Rekinn Danski hjólreiðakappinn Michael Rasmussen, sem hér er fremstur í keppninni í gær, var skömmu síðar rekinn úr liði sínu. Spánverjinn Alberto Contador, hér fyrir aftan hann, tekur við forystunni af þeim danska.
Rekinn Danski hjólreiðakappinn Michael Rasmussen, sem hér er fremstur í keppninni í gær, var skömmu síðar rekinn úr liði sínu. Spánverjinn Alberto Contador, hér fyrir aftan hann, tekur við forystunni af þeim danska. — Reuters
SKJÓTT skipast veður í lofti í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France, en í gærkvöldi var Daninn Michael Rasmussen rekinn úr keppninni eftir að hafa verið í forystu í tíu daga. Rasmussen var nánast með pálmann í höndunum en keppninni lýkur á...

SKJÓTT skipast veður í lofti í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France, en í gærkvöldi var Daninn Michael Rasmussen rekinn úr keppninni eftir að hafa verið í forystu í tíu daga. Rasmussen var nánast með pálmann í höndunum en keppninni lýkur á sunnudaginn. Eftir þessi tíðindi er Spánverjinn ungi Alberto Contador skyndilega orðinn fyrstur en í humátt á eftir er Ástralinn Cadel Evans.

Michael Rasmussen hafði í gær aukið forskot sitt þegar hann kom fyrstur í mark á 16. leið. Hann hafði verulega gott forskot og allt leit út fyrir sigur hans í keppninni. Næstur honum var Contador sem var þremur mínútum og tíu sekúndum á eftir Rasmussen. En nokkrum klukkutímum síðar hafði lið Danans, Rabobank, rekið hann úr keppninni.

Áhorfendur sem fylgdust með í gær bauluðu á Danann en hann er grunaður um neyslu ólöglegra lyfja í undirbúningi sínum fyrir keppnina. Forráðamenn Rabobank-liðsins hafa komist að því að Rasmussen sagði þeim ósatt um hvar hann hélt til í aðdraganda keppninnar og fór hann ekki í lyfjapróf fyrir keppnina. Vegna þessa sektaði lið hans hann um 10 þúsund evrur, en Alþjóðahjólreiðasambandið taldi sig ekki geta komið í veg fyrir þátttöku hans í keppninni. Ekki hefur verið sannað að Rasmussen hafi neytt ólöglegra lyfja en hann hefur staðist mörg lyfjapróf eftir að keppnin hófst. En ljóst er að hann reyndist ósannindamaður og það hefur sett mikla pressu á hann og lið hans. Daninn var á Ítalíu í júní en sagðist vera í Mexíkó.

Pat McQuaid, forseti Alþjóðahjólreiðasambandsins, sagði við fjölmiðla í gærkvöldi að hann fagnaði niðurstöðunni: ,,Fyrstu viðbrögð mín voru einfaldlega að velta því fyrir mér af hverju þeir gerðu þetta ekki í lok júní, þegar þessar upplýsingar lágu fyrir. Liðið ákvað að reka hann úr keppninni, þetta er þeirra ákvörðun og ég get bara fagnað henni. Menn geta látið sér þetta að kenningu verða í framtíðinni."

Sprenging í Navarra-héraði

Þegar keppni hófst í gær urðu átta keppnislið eftir í nokkrar mínútur í rásmarkinu, til að lýsa vanþóknun sinni á framgangi Alexandre Vinokourov sem féll á lyfjaprófi í fyrradag. Fremstu menn voru þó ekki þar á meðal.

Keppendur hjóluðu í gegnum bæinn Belegua í Navarra-héraði og þar varð sprenging rétt utan vegarins, sem ætlað er að hafi komið frá liðsmönnum ETA, aðskilnaðarhreyfingar Baska. Engum varð þó meint af sprengingunni og þetta olli litlum sem engum truflunum á keppninni.