manni hollt að nöldra. Villi borgarstjóri lofaði því að hreinsa borgina, fyrir rétt rúmu ári. Hann byrjaði á því að taka til heima hjá sér, í Breiðholti, sendi þangað undirmenn sína sem voru rosa duglegir í einn dag. Svipaður hreinsunardagur var haldinn í 104 fyrir skömmu. Víkverji býr í 101, nær sjó en tjörn, og man vart eftir öðru eins rusli fjúkandi um allar götur og garða og á síðustu mánuðum.

Hvern einasta dag þarf Víkverji að tína upp sígarettupakka, plast utan af dagblöðum, einnota kaffibolla og dagblaðasíður úr garði sínum. Þegar Víkverja bregður sér í bæjarferð fýkur ruslið í andlitið á honum á Laugaveginum, sígarettustubbar út um allt og glerbrot stráð um gangstéttir. Víkverji misskildi borgarstjórann greinilega. Hann ætlaðist greinilega til þess að fólk hætti að henda rusli hvar og hvenær sem er. Hann ætlaði ekki að senda út aukinn mannskap og fleiri hreinsitæki, það er greinilegt. Víkverji hlýtur að draga þá ályktun að Reykvíkingar séu sóðar. Nóg er til af ruslatunnum en menn virðast ekki hafa orku til að ganga að þeim með tómar gosflöskur eða sígarettupakka, vilja heldur fleygja þeim inn í garð nágrannans.

Víkverji hefur heimsótt margar borgir og þær margar skítugar. Reykjavík er með þeim allra sóðalegustu. Hvergi annars staðar hefur Víkverji séð menn fleygja heilli BigMac-máltíð og tæma úr öskubökkum út um bílglugga. Mönnum virðist ekkert heilagt. Menn sóða meira að segja út Elliðaárdalinn.

Villi borgarstjóri, hvað er að gerast? Víkverji telur tvennt þurfa að gera: Annars vegar efla vitund ungviðis fyrir umhverfi sínu, nauðsyn snyrtimennsku og mikilvægi góðrar umgengni. Ungur nemur hvað gamall temur. Hins vegar þarf að hreinsa borgina almennilega! Það mætti kannski byrja á því að slægja draslið upp úr Reykjavíkurtjörn, svo Villi hafi ómengað útsýni.