Uppskera Grænmetisbændur á Hverabakka II á Flúðum eru byrjaðir að taka upp kál en hafa þurft að vökva mikið í sumar með ýmsum leiðum.
Uppskera Grænmetisbændur á Hverabakka II á Flúðum eru byrjaðir að taka upp kál en hafa þurft að vökva mikið í sumar með ýmsum leiðum. — Morgunblaðið/Sigurður Sigmunds
KARTÖFLUBÆNDUR á Suðurlandi og við Eyjafjörð segja uppskeru sumarsins velta á því að almennileg rigning falli á næstunni, en kartöflugras er nú farið að visna og vöxtur víða hættur.
KARTÖFLUBÆNDUR á Suðurlandi og við Eyjafjörð segja uppskeru sumarsins velta á því að almennileg rigning falli á næstunni, en kartöflugras er nú farið að visna og vöxtur víða hættur. Að sögn Sigurbjarts Pálssonar á Skarði í Þykkvabæ hefur aðeins vöknað á steini í sumar en ekkert að gagni. Hann ræktar kartöflur á 30 hekturum lands og hefur ekki tök á því að vökva það allt. Sprettan var ágæt snemmsumars og hefur hann þegar tekið upp nokkurt magn og selt í búðir en nú er svo komið að vöxturinn hægist og inn á milli eru blettir af skrælnuðum plöntum.

Bergvin Jóhannsson, bóndi á Áshóli í Grýtubakkahreppi hefur sömu sögu að segja. Þar hefur lítið rignt og plöntur eru farnar að visna inn á milli. Hann segist feginn hafa viljað fá skúrina sem Reykvíkingar fengu í vikunni. Hins vegar falli meiri dögg á þegar náttmyrkur aukist og plönturnar nýti hana vel.

Hjalti Egilsson, bóndi á Seljavöllum við Hornafjörð kveður ástandið bærilegt hjá sér. Varla hafi komið deigur dropi úr lofti en þó verið þokuloft sem hafi borið raka með sér. Hjalti hefur haft vökvunarbúnað á 4-5 hekturum og byrjaði því mjög snemma að taka gullaugað upp, eða 13. júlí. Nú getur hann fært vökvunarbúnaðinn til en í heildina eru hans kartöflugarðar um 20 hektarar.

Friðrik Rúnar Friðriksson, grænmetisræktandi á Flúðum segir sprettu góða því hann vökvi mikið, uppskera verði meiri en í meðalári. Hann hafi fjárfest í öflugum vökvunarbúnaði í vor og dæli vatni úr Hvítá til þess. Hins vegar sé grænmeti visnað og sviðið að hluta til. Aðrir ræktendur sem ekki hafa jafnöflugt áveitukerfi og Friðrik hafa einnig notað haugsugur til að dæla yfir sína akra.