Þórunn Sveinbjarnardóttir
Þórunn Sveinbjarnardóttir
"ÉG hef áður lýst því yfir að ég hef fullan hug á því að skoða utanvegaakstursmálin ofan í kjölinn og taka til endurskoðunar þau ákvæði laga sem undir umhverfisráðuneytið heyra og þar á ég fyrst og fremst við náttúruverndarlögin," segir Þórunn...
"ÉG hef áður lýst því yfir að ég hef fullan hug á því að skoða utanvegaakstursmálin ofan í kjölinn og taka til endurskoðunar þau ákvæði laga sem undir umhverfisráðuneytið heyra og þar á ég fyrst og fremst við náttúruverndarlögin," segir Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra. Í gær fjallaði Morgunblaðið um það hvort endurskoðunar væri þörf á lagaákvæðum um akstur utan vega og þau orð höfð eftir sýslumanninum á Selfossi að löggjafarvaldið yrði að gera það upp við sig hvort það ætlaði að taka á utanvegaakstri eða láta hann liggja á milli hluta.

"Ég er sammála því að við þurfum að grípa til markvissra aðgerða hvað þetta varðar og hafa skýran rétt til inngrips þegar um akstur utan vega er að ræða," segir Þórunn. Í þessum málum þurfi hins vegar margt að fara saman. "Eitt er að gera viðeigandi lagabreytingar og annað að hafa fullnægjandi eftirlit með akstri utan vega. Í þriðja lagi þarf að sjá til þess að vegir og vegslóðar séu merktir með fullnægjandi hætti, þannig að ferðamönnum sé ljóst hvort þeir séu að aka utan vega eður ei," segir Þórunn. Allt þurfi þetta að vera í lagi til þess að árangurs megi vænta í þessum efnum til frambúðar.