Fín "Sýningin er áferðarfalleg og sérstök hvað varðar efnismeðferð."
Fín "Sýningin er áferðarfalleg og sérstök hvað varðar efnismeðferð."
Sýningin stendur til 29. júlí. Opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.
VERK finnsku listakonunnar Önnu Alapuro í sal Íslenskrar Grafíkur eru unnin með þrenns konar grafíktækni: karbórundum, sáldþrykki og þurrnál. Tæknin býður upp á möguleika á að vinna með sterka liti á malerískan hátt en það er einmitt liturinn sem tengir saman hin ólíku myndefni á sýningunni.

Handverk eins og hekl og prjón ratar á skemmtilegan hátt inn í sumar myndanna og uppstækkuð mynstur í sterkum andstæðum litum skapa víbrandi sjónupplifun. Í stílhreinni mynd af flísavegg er áhersla lögð á hina einstöku glampa sem myndast á stórum fleti meðan ávaxtaskál í rauðu, bleiku appelsínugulu og gulu dregur fram eigindir aldinkjöts og safa.

Í sýningarskrá sem fylgir má sjá fleiri myndir en eru á sýningunni, m.a. fleiri áhugaverðar uppstillingar af ávöxtum og villidýrum. Myndheimur Alapuro vísar til gamalla og nýrra menningarlegra táknmynda sem sóttar eru í hannyrðir, tréskurð, mósaík frá miðöldum og skrautmuni hversdagsins.

Sýningin er áferðarfalleg og sérstök hvað varðar efnismeðferð. Hún er þó fulllítil og of brotakennd til að koma til skila einhverri heildarsýn á verk listakonunnar. Titill sýningarinnar vísar einmitt til þess að hér séu einungis brot á ferðinni og þau eru nógu safarík til þess að mann langi til að sjá meira.

Þóra Þórisdóttir