Slagsmál Ísraelska lögreglan fjarlægði í gær um 100 gyðinga sem vildu koma upp nýjum búðum á svæði við bæinn Efrat á Vesturbakkanum.
Slagsmál Ísraelska lögreglan fjarlægði í gær um 100 gyðinga sem vildu koma upp nýjum búðum á svæði við bæinn Efrat á Vesturbakkanum. — Reuters
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is ÍSRAELAR taka vel í friðarhugmyndir Arababandalagsins sem fulltrúar Egyptalands og Jórdaníu kynntu í heimsókn sinni til Ísraels í gær, að sögn Abu Gheit, utanríkisráðherra Egyptalands.
Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

ÍSRAELAR taka vel í friðarhugmyndir Arababandalagsins sem fulltrúar Egyptalands og Jórdaníu kynntu í heimsókn sinni til Ísraels í gær, að sögn Abu Gheit, utanríkisráðherra Egyptalands. Hann átti ásamt jórdönskum starfsbróður sínum, Abdel Ilah al-Khatib, fundi með ísraelskum ráðamönnum í Jerúsalem og Tel Aviv og sagði viðbrögðin benda til þess að Ísraelar vildu nú í reynd leyfa Palestínumönnum að stofna eigið ríki.

Egyptaland og Jórdanía eru einu arabaríkin sem hafa stjórnmálasamband við Ísrael. Al-Khatib sagði að tillögurnar væru einstakt tækifæri og Ísraelar gætu öðlast "öryggi og viðurkenningu" í Mið-Austurlöndum. Um er að ræða tillögur sem Sádi-Arabar settu fram fyrir fimm árum og menn hafa nú dustað rykið af. Er þar kveðið á um að arabaríkin komi öll á stjórnmálatengslum við Ísrael en í staðinn dragi Ísraelar sig algerlega frá hernumdu svæðunum, Vesturbakkanum og Gaza. Einnig er ákvæði um að palestínskum flóttamönnum og afkomendum þeirra verði gert kleift að snúa heim.

Ísraelar höfnuðu tillögunum er þær komu fram 2002 en hafa síðar sagt að þær geti orðið grundvöllur viðræðna ef ákvæðinu um flóttafólkið verði breytt. Ráðherrarnir tveir munu gefa skýrslu um för sína á fundi utanríkisráðherra 22 ríkja Arababandalagsins á mánudag.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, staðfesti í gær að hann hefði í hyggju að ganga til samningaviðræðna við Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna, um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Að sögn vefsíðu dagblaðsins Ha'aretz er líklegt að Olmert bjóði Abbas að hið nýja Palestínuríki nái yfir Gaza og um 90% af Vesturbakkanum.

Í hnotskurn
» Ísraelar lögðu undir sig Vesturbakkann og Gaza í sex daga stríðinu gegn nokkrum arabaríkjum 1967. Einnig tóku þeir Gólanhæðir af Sýrlendingum.
» Milljónir palestínskra flóttamanna og afkomenda þeirra eru í útlegð. Segja Ísraelar útilokað að allt þetta fólk fái að setjast að í fyrri heimkynnum sínum í Ísrael.