Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson
Sigurður Oddsson telur að lífeyrissjóðir eigi að fjárfesta í steinsteypu: "Merkilegt er að stjórnir sjóðanna skuli hafa haldið föstu í lögum, að þeir megi ekki eiga fasteignir aðrar en lágmarks skrifstofuhúsnæði."
Fyrir næstum hálfri öld greiddi ég fyrst í lífeyrissjóð stéttarfélags míns. Þá var ekkert val og svo hefur lengi verið. Nú er öldin önnur. Það er komin samkeppni um sjóðsfélaga. Þeim leyfist að velja þann sjóð, sem þeir telja bestan, þegar þar að kemur. Stjórnir sjóðanna ættu að hafa þetta í huga. Spyrja sjóðsfélagana um þeirra álit og breyta skv. því. Hvort þeir séu t.d. sáttir við, að hafi annar aðilinn náð 60 ára aldri, þá er ekki hægt að ganga þannig frá inneign sinni í lífeyrissjóði að hún sé að hálfu eign maka?

Annars eru þessi ákvæði, sem samin eru með það að markmiði að sjóðirnir greiði sem minnst og helst ekki neitt, smá mál í samanburði við það, hvernig sjóðirnir fjárfesti best sameiginlega eign sjóðsfélaganna. Fjárfesting í steinsteypu hefur lengi verið arðvænlegust á Íslandi. Merkilegt að stjórnir sjóðanna skuli hafa haldið föstu í lögum, að þeir megi ekki eiga fasteignir aðrar en lágmarks skrifstofuhúsnæði. Á sama tíma hefur hinn armurinn, það er stéttarfélögin í áratugi átt og leigt sumarhús og íbúðir. Lífeyrissjóðirnir eru ríkir, en þeir væru langtum ríkari í dag hefðu þeir bundið einhvern hlut sjóðsins í fasteignum, sem ekki verða teknar af þeim.

Nýlega hafa nokkrir sjóðir innleyst mikinn hagnað vegna yfirtöku á hlutafélagi, sem þeir áttu hlutabréf í. Það gefur þessum sömu sjóðum tækifæri til að spyrja félagana um álit þeirra á fjárfestingu í steinsteypu fyrir hluta milljarðanna.

Sjóðirnir gætu spurt sjóðsfélaga sína eitthvað á þá leið: Vilt þú að lífeyrissjóðurinn þinn verðtryggi innleystan hagnað í steinsteypu og bæti aðbúnað eldri sjóðsfélaga í leiðinni?

Útskýrt að lausnin felst í því, að lífeyrissjóðurinn stofni og eigi byggingarfélag eða sé hluthafi í byggingafélagi, sem byggir íbúðir til útleigu til þeirra sjóðsfélaga, sem hafa náð því að verða eldriborgarar. Fjármagnið sem fer í byggingar er verðtryggt um leið og framkvæmt er fyrir það og íbúðirnar eru ekki áhættufjárfesting líkt og hlutabréf. Í viðbót við verðtrygginguna bætast við leigutekjur af íbúðunum.

Leiguíbúðir myndu gjörbylta kjörum þeirra, sem eru að ljúka starfsaldri. Allir ættu að geta leigt sér íbúð við hæfi. Þeir sem eiga íbúð fyrir geta selt hana í rólegheitum og notið söluverðsins. Leigt sumarhús af stéttarfélagi (lífeyrissjóðsins) á sumrin og ferðast til heitari landa á veturna.

Þyki þessi skýring leiðandi er rétt að benda á: Það getur tekið húsaleiguna um 10 ár að greiða upp íbúðina, sem gæti haft í för með sér skertar lífeyrisgreiðslur í einhvern tíma.

Höfundur er verkfræðingur.