Penelopé Cruz
Penelopé Cruz
London. AFP. | Snyrtivörurisinn L'Oreal var áminntur í gær af breskri eftirlitsstofnun með auglýsingum (ASA) fyrir misvísandi sjónvarpsauglýsingu sem Penelopé Cruz lék í.
London. AFP. | Snyrtivörurisinn L'Oreal var áminntur í gær af breskri eftirlitsstofnun með auglýsingum (ASA) fyrir misvísandi sjónvarpsauglýsingu sem Penelopé Cruz lék í.

Í auglýsingunni er "telescopic" maskarinn frá L'Oreal sagður lengja augnhárin um allt að 60% og kemur Cruz fram í henni með einstök fölsk augnhár inn á milli sinna eigin augnhára.

Eftirlitsstofnunin gerði L'Oreal að taka fram héðan í frá ef gerviaugnhár væru notuð í auglýsingum og einnig að taka yrði sérstaklega fram að maskarinn lengdi ekki augnhárin í raun heldur léti þau aðeins virðast 60% lengri.

L'Oreal bar því við að það væri alvanalegt í snyrtivörubransanum að nota gerviaugnhár í auglýsingum, en það væri til þess að tryggja beinan og jafnan sveig á enda augnháranna. Í tilkynningunni var bætt við að L'Oreal hygðist þó fara eftir kröfum eftirlitsstofnunarinnar í framtíðinni.

Í júlí síðastliðnum var snyrtivörufyrirtækið Garnier, sem er hluti af L'Oreal samsteypunni, sektað um 30.000 evrur vegna kynþáttamismununar. Garnier hafði sett þau skilyrði að þær stúlkur sem kynntu hárvörur Garnier í verslunum yrðu að vera hvítar.