[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Júlíusson skrifar um þorskstofninn: "...þeim líkaði ekki sú mikla takmörkun og aflakvótakerfi sem Danir höfðu krafist, breyttu yfir í sóknardagakerfi 1996 og hafa síðan 2001 veitt um og yfir 40% af viðmiðunarstofninum. Þess vegna hrundi stofninn..."
FYRIR réttum tveimur árum benti ég á í nokkrum dagblaðagreinum að þorskstofninn við Færeyjar, stærsta náttúruauðlind eyjaskeggja, væri í raun hruninn. Ekki kannski að afli hans eða stofnstærð væri þegar að engu orðin heldur væri afrakstursgeta hans orðin lítil sem engin. Jafnvel litlar sem engar veiðar minnka þá stofninn og endalokin eru fyrirséð.

Fiskifræðingar virðast tæpast sjá þetta í stöðugri bjartsýni sinni og því síður útgerðarmenn eða sjómenn sem heimta alltaf meiri og meiri veiðar. Hvað þá sjávarútvegsráðherra sem kom í íslenska sjónvarpið og fullyrti að það væri bara vitleysa að þorskstofninn væri að hrynja. Stofninn við Færeyjar væri í góðu lagi, hann hefði að vísu minnkað svolítið, sjálfsagt vegna fæðuskorts og vanveiði og svo mundi hann stækka aftur eins og hann hefði alltaf gert.

Ég man ekki nákvæmlega orðalag hans en þetta er í öllu falli rökleysa. Fiskistofnar stækka og minnka en þorskstofninn stækkar ekkert bara af því að hann hafi alltaf gert það áður. Hann þarf ákveðnar forsendur til að stækka, í fyrsta lagi hrygningarstofn sem fær frið til að hrygna og gefa nýliðun, og svo aðra fiska til að lifa á svo nýliðarnir þroskist í nýjan hrygningarstofn.

Það virðast vera hagsmunur æði margra að veiða sem mest og margir reyna að rökstyðja meiri veiðar með persónulegum skoðunum eins og að vanveiði sé verri en ofveiði, að ekki sé hægt að geyma fisk í sjó eða að afrakstur þ.e. nýliðun og vöxtur fiskanna standi í öfugu hlutfalli við hrygningarstofninn og fæðuframboðið. "Þorskstofninn er eins stór og hann hefur alltaf verið og það á að veiða eins og hægt er. Það á bara að loka Hafró, reka fiskifræðingana og fleygja gögnum þeirra í Sorpu," sagði sægreifinn í Örfirisey um daginn í Kastljósi sjónvarpsins sem almennt er álitið hafa sannleikann að leiðarljósi.

Ef sjávarútvegsráherra ræður veiðunum og tekur meira mark á slíkum skoðunum en mælingum fiskifræðinga eins og færeyski ráðherrann gerði verða afleiðingarnar skelfilegar eins og Færeyingar fá nú að reyna með hruninn þorskstofn og hrynjandi ýsustofn. Skelfilegra væri þó ef ráðherrann og ruglukollarnir hefðu rétt fyrir sér og Alþjóða Hafrannsóknarráðið og fiskifræðingar væðu í villu og svíma með sínar ráðleggingar. Þá væri ekki hægt að auka aflann og margfalda gróðann af fiskveiðunum með því að draga úr sókninni eins og fiskihagfræðingar halda fram.

Skoðum því betur ástandið á færeyska þorskstofninum núna. Árlegan afrakstur má því skilgreina sem ársaflann + 83% af stofnstækkun ársins. Þetta má líka orða þannig að ef afrakstur stofnsins er ein milljón meðalþorskar eða 25 kton (þúsund tonn) þá er annaðhvort hægt að veiða þessi 25 kton á árinu án þess að stofnstærðin minnki eða veiða ekki neitt og láta afraksturinn stækka viðmiðunarstofninn um 30 kton á árinu. Þar með stækkar árlegur kvóti framtíðarinnar um 7,5 kton miðað við 25% aflareglu. Það gera 30% vexti sem hljóta að teljast góð fjárfesting og að sama skapi er margfalt dýrara að taka lán úr ofveiddum þorskstofni en hjá erlendum bönkum. Þriðji möguleikinn er svo að veiða allan stofninn strax og þurfa þá aldrei að standa í neinum veiðum framar.

Meðfylgjandi mynd sýnir afrakstur færeyska þorskstofnsins síðastliðna hálfa öld. Myndin sýnir að afrakstursgetan er hrunin og enginn afraksturstoppur kom um og eftir 2005 eins og vonast mátti eftir. Það tekur 17 ár að byggja stofninn upp um 100 kton ef afraksturinn er 5 kton á ári. Minnki afraksturinn enn geta því orðið margir áratugir, jafnvel aldir, þar til hægt verður að stunda kjörveiðar á þorski við Færeyjar.

Alþjóða Hafrannsóknarráðið, ICES, hefði átt að krefjast stöðvun veiðanna í fyrra en færeysku fiskfræðingarnir voru þá ofurbjartsýnir, að hluta vegna reiknimistaka og rangra stofnvísitalna. Þeir töldu stofninn stækkandi og reiknuðu með að heildarstofninn 2007 og 2008 yrði 49 og 63 kton! Ég tel spá þeirra í ár enn of bjartsýna en hún er þó a.m.k. raunhæfari, eða 22 og 20 kton!

Á ársfundi ICES í Hollandi í fyrrahaust sýndi ég stofnreikninga fyrir færeyska þorskinn með því er ég tel vera miklu nákvæmari reikniaðferð en fiskifræðingar nota. Ég fékk út eins og í hittifyrra að stofninn væri minnkandi og í raun hruninn þótt ég væri auðvitað með sömu röngu stofnvísitölurnar. Með réttu stofnvísitölurnar er útkoma mín í ár fyrir viðmiðunarstofn þriggja ára og eldri 2008 aðeins 11 kton! Samkvæmt gömlu íslensku 25% veiðireglunni mættu Færeyingar því ekki veiða nema 2.750 tonn á næsta ári og 2.200 tonn eftir nýju 20% reglunni.

Færeyingum tókst að endurreisa afar illa farinn þorskstofn sinn með því að veiða um og innan við 20% af viðmiðunarstofni á árunum 1992-95. En þeim líkaði ekki sú mikla takmörkun og aflakvótakerfi sem Danir höfðu krafist, breyttu yfir í sóknardagakerfi 1996 og hafa síðan 2001 veitt um og yfir 40% af viðmiðunarstofninum. Þess vegna hrundi stofninn (í raun árið 2003) og því miður átti íslensk ráðgjöf stóran þátt í því. Að fórna þannig framtíðinni fyrir ekki neitt er óskynsamlegt, en verra er þó að það er umhverfisglæpur og illvirki gegn sköpunarverkinu.

Höfundur er eðlisfræðingur.