Örn Gunnlaugsson
Örn Gunnlaugsson
Örn Gunnlaugsson skrifar um greiðslu ýmissa aukagjalda sem fyrirtæki krefja viðskiptavini sína um: "Seljendur hafa sjálfir kosið að kaupa þessa innheimtuþjónustu sér til þæginda og hún er greiðanda því í raun óviðkomandi."
SÍFELLT færist í vöxt að fyrirtæki seilist í vasa viðskiptamanna sinna og krefji þá um greiðslu aukagjalds sem kemur til viðbótar þeirri upphæð sem viðskiptamaður hefur ákveðið að kaupa fyrir. Þessi gjöld hafa fyrirtækin ýmist kallað greiðslugjald, seðilgjald, tilkynningargjald osfrv. Síminn og veitufyrirtækin hafa komist upp með þetta í áraraðir í skjóli þess að þessi fyrirtæki geta hreinlega lokað á viðskipti samþykki viðskiptamenn þeirra ekki að greiða þessi gjöld og þannig komið viðskiptamönnum sínum í veruleg vandræði. Fyrirtækin bera fyrir sig afsakanir á borð við að verðlagning þjónustunnar sé gagnsæ og ef þetta gjald kæmi ekki til þá væri þetta falið inni í verði þjónustunnar.

Ef þetta er rétt hvers vegna tekur Síminn þá engin seðilgjöld af ellilífeyrisþegum? Greiða ellilífeyrisþegar þá meira fyrir þjónustuna sjálfa, þ.e. hærri taxta- eða eru einhverjir aðrir að greiða fyrir þá? Hvernig sem menn túlka fyrir hvað verið er að greiða og hvort verðlagning er gagnsæ þá er alveg fráleitt að fyrirtæki skuli komast upp með að krefja viðskiptamenn sína sérstaklega um þessi gjöld. Þetta er kostnaður sem er til kominn vegna þess að seljandi hefur kosið sjálfur að kaupa þessa innheimtuþjónustu af viðskiptabanka sínum sér til þæginda við að halda utan um innheimtu reikninga sinna og er hún greiðanda því í raun óviðkomandi. Þar fyrir utan eru þessi gjöld yfirleitt langt umfram það sem bankarnir taka fyrir þessa þjónustu. Kjósi greiðandi að millifæra vegna viðskiptanna sér að kostnaðarlausu þá er honum ekki gert slíkt kleift vegna þess að seljandi hefur valið ákveðið innheimtukerfi sem hann ætti þá sjálfur að bera kostnað af.

Þetta er sambærilegt og verslanir myndu krefja viðskiptamenn sína um þrifagjald ofan á verð keyptrar vöru vegna þess að viðskiptamaðurinn ber með sér óhreinindi neðan á skónum þegar hann gengur inn í verslunina og veldur slíkt því kostnaði við að þrífa. Gegnsærra gæti það ekki verið. Myndir þú sætta þig við að fyrir td. mjólkurfernu sem verðlögð er í hillu stórmarkaðar á 100 krónur værir þú krafinn um 110 krónur á kassa vegna þess að umbúðirnar kostuðu 10 krónur og þær væru ekki innifaldar í verðinu? Og þú átt þess í raun engan kost að losna undan þessu aukagjaldi þó þú vildir ekki kaupa umbúðirnar.

Nú virðist hafa orðið sprenging í álagningu þessa gjalds en mörg fyrirtæki eru farin að lauma þessu inn án þess að láta viðskiptamenn sína vita af því, þó slíkt breyti í sjálfu sér engu um réttmæti þeirra. Ég skora á fólk að neita að greiða reikninga sem þessum gjöldum hefur verið bætt ofan á og benda seljendum á að stefna málunum inn til dómstóla vilji þeir láta reyna á réttmæti gjaldanna. Sá dómari sem dæmir svona gjöld réttmæt hlýtur að vera viti sínu fjær. Síminn og veitufyrirtækin komast sjálfsagt upp með þetta meðan ekki liggur fyrir úrskurður dómstóla um annað í sambærilegum málum enda eru þau í þeirri stöðu að geta lokað fyrir þjónustu til viðskiptamanna sinna ef þeir hlýða ekki án athugasemda. Á meðan verða þeir því að njóta þess "heiðurs" að vera ókrýndir konungar þjófanna hvað þessa hluti snertir. Fátt er það orðið sem sumir skammast sín fyrir – spurning hvort ekki þurfi að kenna mönnum "að skammast sín" í fjármálakúrsum háskólanna.

Höfundur er framkvæmdastjóri og háskólanemi.