Júrí Korolev
Júrí Korolev
Í UMDEILDRI forsetatíð fyrrverandi KGB-njósnarans Vladímírs Pútíns hefur stöðugleiki rússnesks fjármálalífs aukist til muna samhliða því sem hagkerfið verður sífellt opnara.
Í UMDEILDRI forsetatíð fyrrverandi KGB-njósnarans Vladímírs Pútíns hefur stöðugleiki rússnesks fjármálalífs aukist til muna samhliða því sem hagkerfið verður sífellt opnara. Glundroði "villta austursins", tímabils mikillar fjárfestingaráhættu síð-Jeltín-áranna, er að baki og markaðurinn drifinn af miklum og örum vexti.

Þetta segir Júrí Korolev, viðskiptafulltrúi utanríkisþjónustunnar í Rússlandi sem veitir íslenskum fyrirtækjum ráðgjöf um fjármálaumhverfið eystra.

Korolev segir rússneska fjármálamarkaðinn orðinn mjög samkeppnishæfan, ógagnsæi sé þó töluvert og erfitt að fá opinberar upplýsingar sem og viðskiptaupplýsingar frá fyrirtækjum. Þetta eigi m.a. við efnahagsreikninga fyrirtækja, sérhver rannsókn á markaðnum muni fyrr en síðar rekast á þessar hindranir.

Inntur eftir áhuga Íslendinga á fjárfestingum í Rússlandi segir Korolev megináhersluna á orkugeirann og sjávarútveginn, allt frá afurðum til hátækni. Áhuginn einskorðist hins vegar ekki við þessi svið og að fyrirtæki frá öðrum geirum, svo sem í lyfjaiðnaði, tölvuleikjagerð og fatahönnun, hafi leitað til hans um upplýsingar um markaðinn. Þetta geri starf hans erfitt því ekki séu til grunnupplýsingar um öll svið atvinnulífsins og að grafa þurfi eftir þeim í samræmi við hverja beiðni fyrir sig.

Verður sífellt opnari

Korolev telur ekki að Pútín hafi misnotað vald sitt sem forseti. Hitt sé þó ljóst að honum hafi verið mislagðar hendur við uppbyggingu flokkakerfisins. Komnir séu fram flokkar en að flokkahugsun sé ekki til né heldur hugmyndafræðin á bak við þá. Talið berst því næst að framtíðaráhorfum markaðarins og aðspurður segir Korolev mjög erfitt að svara til um hvenær þessi viðskiptamenning muni breytast. Hagkerfið verði sífellt opnara en guð einn viti hvenær það muni gerast.

Korolev er einnig þeirrar hyggju að svart/hvítur samanburður á viðskiptaumhverfinu í stjórnartíð Pútíns og Jeltsíns sé varhugaverður. Þótt erlendir aðilar séu nú mjög áhugasamir um að koma inn á markaðinn hafi mikil áhersla verið lögð á að laða að fjármagn og tækniþekkingu í tíð hins umbótasinnaða Jeltsíns. Fyrir suma hafi "villta austrið" svokallaða staðið undir nafni. Auðvelt hafi verið að græða og tapa fé, áhættan hafi verið gríðarleg en hún sé nú minni.

Nú hafi Pútín komið á stöðugleika sem auðveldi til muna allar spár um framtíðarhorfur markaðarins. Sérfræðingar á hans sviði séu þó ef til vill ekki allir ánægðir með kyrrstöðuna. Fólk sé ekki á móti stöðugleikanum út af fyrir sig heldur hafi það áhyggjur af því að kerfið sé að verða of þungt í vöfum og ekki jafn greiðfært og sveigjanlegt og á árum áður. Það ýti undir stöðugleikann að regluverkið sé að verða flókið. Þeir sem séu orðnir vanir breytingum og hafi aðlagast þeim vilji meiri dýnamík en aðrir.

Hvorki gult né rautt

Eins og áður segir gefur Korolev lítið fyrir tvítónagreiningu á rússnesku fjármálalífi fyrr og nú. Það sama á við um stjórnmálin og inntur eftir þeirri túlkun að Rússland hafi færst í átt til einræðis undir stjórn Pútíns segir hann blaðamann biðja sig um að dæma appelsínugulan lit með því lýsa honum gulum eða rauðum. Einræði sé gult, lýðræði rautt. Sannleikurinn sé að stjórnkerfið feli í sér blöndu þessara heitu lita.

Hann biður blaðamann um að leita dýpra inn á við og er launað með spurningu um gagnrýni á minnkandi frelsi fjölmiðla eystra.

Korolev svarar því til að kannski séu þeir minna frjálsir en honum er sama. Pútín láti sér fátt um finnast um gagnrýna fjölmiðla og hvaða gagn sé að slíkum fjölmiðlum þegar öllum stendur á sama.

Spurður um þetta afskiptaleysi segir hann almenning áhugalausan um stjórnmálin. Hann treystir sér ekki til að skýra orsakir þessarar þróunar en bætir við að engir valkostir séu í boði. Svo hugsar hann sig um og segir: "Rússar hafa háð ótal stríða í sögu sinni, hvers vegna ættum við að taka meiri áhættu."