Björn Guðmundson fæddist á Akranesi 22. ágúst 1928. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi sunnudaginn 15. júlí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Neskirkju 25. júlí.

Tvær minningargreinar um Björn runnu saman í Morgunblaðinu á útfarardegi hans.

Við birtum því greinarnar aftur og biðjum alla hlutaðeigandi afsökunar á mistökunum.

Á sólríkum sumardegi lést Björn Guðmundsson, sambýlismaður móður okkar, eftir stutt en erfið veikindi. Þau voru svo lánsöm að eignast hvort annað eftir að hafa verið ekkjufólk í mörg ár. Ánægjulegt var að sjá hvað þau nutu lífsins og leið vel saman. Björn var einstaklega hlýr og gefandi maður sem vildi öllum vel. Hann var mikill fjölskyldumaður og ræktaði samband sitt við hana vel og tengdi fjölskyldurnar tvær órjúfanlegum böndum. Við systur og fjölskyldur þökkum Birni ánægjulega samfylgd og biðjum Guð að geyma hann.

Aðalbjörg, Stefanía

og Sigrún.

Öðlingurinn Björn Guðmundsson, eða Bjössi eins og fjölskyldan kallaði hann, er fallinn frá. Minningabrot frá liðnum tímum þjóta gegnum hugann og alltaf rifjast fleiri atvik upp. Bjössi var giftur Ástu litlu systur hans pabba og þótt hún félli frá héldust tengsl óbreytt. Aldrei bar skugga á vináttu hans og velvild í okkar garð. Ég man eftir því hvað ég var hissa þegar ég hitti hann á frjálsíþróttamótum á Laugardalsvellinum fyrir rúmlega þrjátíu árum. Þar var hann mættur til að fylgjast með mér stelpuskottinu keppa og það oftar en einu sinni. Sama gilti um tónleika sem ýmsir meðlimir fjölskyldunnar stóðu fyrir, þar var Bjössi mættur. Hann var rausnarlegur með afbrigðum og nutum við velvildar hans og góðmennsku margoft og ég er þess fullviss að við erum ekki ein á báti þar. Það er svo ótalmargs að minnast, við erum einhvern veginn aldrei reiðubúin að kveðja gott fólk, Bjössi var svo lifandi maður. Foreldrar mínir sakna hans sárt, símtalanna og samverustundanna. Hvíl þú í friði elsku Bjössi. Elsku Dísa, Hulda, Ási, Gummi og fjölskyldur, ég sendi ykkur og fjölskyldum ykkar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Erna.

Birni Guðmundssyni frænda mínum og systkinum hans kynntist ég ekki fyrr en ég var orðinn fullorðinn og sestur að á höfuðborgarsvæðinu – með einni undantekningu þó. Ágætur kennari minn og fararstjóri unglingahóps frá Akureyri í landsprófsferð til Reykjavíkur vorið 1957 vissi um skyldleika okkar Karls Guðmundssonar og kynnti okkur, og þá sýndi þessi stóri og karlmannlegi maður sextán ára frænda sínum þá vinsemd að bjóða honum í mat á Mjólkurbarnum.

Sumarið áður sá ég hins vegar föður þeirra bræðra, Guðmund Ólafsson ömmubróður minn, rétt í svip í eina skiptið á ævinni. Hann átti þá tvö ár ólifuð og var í pílagrímsferð í átthögum sínum og gekk inn í búð á Akureyri þar sem ég var verslunarþjónn það sumarið og vildi fá að sjá strákinn sem hann virti rólega og rannsakandi fyrir sér. Ég var feiminn við óvæntan gest og hef sjálfsagt orðið dálítið skrítinn á svipinn, en man best hve mér þótti hann hávaxinn. Ekki var Ólöf kona hans, sem ég sá líka einu sinni, lægri vexti, svo að ekki var furða þótt börn þeirra yrðu engir kettlingar, enda dæmi þess að í hópinn væri sóttur kvikmyndaleikari þegar leika þurfti tröll á Íslandi.

Guðmundi ömmubróður mínum og fjölskyldu hans kynntist ég ekki meira en raun ber vitni þar sem ég ólst eingöngu upp hjá móðurfólki mínu og hann fluttist ungur suður og staðfestist þar, fyrst á Akranesi, en lengst á Laugarvatni. Vænt hefur mér hins vegar þótt um hve aðrir hafa borið þessu frændfólki mínu úr föðurætt vel söguna. Alltaf hef ég notið þess, en aldrei goldið, þegar ég hef hitt gamla Laugvetninga sem Guðmundur kenndi eða þekktu til fjölskyldu hans. Synir hans gegndu allir miklum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum. Eitt dæmið var seta Björns, sem nú hefur kvatt, í alþjóðastjórn Lions-hreyfingarinnar.

Björn Guðmundsson var ekki jafn hávaxinn og sumir aðrir í fjölskyldunni, en engu síður vaskur og vel gerður maður og drengur góður sem lét gott af sér leiða í lífi og starfi. Eftir gagnfræðapróf úr MA venti hann sínu kvæði í kross, nam klæðskeraiðn og hélt til Bandaríkjanna að læra fjöldaframleiðslu fata. Björn sagði mér að áður hefði hann eitt sinn mætt Sigurði Guðmundssyni skólameistara á götu í Reykjavík. Hann spurði nemanda sinn hvað hann ætlaðist fyrir og mælti eftir að hann vissi svarið: "Það er göfugt starf að auka fatamennt þjóðarinnar!"

Eftir að Björn var orðinn iðnrekandi og fatakaupmaður verslaði ég stundum við hann og man hann glaðan og góðsinna í Herrahúsinu, með málbandið um hálsinn. Við hittumst við fleiri tækifæri, en mest urðu kynni okkar í Færeyjum þar sem báðir voru samtímis um hríð eftir að Björn varð viðskiptaingsfulltrúi þar. Þá kynntumst við hjón líka Ástu konu hans og nutum stuðnings þeirra og velvildar á og utan heimilis. Ég kynntist honum því á dálítið öðrum vettvangi en systkinum hans, en hjá því frændfólki mínu hef ég alltaf átt góðu að mæta þegar fundum hefur borið saman. Fyrir það votta ég Birni látnum virðingu og þökk og sendi systkinum hans, börnum og öðrum ástvinum kveðju mína.

Hjörtur Pálsson.