Sónata nr. 8 eftir Jean Marie-Leclair (1697-1764), Barcarolle í Fís op. 60 eftir Chopin, Svartþrösturinn (Le Merle Noir) eftir Messiaen (1908-1992), Madrigal eftir Philippe Gaubert (1916) og Sónatína eftir Pierre Sancan (1879-1941).

Sónata nr. 8 eftir Jean Marie-Leclair (1697-1764), Barcarolle í Fís op. 60 eftir Chopin, Svartþrösturinn (Le Merle Noir) eftir Messiaen (1908-1992), Madrigal eftir Philippe Gaubert (1916) og Sónatína eftir Pierre Sancan (1879-1941). Listasumar á Akureyri föstudaginn 20. júlí 2007 kl. 12. í Ketilhúsinu.

HÁDEGISTÓNLEIKAR á Listasumri hafa svo sannarlega fest sig í sessi. Föstudag eftir föstudag er boðið upp á tónleika, oftast ungs fólks, sem hafa bæði náð að laða að sér áheyrendahóp, sem virðist halda sæll og glaður út í sumarið að tónleikum loknum. Góðar viðtökur þessara tónleika eru líka athyglisverðar fyrir það að í hverri viku eru á dagskrá þrennir til fimm tónleikar um nær tveggja mánaða skeið sem eru almennt vel sóttir. Þegar hlýtt er á tónlistarmenn á borð við Hafdísi og Kristján Karl þá lyftist landið og björt ára færist yfir ásýnd þess. Þau stunda bæði meistaranám í Frakklandi, en hafa áður öðlast margháttaðar vegtyllur og viðurkenningar. Efnisskrá tónleikanna samanstóð af franskri tónlist og Chopin með sínum ægifagra Bátsöng (Barcarolle) er þar á meðal, vegna hræringa hans og náinna lífstengsla við Frakkland. Það var augljóst í fyrsta þætti sónötu Leclair að þar fór saman öguð túlkun byggð á mikilli leikni beggja flytjenda. Of mikinn enduróm í píanói hefði átt að dempa með notkun veggtjalda. Þegar Kristján Karl einlék Bátsönginn, sem er jafnframt að margra mati eitt áhrifamesta píanóverk 19. aldarinnar, þá gat ég ekki annað en farið að hlakka til að hlýða á einleikstónleika með honum, sem ég vildi að yrðu sem fyrst. Fuglaskoðarinn mikli, Messiaen, var í verki sínu Svartþrösturinn að semja sitt fyrsta tónverk af mörgum byggðum á bíbbi fugla og var þetta verk mikil uppljómun í sumardýrðinni í verulega áhrifamikilli túlkun. Efnisskráin var í heild vel valin með tilliti til andstæðna og sterkra hrifa. Sorgartónn í fallegum Madrigal, sem Gaubert samdi í minningu kennara síns Paul Taffenel og tilþrifamikið impressíónískt verk Sancan náðu að leika á tilfinningaskalann í sinni breidd. Einnig fluttu tónleikarnir manni íburð franskrar hirðar og einlægni söngvísra aðþýðustefja í senn.

Jón Hlöðver