Náttúrulegur Það er ekki oft sem gefst tækifæri til að nota hefðbundnu strandblaksbúningana á Íslandi.
Náttúrulegur Það er ekki oft sem gefst tækifæri til að nota hefðbundnu strandblaksbúningana á Íslandi. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Litríkur blakboltinn flýgur yfir sólgulan borðann á netinu og hafnar í gullnum sandinum. Unnur H. Jóhannsdóttir fylgdist með stemningunni í strandblaki inni í miðju þéttbýli.
Strandblak er skemmtun, fyrst og fremst en jafnframt krefjandi íþrótt, sérstaklega þegar sólin skín eins og hún er búin að gera í sumar. Þá kemur náttúrlega aukahiti í fólk," segja blakaranir Einar Sigurðsson, Brynjar Pétursson, Jóhannes Stefánsson og Valgeir Valgeirsson og brosa í sólskininu á strandblakvöllum HK í Kópavogi. "Þetta er sama tilfinningin og að vera á ströndinni," segir Einar. "Það er tiltölulega einfalt að ná tökum á strandblaki, reglurnar eru það einfaldar en það er erfitt að vera góður í því – eins og svo mörgum íþróttum. Þetta er almennt góð hreyfing og hentar öllum aldurshópum auk þess að vera einstaklega skemmtileg."

Strandblak er nýtt fyrirbrigði á Íslandi, enda oftar talað um fjörur en beinlínis strendur hér. Einar og Brynjar eru í hópi þeirra sem staðið hafa að uppbyggingu strandblaksins hér á landi.

"Hjá HK er starfrækt ein stærsta blakdeild landsins en strandblak er vaxandi íþróttagrein víða um heim. Við vildum gjarnan taka þátt í þeirri þróun og spila blak allan ársins hring og fundum fyrir töluverðum meðbyr í kjölfar Ólympíuleikanna 2004 en þar var strandblak á meðal vinsælustu íþróttagreinanna.

Í dag er ekkert mál að búa til strandblakvöll í þéttbýli, jafnvel þótt það sé í landi þar sem ekki er alltaf sól og blíða. HK lét gera slíka velli fyrir þremur árum á íþróttasvæði sínu í Fagralundi í Kópavogi og það er óhætt að segja að þeir hafi slegið í gegn. Nú er um tugur strandblakvalla kominn í notkun á landinu og álíka fjöldi í burðarliðnum," segir Einar og það er ljóst að strandblakið hefur numið land á Íslandi. Hann bendir líka á að Ísland eigi nú bæði karla- og kvennalandslið í strandblaki. "Stelpurnar komu okkur síðan heldur betur á kortið þegar þær lentu í 3. sæti á síðustu smáþjóðaleikum."

Útsjónarsemi og kænska

Það er stemning á vellinum og ljóst að þótt skemmtunin sé í fyrirrúmi er ekkert gefið eftir í leiknum. Strákarnir skutla sér flötum í sandinn og kýla boltann upp svo að hann snerti ekki jörðina eða, lyfta sér og "smassa" boltanum með látum yfir á vallarhelming andstæðinganna. Stundum lauma þeir honum bara létt yfir netið. "Það verður oft hiti á vellinum, sko fyrir utan sólarhitann," segir Jóhannes og hlær.

,,Já, íþróttin snýst náttúrlega um útsjónarsemi og kænsku. Það má alveg reyna að plata andstæðinginn. Snúast ekki flestar íþróttir um það?" spyr Brynjar.

Jóhannes samsinnir því og segir strandblakið góða útrás enda sé farið eftir ákveðnum leikreglum. "Það er allt í góðu þegar leikurinn er búinn."

– Sumir spila með sólgleraugu í strandblaki, skipta þau miklu máli?

"Já, Oakley, það er málið," segja Einar, Jóhannes og Valgeir og eru greinilega að skjóta á Brynjar félaga sinn sem er fljótur að svara fyrir sig og ber stoltur sín Oakley-gleraugu.

"Já, sko það er svo sandurinn fari ekki í augun á manni," segir hann og hlær.

Þeir segja að vissulega fylgi ákveðin ímynd strandblakinu en hérlendis sé hún ekki tekin mjög hátíðlega. ,,En þetta er auðvitað svalt sport. Á stórmótum er spiluð hressileg tónlist og á milli leikja eru jafnvel dansatriði," segir Valgeir.

Í sumar hafa brautryðjendurnir í samstarfi við fjölda fyrirækja haldið nokkur opin strandblakmót til þess að kynna íþróttina fyrir almenningi og á laugardaginn ætlar Vodafone að halda eitt slíkt skemmtimót á strandblakvöllunum í Fagralundi. "Við hvetjum bara flesta til þess að mæta – með sólgleraugu!"

uhj@mbl.is

Strandblakmót Vodafone verður haldið laugardaginn 28. júlí á milli kl. 13 og 18 á strandblakvöllunum í Fagralundi á HK-svæðinu. www.vodafone.is/strandblak www.strandblak.is