STUÐNINGUR við sjálfsvígsárásir hefur minnkað mjög meðal múslíma í heiminum frá árinu 2002, að því er fram kemur í nýrri könnun Pew-stofnunarinnar bandarísku og lýst er á fréttavef breska útvarpsins, BBC .
STUÐNINGUR við sjálfsvígsárásir hefur minnkað mjög meðal múslíma í heiminum frá árinu 2002, að því er fram kemur í nýrri könnun Pew-stofnunarinnar bandarísku og lýst er á fréttavef breska útvarpsins, BBC . Staðan er hinsvegar oft önnur í löndum þar sem átök geisa, þannig telja um 70% Palestínumanna að það megi í sumum tilfellum réttlæta sjálfsvígsárásir gegn óbreyttum borgurum.

Í Líbanon, Bangladesh, Jórdaníu, Pakistan og Indónesíu hefur þeim múslímum sem styðja sjálfsvígsárásir fækkað um helming eða meira frá árinu 2002.

Stuðningur við hryðjuverkaleiðtogann Osama bin Laden fer dvínandi meðal múslíma. Fyrir fjórum árum sögðust t.d. 56% Líbana hafa mikið eða nokkurt álit á honum nú er hlutfallið aðeins um 20%.

Um 45.000 manns í 47 löndum tóku þátt í könnuninni. Þar kemur fram að almenn bjartsýni ríki í fátækum ríkjum heims um að næsta kynslóð muni hafa það betra en núverandi kynslóð. Niðurstöður í Rómönsku Ameríku komu á óvart en þar hafa vinstrimenn í nokkrum löndum sigrað í forsetakosningum á síðustu árum. Þrátt fyrir það telur meirihluti aðspurðra að kjör verði betri þar sem markaðsskipulagið sé við lýði.