BANDARÍSKA álfyrirtækið Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls á Grundartanga, var rekið með 60,7 milljóna dollara tapi á öðrum fjórðungi þessa árs, en það svarar til um 3,6 milljarða íslenskra króna.
BANDARÍSKA álfyrirtækið Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls á Grundartanga, var rekið með 60,7 milljóna dollara tapi á öðrum fjórðungi þessa árs, en það svarar til um 3,6 milljarða íslenskra króna. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður félagsins hins vegar 45,8 milljónum dollara. Í tilkynningu frá félaginu segir að breytingin á afkomunni milli ára skýrist af gjaldfærslu vegna framvirkra samninga upp á 125 milljónir dollara.

Í frétt á fréttavef Reuters -fréttastofunnar segir að afkoma Century Aluminium á ársfjórðungnum sé undir áætlunum greiningaraðila. Tekjur séu hins vegar í samræmi við spár þeirra. Þær jukust um tæp 4% milli ára og námu um 464 milljónum dollara.

Í tilkynningu Century segir að starfsemi allra álverksmiðja félagsins hafi verið samkvæmt áætlun eða yfir henni. Jafnframt kemur fram að stækkun Norðuráls á Grundartanga sé á áætlun.