Yfir væntingum Kaupþing skilaði 26,1 milljarðs króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi. Á fyrri helmingi ársins nam hagnaðurinn 46,8 milljörðum.
Yfir væntingum Kaupþing skilaði 26,1 milljarðs króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi. Á fyrri helmingi ársins nam hagnaðurinn 46,8 milljörðum. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur sigrunrosa@mbl.is KAUPÞING banki hf. birti í gær uppgjör sitt fyrir annan fjórðung þess árs og er óhætt að segja að afkoman sé yfir væntingum.
Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur

sigrunrosa@mbl.is

KAUPÞING banki hf. birti í gær uppgjör sitt fyrir annan fjórðung þess árs og er óhætt að segja að afkoman sé yfir væntingum.

Hagnaður Kaupþings eftir skatta jókst um 44,9% á fyrri hluta þessa árs borið saman við sama tímabil í fyrra og nemur nú tæpum 46,8 milljörðum króna. Hagnaður til hluthafa Kaupþings nemur um 45,8 milljörðum króna og hefur aukist um 43,8% á viðmiðunartímabilinu.

Hvað varðar annan ársfjórðung er hagnaður bankans rétt rúmir 26 milljarðar króna og tvöfaldast milli ára. Afkoman er yfir spám greiningaraðila en greining Glitnis hafði spáð um 22,3 milljörðum og greining Landsbankans 24 milljörðum.

Hagnaður á hlut eykst að sama skapi verulega á tímabilinu. Var 47,9 kr. á hlut fyrri helming síðasta árs en fer nú í 62,2 krónur á hlutinn. Sé reiknað á ársgrundvelli telst arðsemi eiginfjár á fyrri hluta ársins vera 32%. Heildareignir bankans hafa jafnframt aukist; námu tæpum 4,7 milljörðum króna í júnílok.

Mikil tekjuaukning varð á öðrum ársfjórðungi hjá Kaupþingi en tekjur af rekstri jukust um 66,8% og námu 51,8 milljörðum króna. Þar af jukust hreinar vaxtatekjur um 38% og hreinar þóknanatekjur um 65,4%.

Kaupþing bókfærir 4,3 milljarða sölu vegna Eikar fasteignafélags á öðrum ársfjórðungi.

Rekstrarkostnaður jókst um 28,5% í fjórðungnum og munar þar mest um fjölgun starfsmanna og kostnað vegna aukinna umsvifa, segir í uppgjöri bankans.

Kostnaðarhlutfall á öðrum ársfjórðungi var 36,7% sem er veruleg lækkun miðað við kostnaðarhlutfall upp á 46,7% á sama tíma í fyrra.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri lýsir ánægju sinni með uppgjörið í tilkynningu og segir mikla aukningu þóknanatekna einkenna það, jafnframt góðum vexti í vaxtatekjum. Innlán hafi aukist það sem af er árinu og nemi nú um 46% af heildarútlánum, auk þess sem viðsnúningur í Bretlandi sé að skila sér.