Júlíus Hafstein
Júlíus Hafstein
ÞEGAR Júlíus Hafstein, skrifstofustjóri Viðskiptaþjónustunnar í utanríkisráðuneytinu, kom fyrst til Moskvu skömmu fyrir Ólympíuleikana þar í borg árið 1980 vakti það athygli hans hversu fáir voru á ferli og umferðin lítil.
ÞEGAR Júlíus Hafstein, skrifstofustjóri Viðskiptaþjónustunnar í utanríkisráðuneytinu, kom fyrst til Moskvu skömmu fyrir Ólympíuleikana þar í borg árið 1980 vakti það athygli hans hversu fáir voru á ferli og umferðin lítil. Nú 27 árum síðar heimsótti hann borgina í annað sinn og var upplifunin sú að þar hefði ekki orðið breyting heldur allsherjarbylting.

"Það sem sló mig einna mest var að umferðin var algjör glundroði, algjörlega óskipulögð og enginn agi á götunum," segir Júlíus. "Á leiðinni út á flugvöll ókum við hjá þremur árekstrum. Þetta sló mig og ég velti því fyrir mér hvernig þeir ættu að fara að því að koma á jafnvægi í þessu þjóðfélagi. Það mun taka langan tíma. Við erum ekki að tala um ár heldur áratugi, jafnvel enn lengri tíma. Það er búinn að liggja undir í þessu landi einhver kraftur sem fékk enga útrás. Svo kemur hún og þá springur allt í loft upp."

Eiga nokkuð langt í land

Júlíus, sem veltir því fyrir sér hvort glundroðinn eigi almennt við um menninguna og pólitískt ástand eystra, segir gömlu Sovétlýðveldin eiga misjafnlega langt í land hvað viðskiptahætti snertir.

"Það er ekkert launungarmál og það liggur fyrir hvernig viðskiptalífið er og hvernig það er að hefja viðskipti í þessum löndum. Víða er spillingin og talað er um mútuþægni. Við verðum ekki varir við þessa mútuþægni í ráðuneytinu heldur höfum við fengið upplýsingar frá ýmsum viðskiptaaðilum okkar."

Júlíus segist aðspurður lítið þekkja til glæpastarfsemi í þessum löndum en það orð fari þó af Rússlandi þar sem viðskiptahættir gamla tímans séu enn við lýði. Þetta sé ekki einskorðað við einstaklinga sem vilji fá greiðslu fyrir "að hjálpa til," heldur nái þessi arfleifð einnig til hversu erfitt sé að stofna fyrirtæki.

"Það er merkilegt með þessar þjóðir, þær eru allar orðnar lýðræðisþjóðir, það er kosið til þings og það eru þingbundnar stjórnir. Samt virðist sem gamla kerfið sé enn þá við lýði. Þær eiga eftir að leysa ýmislegt í þessum gömlu kerfum sem við teljum sjálfsagt að láta afgreiða strax. Ýmsir hafa sagt það við mig, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórnum þarna úti, ekki þó í Rússlandi að vísu, í Slóvakíu, Ungverjalandi, Úkraínu og löndunum þar um kring, að þeir geri sér grein fyrir þessu og þessu þurfi að breyta."

Íslendingar skoða fasteignir

Þrátt fyrir annmarka markaðarins leggur Júlíus áherslu á sóknarfærin, í Rússlandi séu "gríðarlega mörg tækifæri til margra hluta sem allir geri sér ljóst."

"Það er greinilegur áhugi hjá mörgum íslenskum aðilum að skoða fasteignamarkaði í þessum löndum. Byggingaraðilar eru að spyrjast fyrir um möguleika á samstarfi við þarlenda aðila, til dæmis við uppbyggingu í Slóvakíu, Rússlandi og víðar. Orkumarkaðurinn er annað dæmi en þörfin þar er gríðarleg. Lítið er um endurnýjanlega orku eins og við þekkjum hana og því möguleikar íslenskra orkufyrirtækja, verkfræðiskrifstofa og ýmissa annarra, með alla okkar reynslu og þekkingu, næstum því ótakmarkaðir.

Júlíus telur að menn þurfi að fara sér hægt.

"Ég held að það sé líka ljóst að menn þurfa að fara varlega og vinna heimavinnuna sína mjög vel áður en þeir fara af stað. Þeir þurfa að skoða þá viðskiptaaðila mjög vel sem þeir eru að fara í viðskipti við."

Júlíus segir slíkar upplýsingar einkar mikilvægar og nefnir sem dæmi hversu þýðingarmikið það sé að hafa viðskiptafulltrúa í Rússlandi. "Í Þýskalandi þarf ekki að vera viðskiptafulltrúi sem þekkir vel innviði kerfisins heldur viðskiptaumhverfið almennt. En til dæmis í Rússlandi er það greinilega nauðsynlegt til að komast að ýmsum upplýsingum og ná mikilvægum samböndum. Viðskiptaumhverfið og þekking á því verður auðvitað einnig að vera til staðar. Hvað sem öllu líður þá er Rússland stórveldi sem aðeins á eftir að styrkjast."