Raleigh. AP. | Myspace hefur tilkynnt að yfir 29.000 dæmdir kynferðisafbrotamenn hafi gert sér heimasvæði innan MySpace tengslanetsins. Í maí síðastliðnum tilkynnti fyrirtækið um 7.
Raleigh. AP. | Myspace hefur tilkynnt að yfir 29.000 dæmdir kynferðisafbrotamenn hafi gert sér heimasvæði innan MySpace tengslanetsins.

Í maí síðastliðnum tilkynnti fyrirtækið um 7.000 skráða kynferðisafbrotamenn innan tengslanetsins og hefur þeim því fjölgað mikið á tveimur mánuðum, en þeir eru fjórum sinnum fleiri nú í júlí heldur en í maí. Nú hefur öllum þekktum svæðum kynferðisafbrotamannanna verið eytt út af vefnum en þeirra er leitað með hjálp yfirlits yfir dæmda kynferðisafbrotamenn í Bandaríkjunum.

MySpace-menn neituðu lengst af að gefa upplýsingar um málið og báru fyrir sig lög um persónuvernd. Þeir létu þó undan í maí eftir að nokkur fylki Bandaríkjanna höfðuðu mál gegn þeim.

Forsvarsmenn MySpace neituðu að tjá sig um það í viðtali við AP -fréttastofuna að kynferðisafbrotamenn notuðu vefinn mikið en sögðust ánægðir með að hafa fjarlægt svo mörg heimasvæði þeirra sem raun væri og hvöttu aðrar svipaðar vefsíður til að gera það sama.

Tillaga þess efnis að samþykki foreldra og staðfesting á aldri og persónu, verði gert að skilyrði fyrir skráningu barna á vefsíður eins og MySpace hefur verið samþykkt í öldungadeild þingsins í Norður-Karólínuríki í Bandaríkjunum en hefur verið vísað til undirnefndar í fulltrúadeild þingsins. Ríkissaksóknari bendir á að samkvæmt fjölmiðlum hafi yfir 100 glæpsamleg tilvik verið rakin til MySpace-síðunnar á þessu ári þar sem fullorðnir hafi reynt að tæla börn.

Um 81 milljón manna um allan heim notar MySpace og eiga mörg þúsund Íslendingar heimasvæði á MySpace. Alls eru um 180 milljónir heimasvæða á síðunni.